19.12.1985
Neðri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Frsm. 2. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1986 á þskj. 376 og brtt. með frv. til lánsfjárlaga á þskj. 363. Fyrst örfá orð um í hvaða efnahagsástandi við erum að ræða þessar tillögur.

Hallarekstur, skuldasöfnun og fjármunasóun í ríkisbúskapnum er undirrót vaxandi verðbólgu, misgengis atvinnuvega, sem mönnum er tíðrætt um, og versnandi lífskjara alls almennings. Vextir og afborganir erlendra lána samsvara nú þegar á árinu 1985 söluverðmæti alls þorskafla sem á land berst. Vaxtagreiðslurnar einar samsvara meira en 11% af öllum atvinnutekjum landsmanna, eða mælt á annan mælikvarða: Vaxtagreiðslurnar einar eru jafnvirði 15-16 þúsund ársverka verkamanna í landinu. Þessi tollur erlendra fjármagnseigenda á verðmætasköpun þjóðarinnar er orðinn svo hár að allir heilvita menn hljóta að taka undir kröfuna: Hingað og ekki lengra.

Óbreytt stefna er óútfyllt ávísun á stóraukna skattbyrði alls almennings og verri lífskjör í framtíðinni. Óbreytt stefna er því ábyrgðarlaus atlaga að lífskjörum ungu kynslóðarinnar í landinu og reyndar að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að fjárlög og lánsfjárlög fyrir árið 1986 eru reyndar seinustu forvöð núv. hæstv. ríkisstj. til að snúa frá helstefnunni í skuldasöfnunar- og fjármagnssóunarstefnunni. Hafi stjórnarliðar ekki þrek til að horfast í augu við veruleikann nú munu þeir vissulega ekki vera líklegir til að gera það á kosningaári 1987. Þetta eru seinustu fjárlög sem núverandi stjórnarmeirihluti ber ábyrgð á í framkvæmd. Þessi fjárlagagerð er því í reynd prófsteinn á pólitíska ábyrgðartilfinningu nýs fjmrh., formanns Sjálfstfl.

Tölur tala sínu máli um gjaldþrot óbreyttrar stefnu í ríkisfjármálum. Fjárlög ársins 1985 reyndust markleysa. Hallinn á A-hluta ríkissjóðs verður þrisvar til fjórum sinnum meiri en áætlað var. Að mati Þjóðhagsstofnunar er hallinn fyrstu mánuði ársins áætlaður 2,5 milljarðar, gæti orðið framreiknað til áramóta allt að 2,7 milljörðum króna. Nettóaukning erlendra skulda árið 1985 er áætluð meira en 3,3 milljarðar kr. og reynslan af lánsfjárlögum seinasta árs sýnir okkur að einnig í því efni var farið mörg hundruð milljónum króna umfram ramma lánsfjárlaga. Viðskiptahallinn er áætlaður 5,8 milljarðar í árslok, en það samsvarar u.þ.b. 20 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Aukning skammtímalána er áætluð allt að 4,3 milljarðar kr. í árslok. Þannig má ætta að ríkisútgjöldin vaxi allt að 15% að raungildi milli áranna 1984 og 1985. Hallarekstur og skuldasöfnun í ríkisbúskapnum, bæði á fjárlögum og lánsfjárlögum, viðskiptahalli þjóðarbúsins út á við og hrikaleg aukning skammtímaskulda, allt þetta bendir til þess að hér sé reikul og ráðlaus stjórnarstefna, bæði almennt í ríkisfjármálum, efnahagsmálum og peningamálum. Verði ekki snúið við af þessari braut þegar í stað blasir við efnahagsleg og pólitísk upplausn á komandi misserum.

