19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

145. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að fara nokkrum orðum um ræðu hv. þm. Sigríðar Dúnu en hún hefur farið úr salnum og ætli ég sleppi því ekki þar af leiðandi. En það er nokkuð af að taka til þess að svara hv. 5. þm. Norðurl. e. og 3. þm. Suðurl.

Í fyrsta lagi er það nú í sambandi við höfundarréttinn að kvótanum og grundvallarsjónarmið Sjálfstfl. Það er ósköp eðlilegt að þeir leggi allt kapp á það að eigna sér þennan kvóta, að þetta sé nú ekki afkvæmi Framsfl., til að tryggja það að Framsfl. sé ekki að pína Sjálfstfl. til að standa að þessari leið, sem raunverulega er að brjóta niður grundvallarstefnu Sjálfstfl., hina frjálsu samkeppni. Það er náttúrlega ósköp eðlilegt að hv. þm. Björn Dagbjartsson leggi á það mikla áherslu að hann hafi fyrir mörgum árum, löngu áður en almenningur á Íslandi fór að hugsa um að það þyrfti að vera með kvótakerfi, verið búinn að finna út þessa leið og það væri verið að framkvæma hans stefnu núna en ekki stefnu hæstv. sjútvrh. eða Kristjáns Ragnarssonar, sem oftast nær hefur verið talinn aðalhöfundurinn að þessari stefnu. Ég held að sjálfstæðismenn ættu frekar að hugga sig við það að sjálfstæðismaðurinn Kristján Ragnarsson sé höfundur að stefnunni en fara að reyna að tileinka sér þessa hluti út frá einhverjum skrifum sem menn skrifuðu fyrir þetta eða þetta mörgum árum. (Gripið fram í: Sjálfstæðismenn eru engar grobbkerlingar og þurfa ekki að láta hugga sig neitt.) Ég er ekkert að reyna að hugga, ég er bara að benda hv. þm. á hvað hann hefur verið að segja hér og á hvaða grundvelli hann hefur verið að reyna að verja sig.

En hv. þm. Björn Dagbjartsson sagði okkur frá því að vitrasti maður á alþjóðavettvangi hefði verið staddur hér á Íslandi fyrir nokkrum dögum í sambandi við fiskveiðistjórnun. (BD: Virtasti.) Já, það mun hafa verið virtasti. En það breytir nú ekki mjög miklu. Það er ekki langt á milli að vera vitrastur og virtastur. Það má vel vera að prófessor Rögnvaldur Hannesson sé virtur og ég efast ekkert um það. En mig hryllti við kenningunum hans. Hryllti við þeim.

Hann boðaði það, og sagði einmitt það sama og hv. þm. Björn Dagbjartsson, að það yrði ekki undan því komist að vera með kvótakerfi. Hver sú fiskveiðiþjóð sem ætlaði að stunda fiskveiðar við þá tækni og þá aðstöðu sem nú er yrði að hafa kvótakerfi. Þetta hefðu Norðmenn og þetta hefðu Ný-Sjálendingar. Hann, þessi virti maður - og vitri sjálfsagt líka - lagði fiskveiðiþjóðina Íslendinga, sem sækja 80% af sínum gjaldeyrisafla í sjóinn og svipaða tölu sem raunverulega stendur á bak við þjóðarbúið, að jöfnu við þjóðir eins og Norðmenn, sem eru með 3-4% og Ný-Sjálendinga, ætli þeir séu ekki með brot úr prósenti. (BD: Og Færeyingar líka.) Nefndi hann kannske Færeyinga líka? Ég heyrði það nú ekki. Það getur vel verið að hann hafi nefnt það í Háskólanum en hann nefndi það ekki í útvarpinu. En hann bætti við - og það var nú hryllingurinn sem a.m.k. kom mér til að halda að það gæti ekki verið að þetta væri mjög vitur maður - að afleiðingarnar af svona kvótakerfi hlytu að verða þær að ákveðnir landshlutar færu í eyði. Það yrði að standa frammi fyrir því að byggð drægist saman. Það var grundvöllurinn að kvótauppbyggingunni. Slíkri kvótauppbyggingu mótmæli ég. Og ég er viss um að það eru miklu fleiri í Sjálfstfl. sem eru til í að mótmæla slíkri kvótauppbyggingu en þeir hv. þm. og ráðherrar í Sjálfstfl. sem hafa staðið frammi fyrir því að greiða atkvæði gegn þessari stefnu. Þeir eru miklu fleiri. (ÁJ: Velkominn um borð.) Og ég hef grun um það að hv. 3. þm. Suðurl., svona innst inni, muni ekki vera til í það að samþykkja það að áframhaldandi kvótastefna, sem yrði við lýði í nokkur ár, yrði til þess að sú góða byggð, Vestmannaeyjar, yrði lögð í eyði. Að því stefnir kannske eins og hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir benti á hér áðan. Íbúðir í Vestmannaeyjum eru núna á helmingi lægra verði en íbúðir hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa. (Gripið fram í.) Þessi þróun í Vestmannaeyjum er afleiðing af kvótanum. (Gripið fram í: Það eru engin tengsl.) (StB: Það eru heldur engin tengsl við ríkisstjórnina.)

