18.12.1985
Neðri deild: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

182. mál, málefni aldraðra

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að koma aðeins inn í þessar umræður. Þær eru dálítið óvenjulegar, ekki síst með tilliti til þess máls sem hér er á dagskrá.

Ég vil alvarlega vara við því að menn tali um þetta út og suður eins og hér sé um einhver smámál að ræða. Alþingi hefur samþykkt lög um málefni fatlaðra og málefni aldraðra til að gera sérstakt átak í þessum málum og sett um það skýr ákvæði. Til úthlutunar í þessum málaflokkum er valið fólk sem er vissulega til þess hæfast miðað við þá reynslu sem það hefur og nálægð við málið. Þess vegna er ástæðulaust að vera að gera athugasemdir að þessu leyti til.

Í sambandi við Framkvæmdasjóð aldraðra, sem hér er á dagskrá, vil ég benda hv. þm. á að í lögunum sjálfum er gert ráð fyrir því að þegar stjórnarnefndin gerir tillögur um úthlutun á sjóðnum skuli formaður fjvn. vera þátttakandi í þeirri úthlutun. Þetta er því tengt inn á fjárveitingavaldið á þessu sviði líka.

Ég ætla ekki að láta hjá líða að mótmæla því sem hér hefur komið fram. Ég tel að þessi málsmeðferð sé í alla staði sú rétta í þessu máli.