19.12.1985
Sameinað þing: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

193. mál, stofnskrá fyrir Vestnorræna þingmannaráðið

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál. um staðfestingu samkomulags um stofnskrá fyrir Vestnorræna þingmannaráðið sem hér er til umræðu hefur verið rædd í hv. utanrmn. og er nefndin sammála um að mæla með samþykkt till.

Við fyrri umr. var gerð grein fyrir efni þessa máls, sem hv. þm. er kunnugt, og hv. þm. Páll Pétursson rakti aðdraganda málsins og efnisatriðin þannig að ég skal ekki fara lengra út í þá sálma, enda má í sjálfu sér segja að tillagan sé einföld í sniðum. En þar með er alls ekki sagt að hún sé ómerk. Þvert á móti hygg ég að hér sé að komast á samstarf þriggja þjóða sem geti orðið gífurlega mikilvægt er stundir líða.

Það er kannske rétt að vekja á því athygli að þetta er e.t.v. í fyrsta skipti í slíku samstarfi þjóða í millum sem Íslendingar eru þeir fjölmennustu og jafnframt líka þeir ríkustu og best settu þrátt fyrir allan barlóm sem við heyrum nú um stundir. Og ég held að það sé heppilegt að hv. alþm. geri sér grein fyrir því að við hljótum að hafa talsvert frumkvæði að því að þetta samstarf, sem hér er boðað og væntanlega verður staðfest af Alþingi, beri verulegan árangur. Við erum á milli þessara tveggja frændþjóða okkar sem fámennari eru og þess vegna er ljóst að við eigum að leitast við að efla þetta samstarf og koma þessu barni á legg eins fljótt og mögulegt er og hvorki að spara til þess tíma né fyrirhöfn. Fjárútlán verða sjálfsagt einhver líka en það er áreiðanlega sameiginlegt hagsmunamál þessara þriggja þjóða að efla sitt samstarf og þá auðvitað fyrst og síðast á sviði sjávarútvegsins og verndar hafsvæðanna í kringum þessi lönd.

Ég geri mér vonir um að starf þessa þingmannaráðs verði liður í þeirri sjálfgefnu stefnu Íslendinga að leitast við að laða þjóðir við nyrstu svæði Atlantshafsins saman um verndunarstefnu á sviði hafréttarins allt frá Noregsströndum og til Kanada. Þar eigum við að hafa frumkvæði. Við höfum haft frumkvæði í hafréttarmálunum Íslendingar og við skulum ekkert vera að miklast af því. Við skulum vera minnugir þess að það er ekki fullnaðarsigur unninn, öðru nær. Við skulum varðveita það sem áunnist hefur, hvort heldur er á Jan Mayenmiðum eða innan okkar sérlögsögu og það gerum við ekki öðruvísi en í góðu samstarfi við næstu nágranna. Ég leyfi mér þess vegna, áður en atkvæðagreiðsla fer fram, af því að ég þykist vita hvernig atkvæði muni falla, að óska bæði okkur og grönnum okkar, Grænlendingum og Færeyingum, til hamingju með það að þessi till. verði hér samþykkt.