Frumvörp ríkisstj. til fjárlaga og lánsfjárlaga bera það með sér bæði tvö að áfram á að feta troðnar slóðir, götuna til glötunar. Heildarlántökur opinberra aðila, fjárfestingarlánasjóða og atvinnufyrirtækja, eru áætlaðar 12 487 millj. kr. á árinu. Þar af er ráðgert að afla 8277 millj. kr. með erlendum lántökum. Erlendar lántökur A-hluta ríkissjóðs verða eftir sem áður hærri en afborganir eldri lána, þannig að það meginmarkmið nýs fjmrh. að halda þeim innan þeirra marka mun ekki standast. Erlendar lántökur í heild sinni til ríkissjóðs, ríkisstofnana, fyrirtækja með aðild ríkissjóðs og sjóðakerfis, þ.e. ríkisbúskaparins í heild í A-, B- og C-hluta eins og það er farið að nefna, allt ber þetta með sér að áfram er fylgt í verki óbreyttri stefnu. Þannig er t.d. fjárþörf tveggja stærstu félagslegu lánasjóðanna, þ.e. byggingarsjóðanna, Byggingarsjóðs ríkisins og verkamanna, og næststærsta sjóðsins, Lánasjóðs ísl. námsmanna, áfram mætt með erlendum lánum sem bera ávöxtunarkjör langt umfram greiðslugetu lántakenda þessara sjóða. Þetta er enn ein ávísunin á hærri skatta í framtíðinni. Arðsemiskröfur, eins og t.d. að erlend lán séu því aðeins tekin að fyrirhuguð fjárfesting spari erlendan gjaldeyri eða leiði til aukinnar gjaldeyrisöflunar, er víðast hvar látin lönd og leið, sbr. t.d. erlendar lántökur til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, á sama tíma og landbúnaðurinn býr við óseljanlega offramleiðslu, erlendar lántökur til Byggðastofnunar, nú eða t.d. ríkisábyrgð á svokölluðu raðsmíðaverkefni frá árunum 1982-1985, allt ber þetta að sama brunni.

Ekki örlar á viðleitni til breyttra vinnubragða við sjálfa fjárlagagerðina. Fjárlagagerðin einkennist áfram af sjálfvirkum framreikningi verðbólgunnar og óskhyggju ríkisforstjóra um meira fé, samkvæmt Parkinsons-lögmáli, burtséð frá öllu mati á heildarsamhengi efnahagsmála eða einhverri viðleitni til þess að beita fjárlögum ríkisins sem hagstjórnartæki. Áfram er reynt að fylla upp í „fjárlagagatið“ með hefðbundnum aðferðum og óbreyttu skattakerfi, tekjuöflunarkerfi ríkisins, í stað þess að ákveða fyrst viðráðanlega hlutdeild hins opinbera í þjóðartekjunum og miða útgjöldin við raunverulegan efnahag og greiðslugetu skattgreiðenda. Sjálfvirkur útgjaldaauki þessa kerfis er áfram stórlega vanmetinn. Þannig er fyrirsjáanlegt að fjárlög, sem saman eru sett með þessum hefðbundna hætti, munu samkvæmt reynslu reynast marklaus vegna þess að útgjaldahlið þeirra er vanmetin.

Ríkisstj. horfir enn áfram aðgerðarlaus á ranglátt og hriplekt skattakerfi, sem allir viðurkenna þó í orði að sé orðið ónýtt tekjuöflunartæki, hvað þá heldur að það sé nothæft sem tekjujöfnunartæki. Hvergi örlar á þeim pólitíska kjarki sem er nauðsynlegur til þess að stokka upp ónýtt tekjuöflunarkerfi og sjálfvirka útgjaldaþenslu. Þegar er fyrirsjáanlegt, samkvæmt reynslu undanfarandi ára, að ríkissjóður verður áfram rekinn með halla, að markmiðið um stöðvun erlendrar skuldasöfnunar stenst ekki, að vaxtabyrði erlendra lána mun enn þyngjast, að viðskiptahallinn verður áfram háskalega mikill, eða a.m.k. á fimmta þúsund millj. kr. á næsta ári, sem þýðir hækkandi hlutfall erlendra skulda af landsframleiðslu á næstu árum.

