18.12.1985
Efri deild: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

182. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Það frv., sem hér er flutt, er flutt í þeim tilgangi að gjald það, sem greitt er í Framkvæmdasjóð aldraðra og er svonefndur nefskattur sem lagður er á hvern gjaldanda frá 16 ára aldri til 75 ára yfir ákveðnum lágmarkstekjum, verði 1000 kr. á næsta ári. Við meðferð málsins var orðalagi frv. breytt til að taka af tvímæli um að það yrði ekki hærra en 1000 kr. á næsta ári því að lögin hafa að geyma ákvæði um að upphæðin breytist með skattgjaldsvísitölu. Þess vegna var þessu atriði breytt á þann veg að sú upphæð, sem samþykkt verður, taki breytingum með skattgjaldsvísitölu þannig að það eru 732 kr. sem verður talan sem í frv. stendur og á að gefa 1000 kr.

Jafnframt verður breytt upphæðinni, sem menn geta haft í tekjur án þess að þurfa að greiða þetta gjald, á þann veg að í stað þess að upphæðin, sem í lögunum var í fyrra, hækki með skattgjaldsvísitölu verði önnur upphæð, hærri en út úr því hefði komið. Þetta þýðir í sem stystu máli að elli- og örorkulífeyrisupphæðin að viðbættri tekjutryggingu hefur hækkað meira á milli ára en skattgjaldsvísitalan mundi segja til um. Upphæðin, sem var í lögunum í fyrra, var fundin út með því að miða við upphæð elli- og örorkulífeyris þá ásamt tekjutryggingu. Með því að reikna skattgjaldsvísitölu á þá upphæð hefði upphæðin orðið mun lægri en hinn raunverulegi elli- og örorkulífeyrir ásamt tekjutryggingu er á þessu ári, en okkur þykir rétt að miða við þá upphæð. Þetta var till. frá fulltrúa Alþfl. í heilbr.- og trn. Á þetta féllust allir og er það út af fyrir sig gleðiefni að þar með væri staðfest að þessi upphæð hefði hækkað í þeim mæli sem raun ber vitni og veitti reyndar ekki af.

Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að hv. heilbr.- og trn. geti afgreitt þetta frv. nú þótt skammur tími sé til stefnu. Þetta er víst eini skatturinn í landinu sem er vinsæll. Ég leyfi mér að leggja til að málinu verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.