19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég bið hv. þm. velvirðingar á því að ég gat ekki svarað þessu við 2. umr. En þetta mál stendur þannig að stjórn stofnunarinnar ákvað að kanna flutning Byggðastofnunar til Akureyrar og fól sérstökum starfsmanni að gera úttekt á því bæði hjá starfsliði stofnunarinnar og einnig að ræða við Akureyringa um það mál. Ég hef ekki séð niðurstöður af þeirri könnun og mér er ekki kunnugt um að henni sé lokið. Þetta er sem sagt í athugun og niðurstaða liggur ekki fyrir eftir því sem ég best veit.

En af því að hv. þm. kom að nokkrum öðrum atriðum í ræðu sinni í dag vil ég fara örfáum orðum um þau.

Hann ræddi m.a. um að það væri lítil breyting að Byggðastofnun er orðin sjálfstæð stofnun. Ég hygg að í ljós muni koma að þetta er töluvert mikil breyting. M.a. hefur Byggðastofnun nú til ráðstöfunar miklu meira fé en nokkru sinni fyrr. Ég hygg að samtals muni það vera um 530 millj. kr. sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar. Að sjálfsögðu er ekki búið að ákveða hvernig því verður skipt en ég veit að stjórn stofnunarinnar er m.a. með í athugun að ráðstafa töluverðu fé til aðstoðar við fiskvinnsluna í landinu, til lengingar lána o.s.frv.

Hv. þm. gat þess réttilega í dag að það er illt að sá rannsóknarsjóður sem settur var á fót á s.l. ári og fékk 50 millj. kr. til ráðstöfunar er óbreyttur að krónutölu nú. Ég er hv. þm. mjög sammála um að þetta er hið þarfasta mál og hefur þegar hleypt verulegu lífi í ýmiss konar rannsóknir og tilraunir sem hér eru í gangi á ýmsum nýjum greinum. Þetta mál er til athugunar hjá ríkisstj. :að þarf að setja lög um þennan sjóð í raun og veru til að hann fái vissan „status“, ef má orða það svo, vissa stöðu. Og m.a. í því sambandi er ég að kanna hvort unnt muni vera að afla honum fjár eftir öðrum leiðum með sérstökum tekjum, en það er skammt komið enn.

Loks, ef ég man rétt, þá gat hv. þm. þess að fyrir lægi skýrsla frá fiskeldisnefnd. Þar er aðeins um að ræða áfangaskýrslu. Ég er sammála hv. þm. að þetta er mjög vel unnið verk og ítarlega unnið en nefndin er ekki komin það langt að hún hafi skilað lokaskýrslu og því liggja ekki fyrir neinar tillögur frá henni um það hvernig þessum málum skuli í framtíðinni skipað hjá okkur. Þær tillögur, sem liggja fyrir, eru í fyrsta lagi frv. til l. um fisksjúkdómadeild að Keldum. Nefndin taldi þetta mikilvægasta málið á þessu stigi og nauðsynlegt að hrinda því í framkvæmd. Það hefur verið rætt í ríkisstj. og ákveðið að standa að því að efla fisksjúkdómarannsóknir að Keldum. Sömuleiðis gerir nefndin ráð fyrir því að fjármagni, sem nú er merkt af Framkvæmdasjóði, verði ásamt jafnvel nokkru auknu fé af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs varið í þessu skyni og umsóknir sem inn berast verði metnar af ákveðinni matsnefnd. Ég tel þetta athyglisverða hugmynd og hún mun verða vandlega skoðuð. En ég endurtek, og ég er hv. þm. sammála, að vitanlega þarf að skipa þessum málum í ákveðinn farveg, en niðurstöður frá nefndinni eða tillögur eru ekki komnar um það.

Hv. þm. gat þess réttilega að það er vissulega nýtt og mjög athyglisvert að fá nú yfirlit yfir greiðslujöfnuð þjóðarbúsins, sem fylgir með skjali fjh.- og viðskn., og ég er hv. þm. fullkomlega sammála um að það er allt of mikill viðskiptahalli áætlaður á næsta ári, 3,8% af landsframleiðslu. Þetta er þó lækkun frá því sem er í ár, þegar viðskiptahallinn mun verða um 4,7% af landsframleiðslu, og ef ég man rétt var hann árið 1984 5,1%. Við getum farið aftur til ársins 1981, sem var eitt besta aflaárið sem við höfum haft hér á landi, þegar viðskiptahalli varð 8% vergrar landsframleiðslu en 10% af þjóðarframleiðslu. Það er alveg rétt að það er óafsakanlegt fyrir þjóð eins og okkur að búa við svo mikinn viðskiptahalla. Leiðin til þess er að draga úr útgjöldunum, láta tekjur og útgjöld haldast í hendur.

Langsamlega stærsti liður þjóðarútgjalda er einkaneyslan, eða um 60%, og ég held það verði að segjast eins og er að einkaneysla hér er of mikil, sparnaður ekki nægilegur. Það er búið að skera mjög niður fjárfestingar og verður varla lengra farið á þeirri braut. Þetta er einmitt það mál sem ríkisstj. er að fást við nú, m.a. með þeirri ríku áherslu sem hún leggur á að hafa hallalaus fjárlög og draga úr erlendum lántökum.

Ýmsir hafa lagt á það áherslu að þarna þurfi að ganga miklu lengra og vitanlega er það rétt með tilvísun til viðskiptahallans. En ríkisstj. treystir sér þó ekki til þess á þessu stigi m.a. með tilvísun til þeirrar áherslu sem hún leggur á fulla atvinnu í landinu. En ég vek athygli á því að erlendar skuldir, sem eru þarna áætlaðar rúmlega 54% vergrar landsframleiðslu, - áætlað er að þær fari lækkandi sem slíkar á næsta ári, að vísu mjög lítið - hafa aukist mjög mikið á undanförnum árum. T.d. jukust þær úr rúmlega 27% af vergri landsframleiðslu 1981 upp í yfir 40% í lok ársins 1982, og það er langsamlega mesta stökk sem erlendar skuldir hafa tekið og stafa vitanlega af þeim mikla viðskiptahalla sem þá varð. Á þessari braut verður ekki lengur gengið, það er alveg ljóst, og ríkisstj., eins og fram kemur í þjóðhagsáætlun, stefnir markvisst að því að erlendar skuldir fari lækkandi á næstu árum.