19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

145. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Við tökum hér til 2. umr. frv. til laga um stjórnun fiskveiða 1986 og 1987.

Sjútvn. þessarar hv. deildar hélt tvo fundi um þetta mál og kom þar í ljós strax að nefndin var ekki sammála í þessu efni. Koma hér fram tvö minnihlutaálit. Mér hefur ekki gefist tími til að lesa það seinna sem barst núna í fundarhléinu. En nál. á þskj. 322, sem er nál. meiri hl., hljóðar svo:

„Nefndin hefur fjallað um málið og einnig átt sameiginlega fundi með sjútvn. Nd. Fulltrúar frá sjútvrn. komu á fund hjá nefndinni og skýrðu ýmsa liði frv. og lögðu fram drög að reglugerð sem farið var yfir. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem Nd. gerði á því, sbr. þskj. 264.“

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða hér nokkuð um þetta frv. og almennt um stjórnun fiskveiða hjá okkur Íslendingum því að um þetta eru og hafa verið skiptar skoðanir. Almennt eru menn sammála um að einhvers konar stjórnun verði að vera á veiðum, eitthvert hámarksmagn megi veiða úr okkar helstu nytjastofnum og þá einkum af þorski.

Haustið 1983 voru samþykkt hér á hæstv. Alþingi mjög ströng lög um fiskveiðistjórnun, svokallaður kvóti. Á þessum tíma voru landsmenn verulega hræddir um að hættuástand væri að skapast á fiskimiðum okkar vegna síminnkandi afla. Árið 1981 var eitt besta botnfiskaflaár í söguþjóðarinnar. Þá veiddust um 469 þús. lestir af þorski. Arið eftir snarminnkaði þorskaflinn, þá náðust 388 þús. tonn. 1983 náðist ekki að berja upp nema um 299 þús. tonn af þorski þrátt fyrir gegndarlausa sókn okkar öfluga fiskiflota.

Fiskifræðingar sögðu að hrygningarstofn þorsksins færi snarminnkandi og verulegt hættuástand væri fram undan ef ekki yrði gripið til einhverra þeirra ráðstafana sem stilltu sókninni í þorskstofninn verulega í hóf. Hagsmunafélög útgerðar og fiskvinnslu fjölluðu um málið og var niðurstaða þeirra mjög á einn veg, að grípa yrði til einhverra ráðstafana til að hefta sókn í þorskstofninn, þann stofn sem var og er langarðmestur og aðalundirstaðan undir efnahagslífi landsins. Einnig varð að draga úr sókn í aðra botnfiskstofna.

Hæstv. Alþingi fékk málið til afgreiðslu. Eftir mikla vinnu og kannanir samþykkti meiri hluti Alþingis að fara kvótaleiðina svokölluðu til reynslu í eitt ár.

Innan þingsins voru skiptar skoðanir um þessa leið. Sumir vildu heldur taka upp eða halda við hinu gamla skrapdagakerfi, sem svo var kallað, sem var að mínum dómi búið að ganga sér til húðar. Þetta kerfi byggði á því að leyfilegt var að veiða ákveðið hámarksmagn af þorski á vissum veiðitímabilum. Í annan tíma skyldi flotinn nýta sér hinar svokölluðu vannýttu fiskitegundir, einkum ufsa og karfa. Átti þetta einkum við um togaraflotann. En 1983 og fyrr var málum þannig komið að einnig þurfti að fara að skammta þessar tegundir vegna minnkandi stofnstærðar.

Frv. það, er samþykkt var í desember 1983, hafði ýmsa galla svo og reglugerð sú er sett var í beinu framhaldi af samþykkt þess. Þetta var eðlilegt því að þarna var verið að þreifa fyrir sér á nýrri braut sem menn höfðu enga reynslu af hér á landi í svo ítarlegri útfærslu þó að búið væri að taka þetta kerfi upp á loðnu- og síldveiðum hér við land.

Þrátt fyrir ýmsa vankanta á þessu kerfi fyrsta árið reyndist það mun betur en menn þorðu að vona. Aftur var sami háttur hafður á fyrir árið 1985 og reynt að sníða af helstu hnökrana og færa þessa stjórnunaraðferð til meira frjálsræðis, t.d. með valkostinum milli afla- og sóknarmarks.

Hvað mestir erfiðleikar hafa verið með að finna frjálsari leið fyrir smábátana enda varð gífurleg fjölgun í þeim flota á árinu og sóknargeta hans mikil vegna einmuna tíðar allt árið.

