19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þau gefast tilefnin til að ræða ýmsa hluti bæði í framhaldi af ummælum hæstv. ráðherra og hv. þm. Ég vil fyrst spyrja hvort hæstv. menntmrh. núverandi sé nálægur. Hann viðhafði þannig ummæli um ákveðna stofnun utan þingsala, Lánasjóð íslenskra námsmanna, að ég held ég verði að fá að eiga við hann svolítinn orðastað, herra forseti. (Forseti: Það verður reynt að ná í hæstv. ráðherra.)

En ég get snúið mér, á meðan þetta verður kannað, að hv. skrifara - ég held að það sé skynsamlegt (HBI: Herra forseti, er þetta þinglegt ávarp?) - hv. 2. þm. Norðurl. e., virðulegum skrifara deildarinnar (HBI: Betra.) og mun svo snúa máli mínu að hæstv. menntmrh., sem nú er genginn í salinn, innan tíðar.

Ég ætla, herra forseti, að spara mér það að fara út í ítarlegar umræður um húsnæðismál þó að hv. 2. þm. Norðurl. e. og virðulegur skrifari deildarinnar hafi sannarlega gefið tilefni til þess. Það er alltaf nokkuð gaman að því þegar hann kemst í sinn ham og tekur þetta tiltekna mál, Búseta, upp á arma sína af miklum þrótti og er þá orðinn slíkur talsmaður verkamannabústaðakerfisins, Öryrkjabandalagsins, Félagsstofnunar stúdenta og yfirleitt allra annarra aðila í þjóðfélaginu sem nokkurn tíma hafa byggt hús að það er með endemum og skín af honum ástúðin og kærleikurinn til þessara aðila allra. En það er auðvitað ein meinloka í öllum málflutningi hv. þm. og hún er sú að hann getur aldrei opnað augu sín fyrir öðru en því að áframhaldandi skömmtun verði á fé og áframhaldandi neyðarástand í húsnæðismálum á Íslandi. Allur málflutningur hv. þm. gengur út á það að slegist verði og barist og bitist um hverja einustu krónu sem hægt verði að fá að láni til húsbygginga. Hann sér sjálfan sig sem skömmtunarstjóra, fullan af mannúð og gæsku auðvitað, sem deilir þessari krónu til Öryrkjabandalagsins og annarri krónu til Félagsstofnunar o.s.frv., en undirstaðan undir öllum hans málflutningi er sú að það verði mikill skortur og þess vegna sé verið að taka eitthvað frá einum og láta annan fá það. Hann sér það sem sagt ekki fyrir sér að það rofi til í húsnæðismálunum á næstu árum og þess vegna talar hann svona eins og raun ber vitni, hv. þm. Þetta er auðvitað sorgleg framtíðarsýn og bágt til þess að vita að svona svartnætti skuli ríkja á stjórnarheimilinu, að helsti talsmaður Sjálfstfl. í húsnæðismálum sér allt biksvart um ókomin ár í húsnæðismálum og það verður ekki hægt að gera neitt fyrir neinn nema að taka það undan nöglunum á einhverjum öðrum, slíkur er nú málflutningur hv. þm.

En hæstv. menntmrh. situr hér nær mér, eins og hann mundi kannske orða það, og ætla ég þá að beina máli mínu til hans lítillega. Hæstv. ráðh. sagði ákveðna hluti um Lánasjóð ísl. námsmanna sem ég var mjög hissa á, herra forseti. Maður á því ekki að venjast að það sé nánast verið með dylgjur í garð slíkra stofnana án þess að það sé þá rökstutt. Hvað er það sem hæstv. ráðherra er að fara þegar hann segir að hann hafi ýmislegt fyrir sér í því að það sé ekki mark takandi á áætlunum frá þessum sjóði, ekki nema svona mjög í hófi? Allt sem frá honum komi sé einhver vitleysa. Hann sagði að ýmislegt í starfsemi sjóðsins þyrfti gagngerra úrbóta, krefðist gagngerra úrbóta. Ég óska skýringa á þessum ummælum hæstv. ráðherra. Á hann við starfsemina sem slíka? Á hann við reksturinn? Hefur verið farið illa með fé þarna? Vinna þarna einhverjir óþokkar? Er verið að sólunda þarna fé? Hvað er á ferðinni, hvers vegna notar hæstv. ráðherra þessara mála svona orðbragð hér án þess að skýra það nánar? Ég óska þess, herra forseti, að við þurfum ekki að hlusta á það að stofnanir eins og Lánasjóður ísl. námsmanna sitji undir slíku ámæli án rökstuðnings. Ég skora á hæstv. ráðherra að falla frá þessum ummælum eða skýra út fyrir okkur ella hvað hann eigi við.

