19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

145. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Ég er kominn hér upp fyrst og fremst í sambandi við ræðu hv. 3. þm. Suðurlands og hefði svolítinn áhuga á að fá hann í salinn ef þess væri kostur. Hv. þm. nefndi þrisvar sinnum í ræðu sinni að ég hefði verið með skítkast í garð Vestmanneyinga. Þessum orðum hv. þm. vil ég mótmæla. Ég var ekki í einu eða neinu að ræða um Vestmanneyinga eða stöðu þeirra sem slíkra heldur var ég að benda á hve sú fiskveiðistjórnun sem við búum við væri gagnslaus við að stefna að því markmiði sem hv. þm. benti á, að grundvallarviðmiðunin yrði að vera gæði og aukin verðmæti. Það kerfi sem við búum við og það kerfi sem hv. þm. ætlar að fara að samþykkja eftir stutta stund hér í hv. deild gerir það sjálfsagt að verkum áfram að Vestmanneyingar liggja undir því sem hann kallaði skítkast. Ekki frá mér heldur frá hverjum og einum sem gerir sér grein fyrir því hvernig farið er með verðmæti, ekki frekar í Vestmannaeyjum en á Hellissandi og annars staðar, undir þessu kerfi. Það er kerfið sem kallar á þessa stöðu. Ég veit vel að Vestmanneyingar eru einir duglegustu sjómenn okkar og færa að landi drjúgan hluta af þeim afla sem færður er að landi af fiskimiðunum umhverfis landið, en það kerfi sem við búum við skapar þeim þessa aðstöðu.

Ég vil einnig benda á að þegar hv. þm. ætlaði að fara að gera sig að einhverjum útreikningsmeistara í sambandi við verð eða mismun á framleiðsluverðmæti frá Hellissandi og Vestmannaeyjum voru honum frekar mislagðar hendur. Hv. þm., sem virðist vera flestum hnútum kunnugur hringinn í kringum landið í sambandi við sjávarútveg - ég efast ekkert um það - tekur árið 1984 sem viðmiðunarár milli Vestmannaeyja og Hellissands. (Gripið fram í: Afla upp úr sjó.) Afli upp úr sjó er ekki marktækur í sambandi við þessa hluti, karlinn minn. Þá eru hlutirnir heldur betur mín megin, ef við ætlum að fara að meta það, vegna þess að matið á fiskinum frá Hellissandi og Rifi er mun betra en frá Vestmannaeyjum. Ég vil því ekki taka undir slíka viðmiðun eða fara að bera það saman á þann máta. Framleiðsluverðmætið frá Hellissandi hefur kannske verið minna á þessu ári vegna þess að þá bjuggum við við það að við höfðum ekkert frystihús. Við urðum fyrir þeim skaða að húsið brann hjá okkur og við urðum að vinna okkar afla í saltfisk og ódýrari framleiðslu. (Gripið fram í.) Þá eru hlutirnir enn þá verri, hv. þm., vegna þess að framleiðsluverðmætið frá þessum stöðum er á öfugan veg pr. einingu.

Ég held að hv. þm. hafi farið þarna út á heldur hálan ís og að viðmiðun hans á þennan veg sé því miður í þá átt sem hann staðhæfði að ég væri að segja um Vestmanneyinga. (Gripið fram í.) Já, ég ætla ekki að nefna tölur vegna þess að það eru ekki tölur, en á þann veg eru hlutirnir. Það er ekki nema eðlilegt að þm. þurfi að hlaupa undan þessari umræðu og með þeim orðum mun ég ljúka ræðu minni og þakka forseta fyrir þolinmæði hans í þessari löngu umræðu.