24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

Um þingsköp

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Vegna þeirra mótmæla sem hér hafa komið fram hjá hv. þm., sem hafa kvatt sér hljóðs um þingsköp, þá vill forseti taka það fram að hér er ekki staðið að með óvenjulegum hætti við þær aðstæður sem hér hafa komið upp á hv. Alþingi í dag. Það er ekki um að ræða valdníðslu, eins og kom hér fram hjá hv. 11. þm. Reykv. áðan, vegna þess að það liggur fyrir, þegar hv. þm. hafa lokið því að tala um þingsköp, að leita samþykkis hv. þingdeildar um það hvort þetta mál megi koma til umræðu. Það þarf að leita afbrigða og það verður gert hér á eftir. Þess vegna er ekki um að ræða valdníðslu, heldur er um það að ræða hvort hv. þingdeild leyfi að málið komi til umræðu.

Varðandi það að forseti er einn af þeim þm. sem hafa skrifað undir áskorun til íslenskra kvenna í tilefni þess dags sem nú er upp runninn, 24. október, þá er það hárrétt og forseti væntir þess svo sannarlega að hún fái tækifæri til að standa við sitt í þeim efnum og sýna samstöðu með íslenskum konum með því að mæta í Seðlabankabyggingunni klukkan 11, líklega eftir eina 8 klukkutíma eða svo, og síðar á fundinum á Lækjartorgi. Að öðru leyti ætlar forseti ekki að fara efnislega út í málin hér úr forsetastóli.