19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

145. mál, stjórn fiskveiða

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Þetta mál er orðið allrætt og eðlilegt að menn stytti kannske mál sitt. Það er þó rétt að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Stefáns Benediktssonar þar sem hann orðar það svo að Framsfl. hafi svínbeygt Sjálfstfl. í þessu máli. Skemmtilegt hefði nú verið að heyra rök með slíkum málflutningi en við því var ekki að búast enda lá það ekki á borðinu. (StB: Hvar er frjálsa samkeppnin?) Frjáls samkeppni er allt annað mál. Frjáls samkeppni er hlutur sem þarf einnig að stjórna. Það er hægt að vera með alls kyns slettiorð og setningaröð sem segir hvorki upphaf né endi. En þetta mál hefur unnist sem betur fer á undanförnum mánuðum í allmikilli samvinnu margra aðila. Og þá kannske fyrst og fremst með tilliti til sjónarmiða þorra hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Það hefur verið unnið að ákveðnum breytingum á frv. sem hæstv. sjútvrh. kynnti í haust og hefur gengið vel sú samvinna sem þar hefur átt sér stað að mörgu leyti.

Það heyrðist líka úr munni hv. þm. að Sjálfstfl. væri að brjóta gegn grundvallarsjónarmiðum sínum um eignarrétt með því að vinna að slíku máli. Þetta er auðvitað út í hött, enda fylgdu engin rök þessum fullyrðingum. Þarna er spurningin um mun á stjórn og óstjórn. Illu heilli hefur það orðið hlutskipti BJ að mæla fyrir óstjórn, stjórnleysi. Það er hlutur sem hefur ekki verið aðall Sjálfstfl. og verður vonandi aldrei. Það er þannig að í málflutningi er það leitt að Bandalagið er nú á reki eins og áralaus julla í úfnum sjó. Slíkur er nú málflutningurinn úr þeim búðum. (Gripið fram í.) Sem dæmi um ástæðu til þess að halda stjórn á hlutum má nefna sjónarmið Vestmanneyinga í þeim efnum, úr stærstu verstöð landsins um áratuga skeið, að þeim þykir hæfa að stjórna því að jafnræði sé á milli þátta í þessu máli, að ekki sé lögð höfuðáhersla á það að stunda smáfiskadráp á ákveðnum landsvæðum og koma þannig í veg fyrir að hrygningarstofnar fái tækifæri til að hrygna.

Þetta er stjórnunaratriði í þeirri stöðu sem við búum við, með þann bátaflota sem við höfum í dag, það magn sem við getum veitt ef sjór væri svartur af fiski, en því miður búum við ekki við þær aðstæður í dag og þess vegna er m.a. full ástæða til þess að hafa stjórn á þessum hlutum og ekki að blaðra með hluti í þessu sambandi eins og frjálsa samkeppni.

Það er ruglað saman öllum málum. Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir var að tala um það að kvótinn væri að leggja Vestmannaeyjar í auðn. Hvers lags bull er þetta eiginlega? Væri nú ekki rétt að hafa einhvern stuðning, einhvern hrygg í því máli sem er fjallað um áður en verið er að tala um að þessi stjórnunaraðferð sé að leggja Vestmannaeyjar í auðn? Það er ekkert lítið sagt. (KolJ: Hlustaðu betur næst.) Þannig er vaðið úr einu í annað og er rétt að vara við því.

Nokkur atriði, sem hefur verið unnið að á þessu hausti við breytingar og endanlega afstöðu í því frv. sem við fjöllum um, eru t.d. í stuttu máli tvö árin með endurskoðun eftir eitt ár. Smábátabreytingin, sem er gjörbreyting á hugmyndum frá því í haust og réttir verulega af og skapar möguleika fyrir smábátaflota landsmanna og þær þúsundir manna sem hafa framfæri sitt af þeim útvegi. Sóknardagafjöldinn hefur aukist á almennan bátaflota. Bátaflokk hefur verið bætt við til þess að skapa sveigjanleika og aukna möguleika. Sóknardagafjöldi hefur verið aukinn hjá bátum á afmörkuðum veiðum, svo sem togveiðum, árið um kring, aukinn um 30 daga. Það er miðað við, eins og hér hefur komið fram í orðum talsmanna meiri hl. sjútvn. hv. deildar, að lína og færi séu undanþegin kvóta ákveðinn hluta ársins. Það er unnið að því og miðað við að í reglugerð sé hlutfall þorskfisks fyrir togara jafnað milli norður- og suðursvæðis, sem er bráðnauðsynlegt og sanngjarnt. Þannig er á ýmsan hátt unnið að lausn þessa máls með eðlilegum og auknum sveigjanleika, með frjálsræði, auknu frjálsræði innan þeirra reglna sem settar hafa verið með aflamarks- og sóknarmarksleið, og það er vel.

Það er þess vegna ástæða fyrir því, þótt það sé flestra skoðun að það sé neyðarbrauð að fara þessa leið og ekki það æskilegasta í veiðimannaþjóðfélagi, að þarna sé farin leið sem má við una.