Brtt. okkar Alþýðuflokksmanna við fjárlagafrv, og frv. til lánsfjárlaga fela í sér róttæka stefnubreytingu í ríkisfjármálum. Með þessum tillögum eru stigin fyrstu skrefin, en aðeins fyrstu skrefin, í átt til óumflýjanlegrar kerfisbreytingar í ríkisfjármálum. Fjármálatillögur okkar munu m.a. fela í sér eftirfarandi:

1. Erlend lántaka ríkissjóðs, þ.e. A-hluta ríkissjóðs, mun skv. okkar till. lækka um hvorki meira né minna en 1674 millj. kr. og verður ekki meiri en u.þ.b. 1,2 milljarðar.

2. Veitt lán á vegum ríkissjóðs til B-hluta, þ.e. til fyrirtækja með eignaraðild ríkisins og sjóðakerfis, eru lækkuð um 350 millj. og verða ekki hærri en 570 millj. kr.

3. Tillögur okkar fela í sér gerbreytingu á núverandi söluskattskerfi. Með afnámi fjölmargra undanþága og breyttu innheimtukerfi er tekjuöflun ríkissjóðs í gegnum óbeina skatta, söluskatt, aukin og jafnframt gerðar ráðstafanir til þess að draga úr stórfelldum og ranglátum skattundandrætti. Að hluta til er auknum tekjum varið til að lækka söluskattsprósentu úr 25% í 20%, þ.e. um 5 söluskattsstig, en til þess er varið 2500 millj. kr. Þessi aðgerð ein út af fyrir sig stuðlar að lækkun vöruverðs í landinu og þar með auknum kaupmætti launa og bættri afkomu heimilanna í landinu.

4. Staðið er við, samkvæmt þessum tillögum, yfirlýstan vilja og samþykkt Alþingis - að tilhlutan okkar Alþýðuflokksmanna og reyndar sjálfstæðismanna - um lækkun tekjuskatts á launþega í áföngum.

5. Í tillögum okkar er eignarskattur einstaklinga upp að vissu marki skuldlausrar eignar - og nær til alls þorra venjulegs fólks í landinu - lækkaður mjög verulega, eða um 76 millj. kr. Hins vegar er tekinn upp stigbreytilegur eignarskattur á félög, þ.e. fyrirtæki þar sem um er að ræða verulegar skuldlausar eignir, og hann er hækkaður um allverulega upphæð eða rúmlega 500 millj. kr.

6. Í þessum tillögum felst að ákvörðun núv. hæstv. fjmrh. um hækkun á vörugjaldi er breytt og vörugjaldið er lækkað.

7. Stigin eru fyrstu skrefin í átt til skattahreinsunar með því að afnema fjölmarga smáskatta sem eru við lýði af gömlum vana en eru dýrir í innheimtu, svara ekki innheimtukostnaði eða eru úreltir af öðrum sökum.

8. Í tillögum okkar er ráð fyrir því gert að stærri hluti af raunverulegum hagnaði Seðlabanka verði tekinn í ríkissjóð.

Ég vek athygli á því að þar sem halli ríkissjóðs er nú fyrst og fremst fjármagnaður með stórfelldum yfirdrætti hjá Seðlabanka, þá er fyrirsjáanlegt, og reyndar staðfest í umræðum í fjh.- og viðskn., að hagnaður Seðlabanka verður af þeim sökum - vegna hallareksturs og yfirdráttar ríkissjóðs - mjög verulegur á yfirstandandi ári. Í fjárlögum er einungis gert ráð fyrir því að taka hluta af þessum hagnaði í ríkissjóð og hann er þar að auki stórlega vanmetinn. Tillögur okkar fela í sér breytingu á þessu.

9. Stórauknum fjármunum er varið til húsnæðismála samkvæmt þessum tillögum og einnig stórauknum fjárhæðum varið til að verja kjör hinna öldruðu og hinna verst settu í þjóðfélaginu með fjárveitingum til sjúkratrygginga og lífeyrisgreiðslna.

10. Leifarnar af niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum eru afnumdar en breytt þess í stað í beinar greiðslur til hinna verst settu í þjóðfélaginu, til bótaþega almannatrygginga.

11. Veigamiklir útgjaldaliðir, sem við flokkum í einu lagi undir velferðarkerfi atvinnuvega og atvinnurekenda á fjárlögum, eru verulega skertir.

