19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

151. mál, geislavarnir

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég get nú tekið undir flest af því sem kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Jónsdóttur hér áðan varðandi vinnubrögð í þessu máli og eins þær efasemdir sem hafa verið í mínum huga varðandi málið í heild sinni. Það kann vel að vera að þetta sé hið ágætasta mál þegar það hefur verið gaumgæft. Það hefur hins vegar alls ekki verið gert.

Ég vil ekki átelja formann nefndarinnar fyrir þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið. Ég veit að hann var undir miklum þrýstingi um það að afgreiða þetta mál skilyrðislaust út úr heilbr.- og trn. og helst án þess að athuga það nokkuð. Þetta væri svo lítilvægt mál að það þyrfti í raun og veru ekkert að líta á það. Við fórum hins vegar nokkuð vel yfir málið á tveim fundum. Það má kannske segja að frv. sé meinlaus tilraun til þess að leyfa ákveðnum aðilum að verða kóngar í ríki sínu, að vísu smákóngar, en engu að síður kóngar í ríki sínu, og það mun nú vera meginforsendan að baki þessa frv., að ákveðinn aðili þurfi ekki að vera undir Hollustuverndina gefinn, heldur megi stjórna eigin ríkisfyrirtæki.

Ég segi það hins vegar að auðvitað hlýtur að vera efi í huga okkar, sem stóðum að lagasetningu um Hollustuvernd ríkisins fyrir fáum árum, um þetta mál. Þegar við vorum að ræða um Hollustuverndina á sínum tíma og sameiningu Geislavarna undir þann hatt, þá vorum við vitanlega að huga að því m.a. að þessi stofnun, ef stofnun skyldi þá kalla, var á vergangi hálfgerðum og þurfti einhvers staðar skjól, ef svo mætti segja, og við völdum þann kost að fylgja frv. í þá átt að veita stofnuninni skjól hjá Hollustuvernd ríkisins. Og núna, aðeins þrem árum síðar, erum við að breyta þessu í sjálfstæða stofnun, þessari litlu stofnun en nauðsynlegu, og það tek ég fram að hún er mjög nauðsynleg og hún er mjög sértæk á margan hátt.

Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara vegna þess að ég er hreint ekki sannfærður um það eftir þá litlu athugun sem ég hef gert á málinu að hér sé um nokkurt nauðsynjamál að ræða.

Hins vegar er ekki hægt að neita því að manni hlær nú hugur í brjósti þegar hæstv. ráðherra Sjálfstfl. fer út í þau afskipti af ríkisrekstri sem hér um ræðir og fer að sundurgreina stofnanir og búa til nýjar. Það þykir manni svona svolítið sérkennileg útfærsla á þeim hugmyndum sem þar eru efstar á baugi nú á tímum. (KSG: Báknið kjurt.) Það er rétt hjá hv. 6. landsk. þm. að báknið á vitanlega að vera „kjurt“ hjá Sjálfstfl., enda hefur enginn flokkur búið þetta bákn til í ríkara mæli en Sjálfstfl. Hann er í raun og veru aðalarkitekt þessa bákns og hefur verið allra flokka duglegastur við að þenja það út þegar hann hefur haft til þess aðstöðu, þannig að þetta er kannske bara smásýnishorn af því, að þegar hæstv. ráðherrar fá tækifæri til, þá skal útþenslan vera í gildi svo sem hún hefur alltaf verið þegar þeir hafa setið við stjórnvölinn.

Það er hins vegar erfitt að tala um einhverja ráðdeildarstarfsemi eða aðhaldsstarfsemi í þessum efnum. Hér þyrftum við í raun og veru að gera miklu meira í því að láta það eiga saman sem saman á í þessu efni. Ég tel t.d. að við þyrftum að samræma margs konar eftirlit sem við höfum á ýmsan veg hér í þjóðfélaginu og hið opinbera þarf vissulega að samræma gjaldtöku fyrir það eftirlit, en engu að síður að sameina það eins og mögulegt er. Það var m.a. gert með lögum um Hollustuvernd og Vinnueftirlit ríkisins er kannske lýsandi dæmi um það einnig og jafnvel mætti þar bæta við fleiri þáttum þegar það eftirlit er komið í þær skorður sem þarf og ef það fær nægilegt fjármagn til þess að ganga til verka eins og það þarf að gera.

Ég skal ekki lengja þennan fund, svo langur sem hann er þegar orðinn, með lengra máli hér um. En skoðun mín nú á þessu máli og umhugsun um það hefur leitt til þess að minn fyrirvari mun breytast í hjásetu um þetta mál. Ég treysti mér ekki til þess að mæla með því að svo stöddu. En vel kann að vera að hefði hæstv. ráðherra haldið öðruvísi á málum og skynsamlegar og afgreitt málið eftir áramót, þá hefði ég getað hugsað mér að styðja það.