24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Í dag var lagt fram í Nd. frv. til l. um kjaradóm í verkfallsdeilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf. Þetta frv. fjallar um það að Hæstiréttur tilnefni þrjá menn í kjaradóm sem á fyrir 1. des. á þessu ári að ákveða kaup og kjör þeirra félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands sem starfa nú hjá Flugleiðum hf. Hæstiréttur kveður á um hver hinna þriggja kjaradómsmanna skuli vera formaður dómsins. Kjaradómur setur sér starfsreglur, aflar sér nauðsynlegra gagna og er rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum, opinberum aðilum og fyrirsvarsmönnum Flugleiða hf. og Flugfreyjufélags Íslands hf. Kjaradómur á við ákvörðun kaups og kjara flugfreyja að hafa til viðmiðunar við úrskurð sinn síðastgildandi kjarasamning aðila, almennar kaup- og kjarabreytingar sem orðið hafa síðan hann tók gildi svo og breytingar á launum annarra starfsmanna Flugleiða hf. Ákvarðanir kjaradóms eru bindandi fyrir aðila frá gildistöku þessara laga. Verkfall það sem lög þessi taka til, svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir, sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimilar.

Meðan þessi lög eru í gildi er vinnuveitanda, Flugleiðum hf., óheimilt að segja félagsmönnum þeim sem lögin taka til upp starfi nema þeir uppfylli ekki lengur lágmarkskröfur sem gerðar eru til hæfni í starfi eða þeir hafi gerst sekir um brot í starfi.

Um aðrar greinar er eins og venja er í lagafrv. sem fjalla um þessi efni.

Síðasta greinin er um gildistöku þessara laga, en þau öðlast gildi þegar í stað og gilda til 30. des. 1985. Úrskurður kjaradóms skv. 1. gr. gildir til sama tíma nema nýir samningar hafi áður verið gerðir milli aðila. Eftir 15. des. er úrskurður kjaradóms uppsegjanlegur af hvorum aðila um sig með 15 daga fyrirvara miðað við mánaðamót. Eftir 31. des. n.k. gildir úrskurður kjaradóms meðan honum er ekki sagt upp eða nýr samningur gerður.

Forsaga þessa máls er sú að ekki hafa náðst samningar milli Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf. þrátt fyrir langvarandi samninga og fyrir átta dögum, eða níu dögum nú, boðaði Flugfreyjufélag Íslands verkfall á hendur Flugleiðum. Sáttasemjari, sem hefur haft með málið að gera, hefur ekki talið sér fært að leggja fram sáttatillögu þar sem hann hefur talið það vera gagnslaust með öllu því að svo mikið bar á milli.

Ég hef átt viðræður við báða deiluaðila og í viðræðum mínum við fulltrúa Flugfreyjufélags Íslands fór ég þess á leit s.l. föstudag að þær féllust á að fresta framkvæmd verkfallsins og jafnframt féllust á að skipuð yrði þriggja manna nefnd, einn aðili frá hvorum deiluaðila og þriðji aðili frá samgrn. Jafnframt bauð ég upp á það að við val á oddamanni yrði haft samráð við deiluaðila og sérstaklega við Flugfreyjufélag Íslands og með því yrði reynt að ná samkomulagi á þessum tíma. Síðast á mánudag ræddi ég aftur við bæði formann félagsins og formann samninganefndar og sá fundur var mjög gagnlegur. Við ræddum efnislega um málið, stöðu mála og vorum sammála um það sem fram hefur komið hjá ríkissáttasemjara og jafnframt að það væri ekki möguleiki á að ná samningum nú á skömmum tíma. Ég óskaði aftur eftir því að félagið tæki þessa beiðni til umfjöllunar og laust fyrir kl. 5 á mánudag var mér tilkynnt að þeirri beiðni hefði verið hafnað.

Ég leyfi mér að halda því fram að það hefði verið mjög æskilegt og líka skynsamlegt frá hendi launþegafélagsins að gera þessa tilraun því að með því voru þær með frjálsum samningum að reyna aðra leið án þess að taka neitt til baka í sínum kröfum og voru á engan hátt skuldbundnar til að fara eftir því sem hinir tveir í nefndinni hefðu ákveðið þó að þeir hefðu náð saman sín á milli.

