19.12.1985
Neðri deild: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Frsm. 2. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég harma mjög að hv. þm. Páll Pétursson skyldi taka hér til máls.

Nú hefur verið talsvert reynt að koma hér á fót rannsóknarnefndum við þetta þing og það er raunar rannsóknarefni hvers vegna það hefur gengið svo báglega sem raun ber vitni. En ég hugði þó gott til glóðarinnar vegna þess að ég hugsaði með sjálfum mér: Það eru starfandi rannsóknarnefndir í þinginu og það getur þó enginn lagt þær af. Það eru fastanefndir þingsins. Þær eru hinar föstu rannsóknarnefndir þingsins.

Ég hugsaði með mér þegar ég gekk hnípinn úr ræðustóli áðan að ég væri þó fjh.- og viðsknm. í Nd. og þar á ofan einn af embættismönnum hv. nefndar. Ég var fyrsti embættismaður nefndarinnar sem náðist samstaða um þegar hún var kosin í haust. Ég var kosinn ritari nefndarinnar og ég er hreykinn af því að starfa þar undir stjórn hv. þm. Páls Péturssonar. Ég hugsaði sem svo: Fjh.- og viðskn. beitir sér náttúrlega í málinu undir öruggri stjórn Páls Péturssonar.

Síðan gengur forustumaður þessarar föstu rannsóknarnefndar þingsins, sem enginn getur þó lagt af - ég ætla að vona að það verði ekki gengið svo langt - í stól á hæla mér og lýsir því yfir að hann telji þessa hv. nefnd ekki eiga neitt erindi í þetta mál fyrr en einhvern tíma þegar búið er að loka öllum bókum. Þetta þykja mér vondar fréttir og þess vegna endurtek ég það, herra forseti, að ég harma að hv. þm. Páll Pétursson skuli hafa talið sig eiga þetta erindi í stólinn vegna þess að jólahátíðin hefði orðið öllu betri hjá okkur ef við hefðum þó getað lifað í þeirri von að kannske blakti þó svo á skarinu þar að þessar fastanefndir þingsins, þessar föstu rannsóknarnefndir þingsins, gætu þó kannske unnið eitthvað af þeim verkum sem menn hafa hér staðfastlega komið í veg fyrir að sérstakar rannsóknarnefndir yrðu settar upp til að vinna.