18.12.1985
Neðri deild: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

197. mál, barnabótaauki

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um sérstakan barnabótaauka. Þetta er 197. mál.

Efnisákvæði þessa frv. eiga rætur að rekja til kjarasamninga milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands í febrúar 1984 og þeirra samninga sem þessir aðilar vinnumarkaðarins gerðu þá við ríkisstj. um sérstakar ráðstafanir í skatta- og tryggingamálum til hagræðis fyrir þá sem lakast eru settir í þjóðfélaginu.

Í framhaldi af því var með lögum nr. 43/1984 kveðið á um að á árinu 1984 skyldi greiða sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 12 þús. kr. fyrir hvert barn innan 16 ára aldurs á tekjuárinu sem heimilisfast var hér á landi. Var barnabótaauki þessi tengdur bæði tekjum og eignum framfæranda þannig að hann skertist ef tekjur eða eign framfæranda fóru fram úr tilteknu marki.

Með lögum nr. 128/1984 var kveðið á um að á árinu 1985 skyldi greiða sams konar barnabótaauka en fjárhæðin hækkuð í 15 þús. kr. fyrir hvert barn. Með frv. þessu er lagt til að sambærilegur barnabótaauki verði einnig greiddur úr ríkissjóði á árinu 1986. Eru ákvæði frv. þessa samhljóða ákvæðum laga nr. 128/1984 að öðru leyti en því að allar fjárhæðir eru hækkaðar um 36% og er það í samræmi við hækkun skattvísitölu. Raungildi þessarar aðstoðar við lágtekjufólk ætti því að haldast óbreytt milli ára. Kostnaður ríkissjóðs af þessu frv. er talinn vera um 42 millj. kr.

Herra forseti. Ég vænti þess að góð samstaða geti náðst hér milli hv. þdm. um að afgreiða þetta mál fyrir jólaleyfi þm. og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.