Ég taldi útilokað annað en að bera fram þetta frv. vegna þess að við erum svo háðir flugi. Við erum eyland sem verður að halda uppi samgöngum við aðrar þjóðir. Þó að það sé ekki verkfall núna hjá Arnarflugi standa þeir í samningum. En stærsti hlutinn af flugi á milli Íslands og annarra landa liggur nú niðri af þessum orsökum og nú, svo síðla hausts sem raun ber vitni, geta teppst samgöngur á landi við a.m.k. þrjá landshluta þannig að farþegaflutningar verða þá ekki nema flugleiðis og Flugleiðir eru eins og allir vita veigamikill þáttur í þeim samgöngum. Það er því vá fyrir dyrum.

Ég harma það af bæði umræðum í hv. Nd. og sömuleiðis hér í umræðum um þingsköp þegar verið er að tala um þetta sem einhverja árás á konur. Þetta er alveg laust við það. Þetta er hvorki árás á einn eða annan. Hér er um að ræða að skipa kjaradóm eins og fjölmargir aðrir launþegar í þjóðfélaginu eru háðir. Ég tók það greinilega fram við fulltrúa Flugfreyjufélagsins að mér þætti það mjög miður ef það þyrfti að grípa til lagasetningar, ekki af því að ég væri að hóta lagasetningu, síður en svo eins og fram hefur komið í blöðum, heldur að mér þætti það miður því að það væri alltaf neyðarúrræði. En við höfum skyldur, stjórnvöld og Alþingi, við þjóðina, við þá sem þurfa að ferðast, og það eru líka til margar konur sem bíða núna eftir fari, bæði frá landinu til útlanda og heim og sömuleiðis úti á landi bæði hingað til höfuðborgarsvæðisins og til baka, og það kemur illa við margan manninn. Það kemur líka illa við þennan atvinnurekstur ef hann liggur niðri. Hann verður ekki færari um kauphækkanir til sinna starfsmanna eftir því sem þessar vélar liggja lengur ónotaðar. Hann á einnig að standa í harðri samkeppni við margra tuga eða hundraða sterkari aðila á þeim markaði sem flugfélögin keppa að.

Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að hafa þessi orð miklu fleiri, en ég harma mjög að þessir hv. þm. skuli hlaupa frá þessum vanda. Það hefði verið hægt að afgreiða þetta mál fyrr í dag. Einn hv. þm., 3. þm. Norðurl. v., sagði að ríkisstj. hefði verið sein með málið. Henni voru veittar þungar ásakanir í Nd. fyrir að hún hefði verið of fljót, gripið of fljótt inn í málið. Þannig er vandratað meðalhófið í þessu máli sem og mörgum öðrum. Og það hefði kannske mátt hafa a.m.k. eina ræðu allmiklu styttri í Nd. því að hún var aðallega upplestur úr bókum. Hins vegar er ekkert athugavert við það að þm. almennt ræði þessi mál. En ég sé ekki að nefnd þurfi að fá einhverja útreikninga í sambandi við það því að þetta frv. fjallar á engan hátt um kjaramál. Það á að vera kjaradóms, sem Hæstiréttur skipar, að afla þeirra gagna allra eins og ég veit að hv. þm. sjá.

Mér fannst mjög skynsamleg afstaða sem kom fram hjá bæði formanni Alþfl. í Nd. og sömuleiðis nefndarmanni þess flokks í samgn. Þeir lýstu því báðir yfir að þeir teldu að hér yrði auðvitað að hafa hliðsjón af heildarlaunastefnu því að allir samningar eru lausir um áramót. En það breytir ekki þeirri staðreynd að þessi kjaradómur kemur til með að fjalla um kjarasamninga Flugfreyjufélagsins strax eftir að Alþingi hefur samþykkt lög og Hæstiréttur hefur skipað þennan dóm og ég vona að vel takist til og þessi dómur finni skynsamlega og sanngjarna lausn í launa- og kjaramálum þessa félags sem maður vonar að verði einnig fyrir aðra launþega í þessu landi.

Virðulegi forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.