19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. 3. þm. Reykv. um hagi Lánasjóðs ísl. námsmanna vil ég taka það fram að það var auðvitað mitt fyrsta verk í nýju embætti að kynna mér ástæður sjóðsins. Ég lagði mjög mikla og ríka áherslu á það við stjórnendur hans og þá sem við það fást að gera úttekt á högum hans að mér yrðu hið fyrsta staðin skil á allri stöðu og innviðum sjóðsins, starfsemi hans og áætlunum vegna framtíðarstarfsemi. Ég lagði áherslu á að slíkar upplýsingar yrðu komnar í mínar hendur í desembermánuði með tilliti til þess að hægt væri að mynda sér ákveðna skoðun um fjárþörf sjóðsins við afgreiðslu fjárlaga. Þetta tókst ekki og ég gagnrýni engan þess vegna af því sem augljóst er að þetta er viðamikið starf og til þess þarf mjög að vanda. Ég geri mér hins vegar vonir um að um miðjan janúarmánuð muni ég hafa fengið þau gögn í hendur sem gera mér kleift að mynda og móta afstöðu til þessa viðamikla, mikilvæga máls.

Því miður eru staðreyndirnar þessar. Ég hef engar ákvarðanir tekið eða ríkisstjórnin, lokaákvarðanir í þessu máli. Ég legg þó áherslu á að það verður auðvitað leitast við að koma ekki aftan að námsmönnum með nýja skipan mála sem mundi mjög hrugga við áformum þeirra á námsbrautinni. Ég hef þó séð ýmislegt það í starfsemi sjóðsins sem ég tel að gagngerðra úrbóta krefjist og fyrir því mun ég beita mér. Ég fullyrði að okkur mun gefast kostur á, áður en þessu þingi lýkur, að gera okkur fyllstu hugmynd um og afla okkur fullrar vissu um stöðu málsins, þannig að ef til einhverra ráðstafana þarf að grípa gefst okkur ráðrúm til þess.

Eftir sem áður verður það megintilgangur þessa sjóðs að jafna aðstöðu ungs fólks til náms, það er meginundirstaðan. Ég bendi hins vegar á, og það hefur komið fram í umræðum t.a.m. á ráðstefnu sem ég sat á laugardaginn var, að það er ætlun háskólamanna að hið stórvaxandi hlutfall fólks sem hefur háskólanám en hættir því svo, og þá gjarnan mjög snemma á námstímanum, eigi rætur sínar að rekja til þess hversu auðveldan aðgang það á að fjármunum Lánasjóðsins.

Þetta er milljarða sjóður og ekkert undarlegt við það þótt mönnum þyki smátt skammtað miðað við þær áætlanir sem uppi eru. En ég hef fyrir mér ástæður til þess að leggja ekki mjög mikið upp úr þeim áætlunum sem af hálfu þessa sjóðs hafa verið gerðar. Það hef ég án þess að hirða um að rekja það frekar, en að því mun verða komið síðar.

Þetta vildi ég segja um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það þarf að endurskoða alla starfsemi hans, en ég legg hins vegar áherslu á að við gefum okkur nægjanlegan tíma til þess að bera ráð okkar öll saman um þetta því að þessu má ekki kasta höndum. Á það hefur raunar líka verið bent að við þurfum mjög að skoða okkur um bekki áður en við göngum fram í því að taka stórfelld erlend lán til þess arna, en ég hef nú skýrt frá því sem ég hef um þetta að segja á þessu stigi málsins. Menn verða að virða mér til vorkunnar þótt ég hafi ekki komist lengra áleiðis af því sem að ég kom ekki fyrr til verka en þetta, en ég get þess þó að fyrirrennari minn hafði undirbúið málið.

Vegna fyrirspurnar hv. 3. þm. Reykv. - hann má heyra mál mitt - um kaup á húsnæði Mjólkursamsölunnar í Reykjavík vil ég segja þetta: Á einhverjum fyrstum dögum sem ég sat í hinu nýja embætti menntmrh. gerði ég mér ferð að líta á aðstöðu Þjóðskjalasafnsins. Nú þarf engum orðum að fara um þær ástæður. Þær eru með þeim hætti að enda þótt Landsbókasafn rýmdi það húsnæði og flytti í hina nýju Þjóðarbókhlöðu - slíkt skammarmál sem það er raunar orðið þegar fyrir þá sem gáfu og ég ætla ekki að fara fleiri orðum um - liggur alveg ljóst fyrir að það húsnæði hvorki hentar né nálægt því nægir til þess að sjá safninu farborða á næstu árum. Til þess að víkja sér undan söfnun skjalanna, varðveislu og nýslu og nýtingu, hafði verið tekin ákvörðun um að lengja skilafrest gagna upp í 30 ár.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þessa nauðsyn sem á því var að Þjóðskjalasafnið fengi húsrými vegna þess að ég held að þar skilji okkur ekki á og ég veit að á því hefur hv. fyrirspyrjandi skilning, en ég hins vegar lít svo á að hann hafi verið að spyrja um aðferðina og málsmeðferðina einvörðungu vegna kaupanna.

Þá er frá því að segja að samkvæmt nýjum lögum var skipuð ný stjórn og ég fól formanni þeirrar stjórnar, Sverri Kristinssyni, sem hefur til að bera mikla þekkingu á slíkum málum, að svipast um ef þess væri kostur að finna lausn á þessum mikla vanda. Þar kom hans athugunum að hann bar niður þar sem húsnæði Mjólkursamsölunnar er og hafði verið um hríð til sölu. Gagngerð rannsókn og úttekt fór fram á húsinu og mat. Að því búnu gerði ég tilboð í húsið og verð að játa það að ég gerði tilboð sem ég satt að segja gerði mér ekki háar vonir um að mundi verða tekið, því að allmiklu lægri fjárhæð gerði ég tilboð um en mat stóð til og enn fremur önnur greiðslukjör, svo sem eins og að ekkert fellur til greiðslu fyrr en á árinu 1987. Húsið var, eins og ég segi, rannsakað af hinum hæfustu mönnum og töldu þeir að með ólíkindum - og ég orða það eins og það var orðað við mig - mætti telja gerð hússins, hversu vel hún hentaði til síns brúks. Ég gerði kaupsamning með fyrirvara um samþykki hæstv. ríkisstjórnar og bar upp þetta málefni á fundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudaginn er leið. Hún féllst á þessa gerð mína og - svo ég endi á því sem hv. fyrirspyrjandi lauk máli sínu á - þetta mál kemur fyrir Alþingi til afgreiðslu með afgreiðslu fjárlaga áður en þeim málum lýkur hér á hinu háa Alþingi.