12. Rannsóknastofnunum atvinnuvega er breytt samkvæmt þessum tillögum í sjálfseignarstofnanir sem selja þjónustu sína til atvinnulífsins en njóta áfram verulegra ríkisstyrkja til rannsókna.

Í heild sinni er þetta allt saman, eins og ég sagði, herra forseti, fyrstu skrefin í átt til þess að snúa við af þeirri braut sem mun fyrirsjáanlega leiða til ófarnaðar. Þetta eru fyrstu skrefin í þá átt að taka upp algjörlega nýjar grundvallarreglur í opinberri fjármálastjórn og í ríkisbúskapnum í heild.

Brtt. okkar Alþýðuflokksmanna við frv. til lánsfjárlaga eru í fullu samræmi við stefnuna í ríkisfjármálum. Aðalatriði þeirra er að heimild fjmrh. til nýrrar erlendrar lántöku á árinu 1986, samkvæmt lánsfjárlögum, er stórlega lækkuð eða um ekki lægri upphæð en tæplega 1000 millj. kr., nánar tiltekið 924 millj. kr.

Ef við víkjum að einstökum liðum í brtt. okkar á þskj. 363, þá eru þær þessar helstar:

Í fyrsta lagi er brtt. við 3. gr. lánsfjárlaga og felur í sér lækkun erlendra lánsheimilda til Landsvirkjunar um 40 millj. kr.

Í öðru lagi brtt. við 5. gr. sem er um það að skerða lánsheimildir vegna svokallaðs Þróunarfélags úr 100 millj. í 50 millj. eða um 50 millj. kr.

Í þriðja lagi er brtt. við 7. gr. sem varðar lánsheimildir til Framkvæmdasjóðs ríkisins. Þar er um að ræða lækkun á lánsheimildum sem nema í heild sinni 355 millj. kr.

Í fjórða lagi er brtt. við 8. gr., þ.e. um lánsheimildir Byggðasjóðs, þar sem lánsheimildir hans eru lækkaðar um alls 150 millj. kr.

Allt eru þetta tillögur um það að takmarka erlendar lántökur sem ég vík svolítið að nánar síðar.

Þá er að geta brtt. við 18. gr. en sú grein fjallar um Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þessi brtt. er um það að sú skerðing á lögboðnum framlögum, sem þar er ráð fyrir gert og miðast við að skerða lögboðin framlög miðað við að þau verði ekki hærri en 80 millj. kr., að skerðingarákvæðið verði rýmkað, þannig að í hlut sjóðsins komi a.m.k. 20 millj. meira, og nálgast það frekar a.m.k. mat Hagsýslustofnunar sem er á þá leið að ef fylgt væri lagaákvæðunum þá ætti þessi upphæð að nema 112 millj. kr. Nú skal það að vísu tekið fram að að mati forráðamanna Framkvæmdasjóðs fatlaðra er hér um deilumál að ræða og álitamál. Að þeirra mati ætti þessi upphæð að vera miklum mun hærri, þ.e. einhvers staðar á bilinu 180-200 millj. kr. Hér er um að ræða ágreiningsmál milli forráðamanna sjóðsins og fjmrn. um túlkun lagaákvæða. En eins og ég segi: Brtt. okkar felur í sér að í hlut Framkvæmdasjóðs fatlaðra komi a.m.k. 20 millj. kr. meira en ráð er fyrir gert í tillögum meiri hlutans.

Loks er að geta brtt. við 23. gr., en hún fjallar um Ferðamálasjóð. Í tillögum stjórnarliða er gert ráð fyrir því að lögboðin framlög séu skert um helming, en tillögur okkar eru í því fólgnar að skerðingarákvæðið falli niður þannig að hann fái af framlögum 15 millj. kr. meira en á hinn bóginn verði skert heimild til erlendrar lántöku sem því svarar.

