24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

Um þingsköp

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Menn hafa haft á undanförnum árum vaxandi áhyggjur af þverrandi virðingu Alþingis. Menn skyldu líta á þessu augnabliki í eigin barm og athuga hvað þeir eru að fást við. Við okkur blasa gífurleg þjóðhagsleg vandamál. Erlendar skuldir sem hafa aldrei verið meiri, fjárlagahalli sem enginn veit hvernig á að ráða bug á, vandi kjaraskerðingar hjá öllum almenningi í landinu, vandi húsbyggjenda, sem standa frammi fyrir því að verið er að bjóða ofan af þeim hús og eignir, og á meðan hefur þessi grútmáttlausa ríkisstjórn sem við búum við og múlbundnir stuðningsmenn hennar ekkert þarfara að gera en að vanvirða Alþingi með því að nauðga hér í gegn lögum um málefni sem koma hag þessarar þjóðar og því störfum Alþingis ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Því munum við þm. Bandalagsins ganga af fundi og ekki taka þátt í afgreiðslu þessa máls ef afbrigði verða leyfð fyrir afgreiðslu málsins og það verða mín síðustu orð í þessu máli.