Hv. þm. Björn Dagbjartsson sagði að það væri náttúrlega mesta ósvinna af mér að halda því fram að kvótinn hefði haft einhver áhrif á sjávarútveginn, afkomu sjávarútvegsins. Til hvers erum við þá að stjórna ef það á ekki að hafa áhrif? (BD: Til hins verra.) Ja, ekki hefur það komið í ljós að það væri til hins betra vegna þess að staða sjávarútvegsins er núna verri en þegar kvótinn var lögleiddur hér á haustmánuðum 1983. Ég hugsa að þú fáir engan af forystumönnum sjávarútvegsins til þess að segja annað.

En það er alveg rétt að dollarinn hefur líka haft þar áhrif. Hann var í uppsveiflu 1984 og fram á árið 1985. Það lagaði ekkert, það var alveg sama. Jafnvel þó við værum bæði með hækkandi gengi dollara og fiskveiðistefnu Björns Dagbjartssonar og hæstv. ráðherra þá dugði það ekki samt. Jafnvel þótt við græddum svona óskaplega á fiskveiðistefnunni, spöruðum net og ýmislegt fleira. Það dugði ekki.

Hv. 3. þm. Suðurl., Árni Johnsen, fullyrti að Vestmanneyingar hefðu sérstakt sjónarmið í huga í sambandi við fiskveiðistefnuna, þ.e. að andæfa gegn hinu ískyggilega smáfiskadrápi sem ætti sér stað. Það þyrfti að koma í veg fyrir að fiskurinn væri drepinn svo smár, það þyrfti að tryggja það að hann fengi að hrygna. Var þetta nú grundvallarstefnan? En er það æskilegt að við - (Gripið fram í: Já, það er æskilegt að fiskurinn fái að hrygna.) Það mun vera æskilegt, já. En ætli það sé sérstaklega æskilegt að stóri fiskurinn sé veiddur á miðum Sunnlendinga? Ætli það væri ekki bara betri útkoma að láta veiða hann sem smáfisk á miðum Vestfirðinga og Breiðfirðinga en að láta veiða hann á miðum Sunnlendinga?

Ég nefndi tölur hér um daginn sem sýndu það hvers lags ósómi viðgengist í sambandi við nýtingu þessa stóra fisks okkar fyrir Suðurlandi. Hvernig hefur verið farið með þennan fisk? Kannske hv. þm. hafi ekki verið inni þegar ég var að segja frá því. Ég skal endurtaka þetta fyrir hann. (Gripið fram í: Þetta eru rangar tölur.) Þær eru réttar og beint frá þeirri góðu stofnun, Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda. (Forseti: Það er reyndar komið að því að við frestum fundi, hv. 4. þm. Vesturl.) Já, ég gæti svarað þm. og gefið honum fullkomnar útskýringar í byrjun fundarins. Mun ég þá ljúka máli mínu að sinni og halda áfram ræðu minni þegar við komum hér saman aftur.