18.12.1985
Neðri deild: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

198. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er í aðalatriðum þríþætt. Það fjallar í fyrsta lagi um frádráttarheimildir vegna vaxtagjalda fyrir húsbyggjendur. Í öðru lagi er kveðið á um skattfrelsismörk eignarskatts og loks eru ákvæði til bráðabirgða um framlengingu um eitt ár á heimild til þess að velja á milli framlaga í varasjóð eða fjárfestingarsjóði.

Meginefni frv. lýtur að vöxtum og meðferð þeirra varðandi húsbyggjendur. Þessi ákvæði eiga rætur að rekja til starfa milliþinganefndar um húsnæðismál sem falið var að kanna greiðsluvanda íbúðareigenda. Nefndin skilaði áliti sínu 7. desember s.l. og í niðurstöðum nefndarinnar er lögð áhersla á að gerðar verði ýmsar lagfæringar á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt er lúta að vaxtafrádrætti vegna lána til öflunar eigin íbúðarhúsnæðis.

Í meginatriðum voru tillögur nefndarinnar þessar:

1. Að vextir og verðbætur á sjálfskuldarábyrgðarlánum til húsnæðislána njóti sama réttar og veðlán.

2. Að frádráttartímabil vaxta á skammtímalánum lengist úr 3 og 6 árum í 4 og 7 ár vegna tekjuársins 1985.

3. Að ákvæði um lántökukostnað og frádráttarbærni vaxta verði gerð ótvíræð.

4. Að hámark verðtryggingar- og vaxtafrádráttar verði endurskoðuð til hækkunar. Athuguð verði tenging hámarksins við hreina eign.

Ríkisstj. ákvað að verða þegar við tillögum þeim sem um getur í 1. og 2. lið, þ.e. vextir og verðbætur af sjálfskuldarábyrgðarlánum til húsnæðismála njóti sama réttar og veðlán og að frádráttartímabil vaxta af skammtímalánum lengist úr 3 og 6 árum í 4 og 7 ár vegna tekjuársins 1985. Og jafnframt að því er tillögur í 3. lið nefndarinnar varðar að taka til greina stimpilgjöld og þinglýsingarkostnað af lánum.

Þá lagði milliþinganefndin til að þeir íbúðaeigendur sem hafa þunga greiðslubyrði vegna íbúðalána fái skuldbreytingu. Skv. 1. gr. frv. er vandi þeirra sem keyptu á árinu 1982 eða síðar eða byggðu á árinu 1980 eða síðar leystur í sambandi við frádráttarbærni vaxta af skuldbreytingalánum en með bráðabirgðaákvæði þessa frv. er stefnt að því að leysa sambærilegan vanda vegna skuldbreytinga hjá þeim sem byrjuðu að byggja á árinu 1979 eða keyptu íbúðarhúsnæði á árunum 1979-1982. Á þeim skamma tíma sem eftir er fram að jólaleyfi Alþingis eru hins vegar ekki tök á að endurskoða frekar ákvæði laganna um vaxtafrádrátt í því skyni að gera þau víðtækari og skýrari eins og nefndin gerði tillögu um. Hér er um mjög flókin og yfirgripsmikil mál að ræða sem krefjast nákvæmari athugunar en hægt er að koma við á svo skömmum tíma.

Þá eru í frv., eins og áður er frá greint, ákvæði um skattfrelsismörk eignarskatts og lagt til að þau hækki í samræmi við hækkun fasteignamats á árinu í staðinn fyrir hækkun í samræmi við tekjubreytingar á milli áranna 1984 og 1985. Eins og kunnugt er ákvarðast skattvísitala fyrir 1986 í samræmi við þá hækkun. Og jafnframt er lagt til að heimild lögaðila til að leggja í varasjóð í stað tillaga í fjárfestingarsjóð verði framlengd um eitt ár.

Ég tel ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara að svo stöddu fleiri orðum um efnisákvæði þessa frv., en vænti þess að góð samstaða geti tekist um það meðal hv. þdm. að afgreiða þetta mál fyrir jólaleyfi og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.