Einnig hefur verið allmikil óánægja með þetta stjórnunarkerfi við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Þessir aðilar hafa lagt áherslu á að taka upp svokallaða tegundamarksleið sem er nýtt nafn á gamla skrapdagakerfinu sem ég gat um áðan. Þessar skoðanir hafa verið mjög skýrt fram settar af tveim hv. þm. þessarar deildar, þeim hv. 4. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Vesturl.

Nú liggur fyrir í þriðja sinn frv. um stjórnun fiskveiða fyrir árin 1986 og 1987, kvótafrv. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafa fjallað um frv. á aðalfundum og ársþingum sínum núna í haust. Skoðanir þar hafa verið skiptar eins og áður. Þrír þessara aðila mæltu með samþykkt frv., þ.e. Landssamband ísl. útvegsmanna, þing Sjómannasambandsins og fiskiþing.

Farmanna- og fiskimannasambandið afgreiddi þetta á annan veg. Þeir vildu fara tegundamarksleiðina með sérstakri útfærslu sem mér fannst við fyrstu sýn mjög athugandi. En við nánari skoðun finn ég ekki rök fyrir því að sú leið sé betri en sú sem meiri hl. leggur til að farin verði. Mín skoðun er sú að tegundamarksleiðin bjóði upp á enn meiri mismunun á milli landshluta en nú er og skapi einnig meiri erfiðleika á stjórnun milli veiða og vinnslu en við höfum búið við í dag þétt þar sé víða pottur brotinn.

Hv. Nd., sem fékk þetta frv. fyrst til umfjöllunar og afgreiðslu, gerði nokkrar veigamiklar breytingar á því sem eru allar til bóta og ætla ég ekki að fara nánar út í þær hér. Þær eru á borðum hv. þm. á þskj. 264.

Eins og fram kemur í nál. frá meiri hl. sjútvn. þessarar hv. deildar héldu nefndir beggja deildanna nokkra sameiginlega fundi þar sem voru mættir fiskifræðingar og fulltrúar hagsmunaaðila sem skýrðu sjónarmið sín og samtaka þeirra. Þetta voru fróðlegir fundir sem gáfu nefndarmönnum góða yfirsýn yfir málið.

Þetta frv. gerir ráð fyrir allmiklum breytingum frá fyrra frv. og eru þær mjög til bóta. Frv. sjálft segir ekki nema hálfa sögu um framkvæmd þessara laga, hún er að mestu bundin í reglugerð. Sjútvn. þessarar deildar lagði því mikla áherslu á að fá að sjá þau drög að reglugerð sem búið var að vinna upp þann 17. þ.m., en sú reglugerð er unnin af sjútvrn. og ráðgjafarnefnd í sjávarútvegsmálum. Ráðuneytið varð fúslega við þeirri ósk og komu fulltrúar ráðuneytisins á fund nefndarinnar og skýrðu reglugerðina. Mun ég nú fara yfir nokkur atriði hennar sem liggja fyrir á þeirri stundu sem við sáum hana.

Fyrst vil ég nefna breytingar vegna báta undir 10 lestum sem komnar eru inn í frv. eftir breytingar í Nd. Þar er meginbreytingin sú að alger stöðvun þessara báta er frá 15. desember til 15. janúar 1987. Þarna er þessi stöðvun komin niður í einn mánuð sem var tveir mánuðir skv. frv. í fyrstu. Aðrar stöðvanir hjá þessum bátum eru tíu dagar um páska, tíu dagar í ágústmánuði og sjö dagar í júní og október.

Í reglugerðinni segir að netaveiðar hjá þessum bátum séu á tímabilinu 10. febrúar - 15. maí hjá þeim sem um það sækja. Þær eru heimilaðar í 65 daga með 80 lesta þorskafla að hámarki. Ég geri mér ljóst að sumir viðkomandi aðila munu sjálfsagt verða óánægðir yfir því að geta ekki fengið sín 300 tonn eins og sumir fengu í fyrra. En þarna kemur upp sá jöfnuður sem ég held að þessir aðilar geti vel við unað. Ég hef ekki heyrt annað en að þeir séu allvel sáttir við þau frumvarpsdrög sem hér eru rædd og það sem mun áfram koma í reglugerð.

Í öðru lagi vil ég nefna að hin svokölluðu viðmiðunarár, sem aflamarkið var unnið eftir í byrjun, hafa valdið nokkrum deilum. Bersýnileg misskipting hefur orðið á milli svæða og hafa þessi skekkjumörk verið mjög áberandi eftir því hvar skip eru og voru skráð. Kemur þetta berlega í ljós hjá togurunum. Svæðaskiptingin hefur verið þannig að svæði 1 er frá Eystra-Horni suður um að Látrabjargi, svæði 2 frá Látrabjargi norður um að Eystra-Horni. Þessi skipting hefur verið umdeild og er enn. Ef við tökum dæmi af togurum þá hafa togarar á svæði 1, sem við getum kallað suðursvæði, skv. gömlu reglunni fengið 800 tonna þorskmagn á móti 1500 tonnum á svæði 2 sem er vestur- og norðursvæðið og hluti af austursvæðinu að sjálfsögðu.