Það kemur nokkuð sérkennilega út að hæstv. ráðherra lýsir því hér yfir og harmar það að hann hafi ekki fengið nein þau gögn sem hann geti notað til þess að mynda sér skoðun um ástand sjóðsins. En hverjir eru að setjast í dómarasætið aðrir en hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn með því að skera niður fjárveitingabeiðnir sjóðsins við trog? Þá vita þeir allt í einu nóg til þess að gerast dómarar. Ég hefði talið rökréttara í framhaldi af því sem hæstv. ráðherra sagði um upplýsingaskort sinn að hann hefði tekið þær skástu fáanlegu upplýsingar sem fyrir liggja, sem eru frá Lánasjóðnum, gildar og látið þær gilda á meðan hann hefur ekki annað haldbetra í höndunum.

En að síðustu, herra forseti, þá er náttúrlega óhjákvæmilegt að halda hér uppi svolitlum málsvörnum fyrir hæstv. fyrrv. menntmrh. þann er næstur sat á undan þessum sem nú er, því þetta voru auðvitað hreinar árásir á hæstv. fyrrv. menntmrh. Hér kom hæstv. ráðherra í stólinn og talaði eins og landnámsmaður í menntmrn. Þar hefði bara verið numið land þegar hann kom þar inn úr dyrum. Þar hefði ekkert verið gert áður og hann væri í slíkum önnum að kynna sér hlutina og fara ofan í saumana á þessu. Það hefur verið dálaglegt ástandið, herra forseti, í þessu ráðuneyti sem virðulegur forseti mun einnig nokkuð kunnugur. Þetta voru ekki fögur lýsingarorð. Það hefur ekki verið vel unnið í þessu ráðuneyti ef maður á að taka mark á málflutningi hæstv. núv. menntmrh. Nei, ég held nú að hæstv. ráðh. verði einnig að skýra nokkuð hvað hann átti við með þessum ummælum svo menn þurfi ekki einnig að sitja undir því að samráðherrar og hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn fái yfir sig svona gusur hér. Menn verða að hafa það þá svart á hvítu.

Það er náttúrlega ekkert óvenjulegt að talsmenn Sjálfstfl. gangi fram í málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna með eitthvað svipuðum hætti og hér hefur gerst og ég frábið mér öll ræðuhöld um það að auðvitað eigi þessi sjóður að stuðla að jafnrétti til náms og annars slíks á sama tíma og það er verið að skera getu hans til þess niður við trog. Auðvitað þýðir þetta beint að möguleikar sjóðsins til að sinna lögbundnu hlutverki sínu minnka sem því nemur sem hér er af honum tekið. Það liggur ljóst fyrir. Ég held að það hafi ekki verið staðið þannig að lánsúthlutunum, hæstv. menntmrh., til 1. árs nema - eins og menn vita þá hafa þeir barist í bönkum eins og það var kallað á síðasta ári vegna aðgerða sem hæstv. fyrrv. menntmrh. greip til - og ég hef enga ástæðu til að ætla að það hafi sérstaklega ýtt undir menn um að streyma inn í nám sem lánshæft er frá Lánasjóði ísl. námsmanna.

Það er auðvitað mjög alvarlegt, herra forseti, og ég hugsa að það sé vegna þess að hæstv. menntmrh. kom alveg að sviðinni jörð, þurfti að nema land upp á nýtt og engar upplýsingar lágu fyrir í þessu ráðuneyti þegar hann kom þangað, það hefur sennilega ekki verið til þar bók hvað þá annað. Hann veit sjálfsagt ekkert um þá sögu sem að baki liggur, þá miklu vinnu sem í það var lögð á sínum tíma að ná samkomulagi milli námsmannahreyfinganna í landinu og stjórnvalda um tilhögun þessara mála. Ég ætla þá að fræða hæstv. ráðh. ofurlítið um það, hugsanlega er ég ofurlítið fróðari en hann.

Eftir miklar og langvinnar viðræður þessara tveggja aðila, stjórnvalda og námsmannahreyfinganna, náðist um það samkomulag fyrir nokkrum árum síðan að herða verulega endurgreiðslureglur við Lánasjóðinn gegn því að stjórnvöld sæju sjóðnum fyrir 100% brúun umframfjárþarfar eins og það var kallað og má heita enn. Þ.e. stjórnvöld ábyrgðust þá í staðinn að þau sæju Lánasjóði ísl. námsmanna fyrir nógu fé til að standa fyllilega, 100%, hæstv. ráðherra, í sínu lögboðna hlutverki með námslán. Undir þetta gengust fulltrúar námsmanna á þeim tímum, að skrifa upp á samkomulag þar sem endurgreiðslureglurnar voru verulega hertar. Þetta mun skila sér í betri eiginfjárstöðu sjóðsins í framtíðinni, að vísu tekur það nokkurn tíma eðli málsins samkvæmt. Hér er því auðvitað verið að gera aðeins einn hlut, hæstv. menntmrh., það er verið að brjóta þetta samkomulag, koma aftan að námsmönnunum, vegna þess að þetta samkomulag er brotið með þessum aðgerðum. Sé það ekki að koma aftan að mönnum mörgum árum eftir að samkomulag er gert og eftir að námsmenn eru farnir að borga samkvæmt þessu nýja og herta endurgreiðslukerfi, þá veit ég ekki hvað er að koma aftan að mönnum. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að kynna sér hlutina betur áður en hann sest í dómarasætið og tekur þátt í því í ríkisstj. að skera niður fjárveitingar til Lánasjóðsins.