Þetta eru brtt. sem við flytjum og um þær þarf kannske að fara örlítið nánar orðum. Í fyrsta lagi er þess að geta að erlendar lántökuheimildir Framkvæmdasjóðs ríkisins, 350 millj. kr., eru þarna stærsta upphæðin. Það er í fyrsta lagi um það að ræða að við leggjum til að lántökuheimild Stofnlánadeildar landbúnaðarins verði skert um 200 millj. kr. og styðst það við augljós rök um arðsemismat fjárfestingar þegar landbúnaðurinn býr við offramleiðsluástand eins og nú er. Aðrar tillögur fela í sér að lántökuheimildir Verslunarlánasjóðs og Stofnlánadeildar samvinnufélaga verði afnumdar. Ég hef þegar gert grein fyrir brtt. að því er varðar Ferðamálasjóð og því næst er um að ræða tvær brtt., sem nema 50 millj. kr. hvor, um skerðingu á erlendum lántökuheimildum Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs.

Að því er varðar Þróunarfélag Íslands og tillöguna um að skerða erlendar lánveitingarheimildir til hennar um 50 millj. kr., þá þarf ég ekki að orðlengja það því hv. 3. þm. Reykv. fjallaði um það nokkuð ítarlega í ræðu sinni hér áðan. Hér er um að ræða félag með aðild ríkissjóðs sem á að vera áhættufélag. Það er augljóst mál að ef svo á að vera verður að ætlast til þess að þeir aðilar úr atvinnulífinu, sem hafa trú á þessu fyrirtæki, leggi því til áhættufé, vegna þess að þetta er félagsskapur sem á að skila eigendum sínum, hluthöfum, ríkinu, einstaklingum og fyrirtækjum, fjármálastofnunum og sjóðum, sem þarna eiga aðild, hagnaði. Og af þeim sökum er með öllu óþarfi að ríkið beiti sér sérstaklega fyrir erlendri lántöku.

Að því er varðar byggingarlánasjóðina þá hefur það þegar komið fram í mínu máli að í þeim fjárlagatillögum, sem við munum leggja fram væntanlega formlega á morgun, er ráð fyrir því gert að auka framlög úr ríkissjóði til Byggingarsjóðs ríkisins um 300 millj. kr. og til Byggingarsjóðs verkamanna um 200 millj. kr. Hér er hins vegar í þessum tillögum ráð fyrir því gert að heimild til erlendrar lántöku fyrir Byggingarsjóð ríkisins, allt að 150 millj. kr. verði afnumin. Ég vísa til þess að tvö s.l. ár hefur fjármagnsþörf byggingarlánasjóðanna að hluta til verið mætt með erlendum lántökum, á yfirstandandi ári um hvorki meira né minna en rúmlega 550 millj. kr., og einnig með umtalsverðri upphæð af erlendu láni á árinu þar á undan. Þetta er að mati okkar með öllu óafsakanleg fjárglæfrastarfsemi. Það er gjörsamlega út í hött og ábyrgðarlaust athæfi að ætla sér að fjármagna þessa sjóði með erlendum lánum. Þau ávöxtunarkjör sem á þessum lánum hvíla eru allt of þungbær, sú gengisáhætta sem tekin er með slíkum ráðstöfunum er með öllu óverjandi. Þessar ráðstafanir einar út af fyrir sig verða til þess að rífa niður eiginfjárhag sjóðanna og lama greiðslugetu þeirra og útlánagetu á næstu árum, þannig að þetta styðst við engin rök og er með öllu forkastanlegt.

Með því að leggja sjóðunum til aukin framlög úr ríkissjóði en takmarka hins vegar heimild til erlendrar lántöku teljum við einnig svigrúm til þess að draga úr heimild til innlendrar lántöku að því er varðar Byggingarsjóð ríkisins um 50 millj. kr. frá lífeyrissjóðum og að því er varðar Byggingarsjóð verkamanna um 30 millj. kr. Með þessum tillögum erum við að boða aðgerðir sem þýða að eiginfjárstaða sjóðanna er bætt frá því sem ella hefði orðið, vaxtabyrði þeirra verður léttbærari og útlánageta meiri fram í tímann.

