24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

Um þingsköp

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hefur það áður gerst að fundur væri hafinn í þessari hv. deild klukkan þrjú að nóttu? Ég hygg að svo sé ekki. Ég hygg að það hafi aldrei gerst áður að tekið væri til meðferðar nýtt þingmál, sem ekki hefur verið rætt hér í deildinni, á þessum óvenjulega tíma sólarhrings.

Menn geta sannarlega deilt og eiga eftir að deila hér í deildinni um réttmæti þessa máls og sýnist þar sitt hverjum. Okkur mörgum þykir ekki sæmandi að afgreiða þetta mál. Öðrum þykir það. En um hitt deila menn varla að það er óhæfa að taka mál af þessu tagi til meðferðar fyrir deildinni á þessum tíma sólarhrings og ætla deildinni að afgreiða málið í gegnum þrjár umræður, rannsaka málið í nefnd, eiga viðtöl við málsaðila, allt u.þ.b. sem fer að morgna. Þetta er bæði ósæmandi, óhæfa og óvirðing við deildina.

Ég vil því lýsa því yfir, nú þegar greiða á atvæði um það hvort afbrigði verða veitt, að við Alþýðubandalagsmenn munum ekki greiða því atkvæði. Við munum greiða atkvæði gegn því og mótmælum því að þessi fundur fari nú fram.

Hv. deild á enga sök á því að málið hefur ekki komið fyrr til meðferðar hér. Það á enginn þá sök annar en ríkisstjórnin sem hefur frestað því í allan dag að taka málið til meðferðar hér í þinginu. Þó búið væri að tilkynna að málið yrði til meðferðar hér í dag þá kom það ekki til umræðu fyrr en klukkan hálf sex. Hún virðist hafa verið að bræða það með sér hvort það væri sæmandi að fara með þetta mál hér inn í þingið, virðist hafa hikað svo og tafsað yfir málavöxtum að hún kom því ekki frá sér hér inn í þingið fyrr en síðla dags og þess vegna hlaut svo að fara.

Ég held að við verðum bara öll að horfa framan í þá staðreynd að svona er komið. Þetta er orðinn hlutur. Við verðum að sætta okkur við það sem orðið er. Héðan af getur þetta mál aldrei orðið að lögum fyrr en einhvern tímann á morgun. Mál verða ekki að lögum með þeim eina hætti að Alþingi fjalli um málið. Það á eftir að bera málið upp við forseta lýðveldisins og það á eftir að birta lögin, þar á eftir. Allt tekur þetta sinn tíma, þannig að menn sjá auðvitað fram á að það verður aldrei fyrr en einhvern tímann á morgun sem það gerist. Það verður auðvitað ekki farið að birta þessi lög fyrr en á skrifstofutíma, þannig að það breytir engu þótt Ed. taki sér þann tíma sem sæmilegur getur talist til þess að kanna málavöxtu og ræða þá.

Ég er ekki að kvarta yfir því að við skulum vaka hér um miðja nótt. Þm. munar ekkert um það að vaka. En hitt er aðalatriðið að það er útilokað með öllu að deildin geti veitt þessu máli efnislega meðferð og aflað þeirra upplýsinga sem augljóst er að um verður beðið. Ef við óskum eftir útreikningum, sem einungis er hægt að framkvæma á skrifstofum hér í borginni sem eru lokaðar, þá er ljóst að við fáum þær ekki. Við sjáum það þegar fyrir fram. Og ég endurtek því að það er fjarstæða að við þm. sýnum Alþingi og deildinni þá óvirðingu að taka þetta mál til meðferðar.

Ég mótmæli því eindregið að þessi atkvæðagreiðsla fari fram. Ég mótmæli því eindregið að málið verði tekið til umræðu í kjölfar hennar og lýsi því yfir að við Alþýðubandalagsmenn munum ekki sætta okkur við þá niðurstöðu að málið verði rætt nú í nótt.