18.12.1985
Neðri deild: 36. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

108. mál, Jarðboranir hf.

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. fjh.- og viðskn. um Jarðboranir hf. Eins og fram kemur í athugasemdum við þetta lagafrv. undirrituðu borgarstjórinn í Reykjavík og hæstv. iðnrh. hinn 8. maí 1985 samning milli ríkisstjórnar Íslands og borgarstjórnar Reykjavíkur um sameiningu Gufuborana ríkisins og Reykjavíkurborgar og Jarðborana ríkisins. Með frv. er lagt til að ríkisstj. verði veitt heimild til að ganga frá sameiningu þessara borfyrirtækja.

Eins og kemur fram í nál. þá er sagt frá því í 49. gr. orkulaga að við allar jarðboranir sem eru dýpri en 10 m skuli halda dagbækur, er gefi upplýsingar um jarðlög, gerð þeirra og dýpi, hvenær vatn eða gufa kemur í holuna, hitastig og hvað annað sem reglugerð ákveður eða Orkustofnun mælir fyrir um að færa í dagbók.

Vegna þessarar greinar þótti ástæða til að taka fram, eftir ábendingu frá forstjóra Orkustofnunar, að ákvæði 49. gr. orkulaga eru áfram í gildi og gilda gagnvart Jarðborunum hf. með sama hætti og þau gilda nú gagnvart Jarðborunum ríkisins. Vakin skal athygli á því að ákvæði 49. gr. gilda um skyldur þess sem lætur bora og réttur Orkustofnunar til að gefa þessum aðila fyrirmæli er ótvíræður og skerðist ekki.

Orkustofnun hefur ekki húsbóndavald yfir Jarðborunum hf. á sama hátt og Jarðborunum ríkisins, en sérstakt lagaákvæði um upplýsingaskyldu Jarðborana hf. mun ekki breyta þessu. Rétt er að vekja athygli á að húsbóndavald Orkustofnunar yfir Jarðborunum ríkisins er samkvæmt ráðherrabréfi í dag, sbr. 54. gr. orkulaga, og er því ekki tryggt með lögum. Þar sem lagalegur réttur Orkustofnunar til að krefja Jarðboranir ríkisins um upplýsingar er því eingöngu byggður á 49. gr. orkulaga og engum öðrum ákvæðum laga verður sama lagaskylda í gildi gagnvart Jarðborunum hf.

Einn nm., hv. þm. Páll Pétursson, var fjarverandi afgreiðslu málsins. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt og undir þetta nál. rita auk mín þeir hv. þm. Guðmundur Einarsson, Ólafur G. Einarsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Svavar Gestsson og Halldór Blöndal.