19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

198. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég hef áheyrnaraðild að hv. fjh.- og viðskn. og vil lýsa skoðun minni á þessu frv. þar sem ég stend ekki að neinu nál. Í athugasemdum við lagafrv. segir, með leyfi forseta:

„Milliþinganefnd um húsnæðismál, sem falið var að kanna greiðsluvanda íbúðareigenda, skilaði áliti sínu hinn 7. desember s.l. Í niðurstöðum nefndarinnar er lögð áhersla á að gerðar verði ýmsar lagfæringar á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt er lúta að vaxtafrádrætti vegna lána til öflunar eigin íbúðarhúsnæðis.“ Síðan eru till. nefndarinnar í þessum efnum raktar og mun ég ekki lesa þær en vísa til athugasemdanna.

Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að koma til móts við þessar till. að svo miklu leyti sem hún sér sér fært. En ég vil undirstrika að það er alveg ljóst að í milliþinganefndinni fór þegar fram málamiðlun og töldu fulltrúar Kvennalista, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags að till. væru í rétta átt en gengju ekki nógu langt. Síðan hefur orðið enn frekari málamiðlun þegar frv. þetta er lagt fram.

Fyrsta grein frv. er til bóta og er í samræmi við till. milliþinganefndarinnar. Önnur grein frv. er sömuleiðis til bóta og auðvitað er hún réttlætismál en í raun óverulegt hagræði. Þriðja greinin kemur ekki því fólki, sem nú er í vanda vegna húsbygginga eða íbúðarkaupa, beint til góða og ég tel vafasamt að lækka skattfrelsismörk þannig að þau nái til verulega lítilla eigna, jafnvel þó að verið sé að binda skattfrelsismörk eignarskatts við raunvirði fasteigna. Fyrirvari minn gagnvart þessu frv. byggist fyrst og fremst á því að mér finnst það ekki nógu myndarlegt en þó miðar það í rétta átt og því mun ég greiða því atkvæði mitt.