19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Frsm. 3. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 396 hef ég skilað svofelldu nál. sem 3. minni hl. fjh.- og viðskn.:

„Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi þorir ekki að fallast á opna rannsókn Hafskipsmálsins. Hann hefur að vísu neyðst til að koma til móts við stjórnarandstöðuna og almenning í landinu með nokkrum lagfæringum í efri deild. Þar er hins vegar of skammt gengið og því flytur undirritaður brtt. á sérstöku þskj."

brtt. sem ég flyt er á þskj. 397 og er á þessa leið: „Á eftir 4. gr. komi ný grein svohljóðandi: Sameinað Alþingi kýs sex alþm. samkvæmt tilnefningu þingflokka til að fylgjast með rannsókn þessari. Hafa þeir rétt til að hlýða á yfirheyrslur og kynna sér gögn málsins.“

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Halldórsdóttir hafa flutt brtt. á þskj. 398 sem er nokkurn veginn samhljóða þeirri brtt. sem ég er með, en þó með því fráviki að í þeirra tillögu er ekki gert ráð fyrir því að þeir alþm., sem kosnir yrðu samkvæmt tilnefningu þingflokka, fylgist með rannsókn þessari og hlýði á yfirheyrslur, eins og gert er ráð fyrir í minni tillögu. Fari svo, mót vonum mínum, að tillaga mín yrði felld, þá mun ég styðja tillöguna á þskj. 398.