Að því er varðar erlendar lántökuheimildir til atvinnuveganna gegnum hið opinbera sjóðakerfi þá miðast okkar tillögur við og eru byggðar á þeim forsendum að erlendar lántökuheimildir þeirra verði skertar sem svarar 135 millj. kr., þ.e. þær verði ekki hærri en 2400 millj. Þetta þýðir ósköp einfaldlega að atvinnulífið, alveg eins og opinberi geirinn, verður að sæta einhverjum takmörkunum að því er varðar erlendar lántökuheimildir þegar skuldastaða þjóðarbúsins er orðin slík sem staðreyndir bera vitni um. Þá reynir á hvort ríkisstjórnin hefur í höndum stjórntæki sem getur fylgt þessu eftir í framkvæmd. Þá á ég við fyrst og fremst langlánanefnd, en gegnum hendur þeirrar nefndar fer gífurlegt erlent fjármagn til ráðstöfunar til einkaaðila.

Almennur rökstuðningur fyrir minni erlendum lántökum sjóðakerfisins byggist á kröfunni um strangara arðsemismat framkvæmda. Í því efni skal rifjað upp að í þjóðhagsáætlun, sem lögð var fram hér á hinu háa Alþingi í upphafi þings, var því slegið föstu að hagkvæmasti fjárfestingarkostur Íslendinga við ríkjandi aðstæður væri í því fólginn að byrja nú að greiða til baka erlend lán með þungum ávöxtunarkröfum. Því var slegið föstu að þetta væri besti fjárfestingarkostur sem völ væri á í íslenskum þjóðarbúskap eins og komið er. Tillögur okkar bera það með sér að við erum sömu skoðunar í reynd, enda mun vera erfitt að benda á þau fyrirtæki í landinu eða þá fjárfestingarkosti sem gætu risið undir þeim ávöxtunarkröfum, þeirri raunvaxtabyrði sem á þessum erlendu lánum hvílir. Ég tala nú ekki um þegar við bætist gengishættan, en staðreyndir tala sínu máli um hversu komið er fyrir skráningu á gengi krónunnar.

Herra forseti. Í tillögum okkar felst einnig að við leggjum til að framlög ríkissjóðs til næststærsta félagslega lánasjóðsins, Lánasjóðs ísl. námsmanna, verði aukin um 200 millj. kr. Jafnframt leggjum við til að erlendar lántökuheimildir sjóðsins upp á alls 400 millj. kr. verði helmingaðar, þ.e. skertar um helming eða sem svarar auknu framlagi úr ríkissjóði. Það hefur áður komið fram í mínu máli að erlendar lántökur miðað við gildandi raunvexti fyrir sjóði af þessu tagi eru með öllu óafsakanlegar. Það kom fram á fundi fjh.- og viðskn. í viðræðum við forráðamenn sjóðsins að gegndarlausar lántökur liðinna ára bitna nú þegar með fullum þunga á eiginfjárstöðu og útlánagetu sjóðsins. Vaxtabyrði hans af erlendum lánum, ekki síst þeim sem tekin voru í ráðherratíð hæstv. fyrrv. fjmrh., Ragnars Arnalds, eru orðnar óbærilega háar. Hæstv. menntmrh. hefur á fundi fjh.- og viðskn. boðað að hann hafi í hyggju að beita sér fyrir breytingum á lögum eða reglugerðum um fjármögnun og útlánareglur þessa sjóðs. Upplýsingar frá honum um nánari tilhögun þess eða innihald slíkra breytinga var ekki að hafa. Meðan slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir er ógerningur að gera aðrar brtt. að sinni en hér eru lagðar fram. Þær eru þá fyrst og fremst þær að auka bein framlög til sjóðsins en létta vaxtabyrði og greiðslubyrði af honum með því að minnka erlendar lántökur hans.

Herra forseti. Ég lét þess getið áðan að ein af brtt. okkar við lánsfjárlögin væri í því fólgin að framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs fatlaðra verði aukið um 20 millj. kr. Auk þess vil ég geta þess að í fjárlagatillögum okkar, sem lagðar verða fram hér á morgun, er tekinn upp nýr fjárlagaliður vegna rekstrarkostnaðar svæðisstjórna fatlaðra í öllum kjördæmum landsins. Sú till. styðst við þau rök að jafnvel þótt Framkvæmdasjóður fatlaðra geti lagt fram fé til að framfylgja lögum frá Alþingi um stofnkostnað á vegum fatlaðra til að byggja upp nýjar stofnanir, þá er það ljóst skv. upplýsingum svæðisstjórna fatlaðra um land allt að rekstrarfé til að starfrækja þessar stofnanir er mjög af skornum skammti. Þessi till. er því ætluð til að bæta úr því neyðarástandi.

