19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil við afgreiðslu lánsfjárlaga leggja áherslu á að í framhaldsnefndaráliti er lögð áhersla á að það liggi fyrir sem fyrst hvernig þeim 200 millj. kr., sem verja á til meiri háttar viðgerða og endurbóta á skipum í skipasmíðastöðvum hér innanlands, verði varið. Þessar 200 millj. kr. koma til viðbótar þeim lánum sem veitt eru eftir almennum reglum úr Fiskveiðasjóði og eru sama eðlis og þau lán sem veitt eru úr Útflutningslánasjóði til annars konar iðnaðar. Skýringin á því að skipasmíðastöðvarnar eða skipasmíðaiðnaðurinn er ekki inni í Útflutningslánasjóði er einfaldlega sú að þar er um svo háar og miklar fjárhæðir að tefla að sá sjóður hefur ekki treyst sér til að ráða við það verkefni og hefur þess vegna orðið nauðsynlegt að leita annarra ráða. Eins og sakir standa nú virðist liggja beint fyrir að Byggðasjóður fái þetta fé nema um mjög breyttar útlánareglur verði að ræða í fjárfestingarlánasjóðunum þar sem slík lán til viðgerða, meiri háttar viðgerða samrýmast ekki venjulegum reglum fjárfestingarlánasjóða.

Svavar Gestsson, hv. 3. þm. Reykv., spurði mig að því hvort ég væri sáttur við þá samþykkt sem húsnæðismálastjórn gerði 30. október 1985 varðandi lánveitingar skv. c-lið 33. gr. til stofnana eða félagasamtaka vegna byggingar leiguíbúða fyrir námsfólk, aldraða og öryrkja, og ég gat ekki betur heyrt á hv. þm. en hann væri alls hugar feginn þeirri samþykkt og hugsaði sem svo að frekari flutningur frv. hér á Alþingi til þess að rétta hlut eða tryggja sess Búseta væri óþarfur. Ég leit svo á að í ræðu sinni teldi hann að húsnæðissamvinnufélagið Búseti eða sú hugsjón sem þar liggur á bak við hafi fengið þvílíka viðurkenningu í húsnæðismálastjórn að algjörlega hafi verið óþarft hjá Steingrími J. Sigfússyni hv. 4. þm. Norðurl. e., hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Kristínu S. Kvaran og Guðrúnu Agnarsdóttur að flytja hér frv. um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt, nánast frumhlaup eins og máli væri komið, enda væri búið að sauma svo að mér að það sem ég hefði sagt um þessi mál heyrði nánast forsögunni til og málið hefði verið afgreitt hjá hæstv. félmrh. og frekari atbeini löggjafarvaldsins þyrfti ekki til að koma. Nú er ég auðvitað afskaplega ánægður yfir því að hv. þm. skuli vera þessarar skoðunar og vildi gjarnan spyrja 1. flm., hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, hvort hann líti þessum sömu augum á þetta mál, að Búseti sé kominn í höfn, Húsnæðisstofnun sé búin að samþykkja það með staðfestingu hæstv. félmrh. og ekki þurfi frekar vitnanna við.

Nú er það svo um samþykkt húsnæðismálastjórnar að í henni felst stefnumarkandi ákvæði varðandi það hversu með skuli fara byggingar leiguíbúða fyrir námsfólk, aldraða og öryrkja, og ég get ekki neitað því að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum. Kannske fyrst og fremst vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að leiguíbúðir fyrir námsmenn eigi að vera á vegum Bandalags íslenskra sérskólanemenda og Félagsstofnunar stúdenta og annarra slíkra aðila og tel ekki að Húsnæðisstofnun eigi, eins og húsnæðismálum nemenda innan þessara samtaka er fyrir komið, að veita öðrum forgang. Ég skil því ekki þessa samþykkt húsnæðismálastjórnar og ég skil ekki að nokkur alþm. skuli fagna því að Húsnæðisstofnun skuli láta aðra aðila en Stúdentagarðana, en Bandalag íslenskra sérskólanemenda, sitja fyrir varðandi lánafyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði verkamanna.

Ég vil líka segja það varðandi þær umsóknir sem fyrir liggja frá Samtökum aldraðra að hér liggja fyrir umsóknir um 30 íbúðir. Það liggur jafnframt fyrir að aðilar eins og Hrafnista í Hafnarfirði hafa verið látnir byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða með verri kjörum en veitt eru úr Byggingarsjóði verkamanna, hafa ekki sætt sömu lánafyrirgreiðslu og þar er veitt. Ég vil líka segja það að ég er þeirrar skoðunar að samtök eins og Hrafnista í Hafnarfirði og önnur þau samtök sem hafa getið sér á löngum tíma orð fyrir mikla vinnu, fórnfúst starf fyrir aldraða, eigi að sitja fyrir þegar takmarkað fé er í ríkissjóði til þess að byggja íbúðir fyrir aldraða.

Ég vil segja í þriðja lagi að ég ber litla virðingu fyrir því ef menn ýta til hliðar Öryrkjabandalaginu eða samtökum fatlaðra, Sjálfsbjörg, þegar kemur að því að byggja yfir öryrkja. Og ef það á að vera stefnumótandi fyrir Byggingarsjóð verkamanna að ýta til hliðar Stúdentagörðunum, ýta til hliðar Bandalagi íslenskra sérskólanema, ýta til hliðar Öryrkjabandalaginu, ýta til hliðar Sjálfsbjörg, ýta til hliðar Blindrafélaginu og ýta til hliðar Hrafnistu í Hafnarfirði og samtökum aldraðra víðs vegar um land, verð ég fjandmaður þeirrar stefnumörkunar.