19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna ítrekaðra fsp. frá hv. 3. þm. Reykv. þykir mér rétt að ég komi aðeins inn í þessa umræðu og reyni að

svara þeim spurningum sem hann bar fram. Ég sé hann ekki í salnum, en hann er hér í hliðarstúku.

Eins og fram hefur komið áður í umræðum um þessi mál á hv. Alþingi er það ljóst að ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur milliþinganefndar í húsnæðismálum þar sem gert er ráð fyrir að á næsta ári fari 200 milljónir í sérstök viðbótarlán, eða lán til þess að koma til móts við vanda húsbyggjenda, og er það ákveðið. Eins og fram hefur komið í breytingum á fjárlögum og lánsfjárlögum hefur sú fjárhæð sem á að fara til lánveitinga á næsta ári hækkað úr 2 milljörðum og 50 millj. kr. í 2 milljarða og 500 millj. kr. í byggingarsjóði ríkisins. Uppistaðan í þessari hækkun er fyrst og fremst vegna kaupa lífeyrissjóðanna af Byggingarsjóði ríkisins sem er gert ráð fyrir að hækki um 230 millj. kr. eða upp í 1150 millj. kr., og er þar komin næg staðfesting á því að ríkisstjórnin hefur þannig útvegað fjármagn til umræddra viðbótarlána.

Hv. þm. las upp úr áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins sem hann taldi óyggjandi. Ég vil aðeins upplýsa það að Húsnæðisstofnun ríkisins hefur ekki enn fjallað um neina útlánaáætlun fyrir árið 1986 og gerir það ekki fyrr en fjárlög og lánsfjárlög hafa verið samþykkt. Það er af eðlilegum ástæðum og ósköp skiljanlegt að það er ekki gert því hún getur það ekki fyrr en þessar tölur hafa verið staðfestar. Hins vegar las ég upp fyrir hv. þm. fyrir nokkru á fundi um þessi mál þá greiðsluáætlun fyrir 1986 sem Húsnæðisstofnun eða starfsmenn hennar höfðu sent milliþinganefnd í sambandi við meðferð hennar á þeim tillögum sem hún gerði. Þar var fjárhæðin að vísu 2 milljarðar og 405 millj. kr. sem var skipt þannig að til F-lána, þ.e. nýbyggingarlána, áttu að fara 1220 millj. kr., til G-lána 750 millj. kr., til orkusparandi lána 50 millj. kr., til framkvæmdalána 130 millj. kr., til annarra lána 50 millj. kr. og til viðbótarlána, þ.e. til þess að leysa úr sérstökum greiðsluvanda fólks, 200 millj. kr. Þessar tölur eru óbreyttar frá starfsliði Húsnæðisstofnunar til nefndarinnar og eru að sjálfsögðu áættunartölur sem stjórn stofnunarinnar eða stofnunin sjálf sem slík er ekki farin að taka afstöðu til. En um leið og þær tölur sem koma fram í lánsfjárlögum og fjárlögum verða samþykktar hér á hv. Alþingi mun Húsnæðisstofnunin og stjórn hennar að sjálfsögðu taka til við, í samráði við félmrn., að gera nákvæma útlánaáætlun fyrir árið 1986 eins og venja hefur verið til.

Og að því er varðar þann lið sem hv. þm. vildi fá svör við, lán til húsnæðissamvinnufélagsins Búseta, er rétt að svara honum því að um þetta mál hefur verið styrr eins og allir vita, en skv. c-lið 33. gr. um félagslegar byggingar er heimilt að lána til þeirra sem byggja leiguíbúðir fyrir öryrkja, námsmenn og aldraða. Húsnæðissamvinnufélagið Búseti breytti sínum lögum til að geta fullnægt þessum ákvæðum og geta þannig byggt leiguíbúðir fyrir þá félagsmenn sína sem væru öryrkjar, námsmenn og aldraðir. Þessar samþykktir voru frágengnar og formlega fram settar og samþykktar af stjórn Húsnæðisstofnunarinnar til útlána en takmarkað við 15 íbúðir á næsta ári. Ég þarf ekki frekar að ræða um þetta, en þetta er upplýst hér með og stendur óhaggað þar sem Húsnæðisstofnunin hefur samþykkt það.