18.12.1985
Neðri deild: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

182. mál, málefni aldraðra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hélt því ekki fram í minni ræðu, þó að e.t.v. hafi það valdið misskilningi, að verið væri að brjóta nein lög í sambandi við það hvernig staðið er að úthlutun þess fjármagns sem ákveðið er til aldraðra. Ég vakti aftur á móti athygli á því að framkvæmdavaldið, sem lagði fram það frv. á sínum tíma - þetta er stjórnarfrv. - tók með þessu þá ákvörðun að draga til sín og þessarar nefndar ákvörðunarréttinn um það hvernig dreifa bæri þessu fjármagni. En það er ekki verið að brjóta lög, það er mér ljóst.

Hins vegar kom það fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að honum stóð ekki alveg á sama um það hvert fjármagnið færi. En það er rétt að ég vakti hér athygli á því að framkvæmdavaldið væri undir fleiri kringumstæðum að draga til sín frá þinginu stórar ákvarðanir í fjárveitingum, m.a.s. þeir sem hafa lýst yfir að þeir séu blóðugir upp að öxlum í niðurskurði, ef trúa má fréttaflutningi. Mér finnst að sú niðurskurðarumræða sé komin á dálítið annað stig með þeim fréttum sem bárust okkur í ríkisútvarpinu en slíkar yfirlýsingar bera með sér.