24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

Um þingsköp

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að koma hér í ræðustól og mótmæla harðlega þeim ósæmilegu vinnubrögðum sem hér eru nú viðhöfð á hæstv. Alþingi. Hér er nú boðaður fundur í hv. deild á tíma sem dæmi er ekki áður til um og ætlunin að taka fyrir með afbrigðum mál sem komið hefur verið með offorsi í gegnum hv. Nd. nú í nótt. Þetta eru vinnubrögð sem ekki eru sæmandi viti bornum mönnum og ef þau verða ekki aflögð og fundi frestað lýsi ég því yfir að ég mun ekki taka þátt í þeim þingstörfum sem forseti vill halda hér fram og sem eru ekkert annað en skrípaleikur, heldur mun ég ganga héðan út og mótmæla með því þeirri valdníðslu sem hér er nú viðhöfð.

Ég geng héðan út þá einnig, og ekki síður, vegna þess að í dag er 24. október og í dag mun ég leggja niður störf til að sýna samstöðu mína með kröfum íslenskra kvenna um bætt launakjör.

Það er nöturleg staðreynd að það mál sem ríkisstj. er nú að knýja með offorsi í gegnum þingið - og ég vil benda á, með fulltingi hæstv. forseta þessarar deildar, sem er ein af níu kjörnum konum á Alþingi Íslendinga, - það snýst einmitt um að brjóta á bak aftur með lögum réttmæta kjarabaráttu einnar af kvennastéttum þessa lands.

Með þeirri lagasetningu sem ljóst er að knúin verður fram hér í dag, ef fundi verður eigi frestað, mun þessi ríkisstj. reisa sér þann minnisvarða sem henni sæmir. Sú ríkisstjórn sem henti blautum hanskanum framan í konur á sjálfum baráttudegi íslenskra kvenna. Ég mótmæli þessum ósóma og mun ganga héðan út.