Ég vil benda á í þessu sambandi að mismunun hefur verið gífurleg líka á milli skipa sem eru undir svokölluðu 39 metra marki. 13 skip eru skráð í þeim stærðarflokki, þar af sjö af svæði 2, eða norður- og vestursvæðinu. Þeim er úthlutað í aflamarki um 1050 tonnum en sex skipum af sömu stærð, sem eru á suðursvæði, er úthlutað um 550 tonnum. Þarna er um ögrandi mismunun að ræða sem ég tel nauðsynlegt að verði leiðrétt og mælist eindregið til þess að ráðgjafarnefndin taki þennan lið alvarlega til athugunar.

Eins er verið að reyna að jafna þetta mark á milli með því að hækka tölur í þessum efnum þannig að viðmiðunarmarkið 1500 verði fært í 1750 á svæði 2. Talan á suðursvæðinu liggur ekki fyrir en þar legg ég áherslu á að verði farið í 1150 tonn á móti 1750 á norðursvæðinu. Það væri mjög til réttlætis í þessum efnum.

Í þriðja lagi má minnast á að í reglugerðinni er kveðið á um að veiðar á línu verði að hálfu utan kvóta í janúar og febrúar. Sjútvn. Ed. leggur áherslu á - og þar er samstaða í nefndinni - að þetta gildi einnig fyrir nóvember - desember eins og í janúar - febrúar. Ég legg áherslu á þetta atriði og undirstrika þetta álit sjútvn. Ed.

Einnig vil ég leggja áherslu á það, sem nefndin varð sammála um, að handfæraveiðar séu á sama hátt undanþegnar þennan tíma. Það er ekkert mál þó að trillukarlar geti farið á handfæri en séu ekki bundnir við ákveðin veiðarfæri ef einhver vill skreppa út, það dregur ekki neitt. Eins ef einhver vildi stunda ufsaveiðar á handfæri, hvort sem það er við Grímsey eða annars staðar, þá er það ekkert til að raska heildardæminu. Þetta er skoðun sem ég vil að komi fram hér og var skoðun nefndarinnar, ég held ég megi segja allrar, ég gekk ekki til atkvæða í þeim efnum en það var tónninn sem ríkti í nefndinni. Aðrir nefndarmenn leiðrétta mig þá ef ég fer með rangt mál.

Það má benda á að í reglugerðinni kemur einnig fram að sóknarmark báta, sem hafa valið sér sóknarmark í sambandi við netaveiðar, rýmkar um fimm daga. Það var sótt mjög fast hjá þeim að geta fengið rýmri heimild. Þetta er einnig strax til bóta.

Ýmis fleiri atriði mætti minnast á í þessu sambandi þótt ég ætli ekki að gera það núna, a.m.k. ekki í byrjun. Ég hef drepið á nokkur helstu atriði. Ég vil aðeins leggja áherslu á að ég er stuðningsmaður þessa frv. og legg áherslu á að það verði samþykkt hér í deildinni. Ég held að við séum þarna á réttri braut. Það má alltaf deila um öll mannanna verk. En eftir nána skoðun fæ ég ekki séð að hin leiðin, sem boðið er upp á, svokölluð tegundamarksleið, leiði okkur nokkuð nær markinu en þessi leið, nema síður sé. Þess vegna legg ég eindregið til að þessi leið verði farin.

Auðvitað er okkur öllum illa við allt sem heitir miðstýring eða stjórnun. En þrátt fyrir mjög bætt ástand hér í hafinu kringum okkur og betri vonir um að það megi haldast og hér verði betri skilyrði fyrir botnfiska og aðra fiska, sem við eigum allt okkar undir að fái sem mesta viðkomu, og við getum byggt upp okkar fiskistofna, þá verðum við samt að hafa um tíma ákveðna stjórnun á þessu vegna þess arna og vegna markaða einnig til að geta fylgst með.

Ég sé að hv. þm. Karl Steinar Guðnason brosir til mín, hann hefur kallað þetta ýmsum illum nöfnum, en ég tek það ekki nærri mér.

Ég bendi ykkur á aflaárið mikla 1981 þegar við fiskuðum 470 þús. tonn af þorski. Ég veit ekki hvernig við hefðum komist fram úr þeim afla nú á þessu ári með lokaðan skreiðarmarkað eins og er búið að vera tvö s.l. ár. Ég segi ekki stór hluti en verulegur hluti aflans 1981 var hengdur upp í skreið sem liggur enn þá í landinu. Það sem við verðum að hafa að okkar keppikefli og við leitumst við með þessu frv. og öðru í stjórnun fiskveiða er að leita allra ráða til að fá sem mest verðmæti út úr þeim afla sem við drögum úr sjónum. Í því liggja veikleikar okkar enn í dag.