Það er auðvitað svo að Lánasjóður ísl. námsmanna er og verður alltaf að verulegu leyti félagslegur sjóður. Það liggur í hlutverki hans og það á ekki að gera kröfur um að hann beri sig. Það er alveg nauðsynlegt að þeir átti sig á því sérstaklega, hv. sjálfstæðismenn, að það samrýmist ekki hlutverki Lánasjóðsins að hann beri sig. Að ætla t.a.m. að yfirfæra þessa þjónustu yfir í bankakerfið, eins og maður hefur stundum heyrt úr þessum herbúðum., væri mjög óskynsamlegt, hæstv. ráðherra, og ég vona að það komi aldrei til þess að hæstv. núverandi menntmrh. gerist talsmaður þeirra hugmynda, vegna þess að Lánasjóður ísl. námsmanna er og á að vera og þarf að vera í eðli sínu félagslegur sjóður og hann á að tryggja jafnrétti allra þegnanna til náms. Það getur hann þá og því aðeins að hann sé það öflugur að mismunandi efnahagur námsmanna eða aðstandenda þeirra ráði engu um það hvort þeir geta stundað nám eða ekki.

Það er alveg ljóst að ef þessi mikli niðurskurður á að bitna að mestu leyti á útlánum á síðari hluta komandi árs þá verður hann svo harkalegur að nýir námsmenn munu í stórum stíl ekki geta hafið nám, svo að ekki sé minnst á þá tilhögun sem viðhöfð er nú á greiðslum lána til 1. árs nema.

Þetta mun einnig þýða að það verða ekki nema einstöku efnamenn sem komast til náms erlendis. Ef niðurskurðurinn verður látinn bitna hlutfallslega jafnþungt á þeim og á öðrum þá er þar um verulegar fjárhæðir að ræða. Það er ekki óvanalegt að yfirfærsla á hvoru misseri til námsmanna, sem stunda nú nám í Bandaríkjunum og greiða þar full skólagjöld, sé talsvert á annað hundrað þúsund krónur. Það vitum við sem erum umboðsmenn fyrir slíka aðila. Og ef 30-40% niðurskurður verður á slíkum fjárhæðum þá gefur auga leið að þar munar um.

Nei, ég held að hæstv. ráðh. ætti ekki að vera alveg svona dómharður fyrr en hann hefur þá einhverjar upplýsingar í höndunum og er búinn að fá þessi gögn, sem hann talaði um, í janúar. Ég held nefnilega að það hefði verið alveg skaðlaust að gera ráð fyrir því að sjóðurinn gæti átt aðgang að meiri fjármunum. Ef svo gleðilega vildi til að hann þyrfti þess ekki þá yrði það væntanlega ekki mikið vandamál fyrir hæstv. ríkisstjórn. Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að hún kæmi því í lóg ef Lánasjóður ísl. námsmanna þyrfti ekki allar þær lántökuheimildir sem honum væru ætlaðar. Ég held nefnilega, herra forseti, að undanfarin ár hafi fjárveitingabeiðnir sjóðsins staðist nokkuð vel, það er a.m.k. mín niðurstaða eftir að hafa skoðað þær nokkur undangengin ár. Reynslan hefur hins vegar verið sú að ef stjórnvöld hafa ætlað að stytta sér leið þá hefur það komið þeim í koll og þau hafa neyðst til þess að veita Lánasjóðnum aukafjárveitingar. Þetta hefur ítrekað gerst á undanförnum árum, einmitt vegna þess að áætlanir sjóðsins um útlán hafa ekki verið teknar trúanlegar og það hefur ekki verið gert ráð fyrir nægum fjárveitingum til þeirra.

Herra forseti. Ég ætlaði satt best að segja ekki að taka þátt í þessari umræðu en sit ekki þegjandi hér í þingsölum þegar hæstv. ráðh. koma hér í ræðustól og láta frá sér fara slík ummæli og slíkar einkunnir til aðila út í bæ án þess að skýra það þá eitthvað nánar. Þess vegna óska ég þess að hæstv. menntmrh. verði svo góður að koma hér upp og standa ofurlítið nánari skil á þessum ummælum.