18.12.1985
Neðri deild: 36. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

84. mál, skráning skipa

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Samgn. flutti brtt. við þetta frv. við 2. umræðu sem var svo tekin til 3. umræðu vegna þess að skiptar skoðanir voru um það hvort í þessu frv. ætti heima heimild til að lækka eða fella niður stimpilgjöld af þinglýsingum á þessum skipum. Ég taldi fyrir mitt leyti að það væri kannske eðlilegt að sú heimild væri í 6. gr. fjárlaga en hæstv. fjmrh. og fjmrn. vildu frekar setja hana inn í þetta frv. Því flytur samgn. brtt. þess efnis að við 1. gr. bætist ný málsgr. svohljóðandi:

„Fjmrh. er heimilt að lækka eða fella niður stimpilgjöld af eignarheimildum og veðskuldabréfum sem þinglýst kann að verða hér á landi vegna skipa sem skráð verða hérlendis skv. 2. og 3. málsgr. Fjmrh. setur nánari reglur um framkvæmd gjaldívilnana skv. þessari málsgr."

Ég tel óþarfa að ræða þetta frekar, þessi brtt. skýrir sig sjálf. Ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir því að þessi brtt. megi koma fyrir þar sem hún er of seint fram borin.