Ég ætla engan dóm að leggja á það hvort kvótafrv. hefur verið til bóta í þeim efnum eða ekki. Ég hef ekki nógu góðar tölur um þau mál. Því er haldið fram af ýmsum aðilum að það hafi orðið stór sparnaður. Ég fullyrði að það á við um loðnuveiðar, þær þekki ég. Þar hefur orðið verulegur sparnaður, einkum í veiðarfærum, við það að viðhafa þessa skömmtun. Ég bendi á að á fundi, sem haldinn var um daginn, var talað um það, þrátt fyrir þessa miklu loðnuveiði sem nú er og góða möguleika sem vertíðin á að gefa, hvort ætti að afnema kvótann og gefa þessum 48 skipum, sem nú stunda loðnuveiðar, þetta frjálst. Það einkennilega skeði að að fenginni reynslu þessara ára, sem menn hafa stundað þessar kvótaveiðar á loðnu, var aðeins einn sem vildi gefa þetta frjálst.

Þetta má kalla sósíalisma allra hluta. Þó að ég sem sjálfstæðismaður vilji hafa þarna ákveðna stjórnun á tek ég það ekki nærri mér. Ég stend alveg hiklaust við mína skoðun í þeim efnum að það þarf á þann veg að vera. En það skal ég taka hér fram að þrátt fyrir kvóta, þrátt fyrir tegundamarksleið og þrátt fyrir frjálsræði þá er það þessi vandi í fiskvinnslunni og útgerðinni sjálfri sem menn þurfa að takast á við, þ.e. að meðhöndla hráefnið á þann veg að það geti komið að sem bestum notum. Það er skylda þeirra manna, sem í þeirri starfsgrein eru, að takast á við það en biðja ekki um miðstýringu í öllum slíkum efnum, það þurfa menn að gera sjálfir. Það þýðir ekki að biðja um miðstýringu annan daginn en segjast vera á móti henni hinn daginn. Ég viðurkenni það hiklaust af þeim kynnum sem ég hef haft af þessu á meðan ég var viðriðinn sjávarútveg að það hefur ekki tekist að koma á þeirri stjórnun sem þarf að vera á milli veiða og vinnslu. Þetta veit ég að hv. 4. þm. Vesturl. getur tekið undir með mér. Þarna er við ýmis vandamál að etja en við verðum einnig að gera kröfur til þeirra aðila sem þessi mál hafa á milli handanna.

Ég vil svo aðeins að lokum, virðulegi forseti, leiðrétta það sem kom fram í ræðu hæstv. sjútvrh., þegar hann lagði frv. hér fram, svo það valdi ekki misskilningi, að það hafa misfarist boð til mín um það að vera boðaður á fund í ráðgjafarnefndinni. Ég hef ekki komið þar á fund síðan sameiginlegu nefndirnar komu saman fyrst eftir áramót í vetur. Það hefur verið látið liggja að því víða að ég og formaður sjútvn. Nd. höfum setið fundi í ráðgjafarnefnd. Það höfum við ekki gert. En það er ekki sök ráðherra. Það var hringt í mig og ég var beðinn afsökunar af ráðuneytinu núna fyrir ekki löngu síðan, það höfðu misfarist skilaboð sem áttu til mín að fara. Ég vil undirstrika þetta hér vegna þess að ég hef fengið að heyra það að ég hafi legið á upplýsingum sem ég átti að vita vegna setu minnar í ráðgjafarnefndinni. En þetta er ekki deila á hæstv. ráðherra. Ég vissi að hann gekk í það strax í ráðuneytinu að kippa þessu í lag þegar honum var kunnugt um þetta og ég fékk afsökunarbeiðni þaðan um að fallið hefðu niður til mín boð. Þetta vildi ég leiðrétta svo aðrir nefndarmenn viti um það. (Gripið fram í: Hver orsakaði þetta?) Þetta er einhver misskilningur í ráðuneytinu sem ég fer ekki frekar út í. Það hefur komið fram af minni hálfu á þennan veg.

Ég vil svo aðeins að lokum, eftir þessa framsögu, þakka nefndinni fyrir góða samvinnu í þessu efni. Þó við séum ekki sammála þá var samvinnan, eins og ætíð áður, mjög góð og ég vona að við getum þrátt fyrir skiptar skoðanir leitt þessi mál hér farsællega í höfn.