20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

Um þingsköp

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Á borðum þm. liggur svar frá forsrh. við fsp. minni um bifreiðamál ráðherra. Ég tel mig knúna, herra forseti, til að gera athugasemd við það að 2. tölul. fsp. er ekki svarað, en þar var óskað samanburðar á áhrifum fyrri og núgildandi reglna um bifreiðafríðindi ráðherra.

Í svarinu kemur fram að felld hafi verið niður gjöld af sjö bifreiðum ráðherra frá árinu 1983. Því verður ekki trúað að ekki hafi verið hægt að reikna út hve háar fjárhæðir ráðherrar hefðu fengið vegna þessara sjö bifreiða hefði ný regla um 20% fyrningarfé á ári verið í gildi s.l. tvö ár – eða er staðreyndin sú að fjmrh. eða forsrh. hafi enn ekki gert sér grein fyrir áhrifum nýrra reglna um bifreiðafríðindi ráðherra samanborið við eldri reglur?

Um leið og ég vek athygli á því að þetta er í annað sinn í sömu viku sem athugasemd þarf að gera við ófullnægjandi svör ráðherra óska ég eftir því að hæstv. forseti ræði þetta mál við hæstv. forsrh. þannig að svarað verði á Alþingi 2. tölul. fsp. sem ég hef fram borið. Hér er um einfaldan útreikning að ræða sem ég tel að hæstv. forsrh. geti beitt sér fyrir að liggi fyrir þegar á morgun.