Ég vil minna á að því er varðar till. okkar um aukin framlög til Ferðamálasjóðs en samsvarandi minnkun á erlendum lántökum að ferðamannaiðnaður er einn af vaxtarbroddunum í íslensku þjóðfélagi. Í viðræðum við forráðamenn sjóðsins í fjh.- og viðskn. kom fram að ferðamannaiðnaðurinn skilar í íslenskan þjóðarbúskap gjaldeyristekjum hátt á þriðja milljarð kr. Hér er því um að ræða arðbærar framkvæmdir sem skynsamlegt væri að styðja við bakið á. En þarna er um að ræða fyrst og fremst markaðan tekjustofn sem við ætlum sjóðnum að njóta betur en gert er ráð fyrir í tillögum stjórnarliðanna.

Herra forseti. Í heild sinni fela þessar róttæku tillögur okkar Alþýðuflokksmanna í sér eftirfarandi breytingar:

1. Þetta er afdráttarlaus stefna, fylgt eftir með raunhæfum tillögum um stöðvun erlendrar skuldasöfnunar.

2. Þessar tillögur þýða í verki stöðvun á sjálfvirkri útgjaldaþenslu í ríkisbúskapnum.

3. Þessar tillögur byggja á forsendum um réttlátara og skilvirkara tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs.

4. Þessar tillögur, ef þær ná fram að ganga, fela í sér minni skattbyrði launþega og þar með auknar ráðstöfunartekjur eða meiri kaupmátt launa í reynd án verðbólgu sem tæki þær kjarabætur til baka.

Þetta væru þess vegna mjög skynsamlegar tillögur til að staðfesta hér á hinu háa Alþingi á þessari stundu þegar vitað er að nú eftir áramótin eru allir kjarasamningar lausir í þjóðfélaginu. Þess vegna væri mjög skynsamlegt ef Alþingi stæði nú að því við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga að taka upp nýja stefnu í ríkisfjármálum þar sem aðhaldinu er fyrst og fremst beitt í ríkisbúskapnum sjálfum en um leið gripið til aðgerða sem verða til að tryggja öllum almenningi, hinum verst settu í þjóðfélaginu, raunhæfar kjarabætur án verðbólguáhættu.

Herra forseti. Það er ljóst að skuldasöfnunar- og fjármagnssóunarstefna stjórnvalda á umliðnum árum bitnar með mestum þunga á unga fólkinu í landinu. Það er unga fólkið í landinu sem verður um síðir að bera ört hækkandi skatta í framtíðinni sem að lokum verður vísað til þeirra ef skuldastefnunni verður fram haldið.

Óbreytt stefna bitnar líka í öðru lagi með fullum þunga á sjávarútveginum, undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, vegna þess að hann er ósamkeppnisfær um fjármagn og vinnuafl við verslun og þjónustu ef þessari stefnu verður haldið áfram.

Í þriðja lagi bitnar óbreytt stefna af fullum þunga á landsbyggðinni þar sem sjávarútvegur og aðrar frumframleiðslugreinar eru uppistaða atvinnulífsins.

Í fjórða lagi er ljóst að óbreytt skuldasöfnunarstefna bitnar af fullum þunga á þeim hluta launþega sem ekki njóta launaskriðs verðbólguþenslunnar sem gildir í sumum greinum hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er einmitt sá mikli fjöldi launþega sem ber uppi atvinnulífið í sjávarútvegi og iðnaði landsmanna.

Það er því, herra forseti, fyrst og fremst í þágu þessara aðila í þjóðfélaginu sem við Alþýðuflokksmenn boðum nú róttæka kerfisbreytingu í ríkisfjármálum sem þessar tillögur lýsa og mun koma enn betur í ljós við afgreiðslu fjárlaga á morgun þegar tillögur okkar um það efni verða fram lagðar.