20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

200. mál, samkomulag um loðnuveiðar Norðmanna

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um staðfestingu samkomulags um loðnuveiðar Norðmanna sem hv. utanrmn. flytur. Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að staðfesta fyrir Íslands hönd samkomulag milli Íslands og Noregs um loðnuveiðar norskra veiðiskipa innan íslenskrar lögsögu á árinu 1986. Samkomulagið er prentað hér sem fylgiskjal.“

Till. fylgir grg., sem ég held að skýri málavexti nokkurn veginn nægilega, auk fylgiskjala sem prentuð eru með. En þess skal aðeins getið að mál þetta hefur verið ítarlega rætt á þrem fundum í hv. utanrmn. sem komist hefur að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að rétt sé að leggja til við Alþingi að þáltill. verði samþykkt. Það verður væntanlega gert í dag og þá að sjálfsögðu án þess að henni verði vísað til nefndar.

Framan af var nokkuð á reiki í hve miklum mæli Norðmenn mundu nota sér þessar heimildir, en nú hefur verið upplýst að 30-50 norsk skip muni koma á mið hér við land og heildarveiðin væntanlega verða á bilinu 25-40 þús. tonn. Er það sameiginlegt mat nefndarinnar, utanrrn. og ég hygg útvegsmanna að þessar veiðar beri að heimila.

Auðvitað er það mjög viðkvæmt mál í augum allra Íslendinga að heimila erlendum mönnum veiðar í okkar sérefnahagslögsögu. En þetta mál hefur sérstöðu, eins og rakið er í grg., þar sem samningar eru milli Norðmanna og Íslendinga um skiptingu heildarmagns veiða úr loðnustofninum eins og kunnugt er.

Einnig ber að hafa í huga að samskipti Íslendinga og Norðmanna á sviði fiskveiða munu mjög aukast í náinni framtíð því að þjóðirnar hafa sameiginlegra fiskveiðiréttinda að gæta á gífurlega víðáttumiklu hafsvæði 200 mílur umhverfis Jan Mayen sem einungis skerðast af miðlínum milli landa og 200 mílna efnahagslögsögu okkar. Þessi sameiginlegu og samningsbundnu fiskveiðiréttindi þjóðanna munu þær nýta til jafns að því er aðra stofna varðar en loðnuna og vissulega er tímabært að Íslendingar fari að huga að fiskileit og frekari fiskveiðum á Jan Mayen-svæðinu.

Allt er mál þetta þó mjög flókið og vandmeðfarið þar sem enn hafa ekki náðst samningar við Grænlendinga um hlutdeild þeirra í loðnustofninum og fyrirkomulag veiða og Færeyingar hafa í heimildarleysi farið inn á hagsmunasvæði okkar til loðnuveiða.

Í fyrrasumar brugðust Íslendingar mjög hart við þessari ásælni þeirra, sýndu flaggið, eins og það er kallað á lagamáli, og sendu ítrekaðar og skorinorðar mótmælaorðsendingar til Dana, Færeyinga og Norðmanna sem hlífðust við að verja hina sameiginlegu fiskveiðilandhelgi.

Ljóst er að við hljótum að eiga náin samskipti við nágrannaþjóðir okkar allt frá Jan Mayen-svæðinu suður á Hatton-Roekall-hásléttu. Samningarnir við Noreg um sameiginleg fiskveiðiréttindi á Jan Mayen-svæðinu eru geysiþýðingarmiklir og á framkvæmd þeirra veltur hvernig málum verður háttað um alla framtíð. Sú framkvæmd þarf auðvitað að vera vinsamleg. M.a. þess vegna hefur utanrmn. lagt til að heimila þær veiðar sem hér um ræðir, enda beggja hagsmunir.

Á sama hátt er mikilvægt að nám og vinsamleg samskipti náist með Grænlendingum og Færeyingum og að því stuðlar einmitt sú þál. um vestnorræna ráðið sem hér var einróma samþykkt í gær.

Þess er einnig að gæta að náin samvinna hefur tekist með Færeyingum og Dönum fyrir þeirra hönd varðandi Hatton-Rockall-hásléttuna þar sem Íslendingar og Danir eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta um hafsbotnsréttindi langt suður í höf. Vonir standa til að það mál verði til lykta leitt áður en langt um líður, væntanlega á næsta ári. Þá er einnig fyrirhuguð sameiginleg rannsókn Dana og Íslendinga á svæðinu samkvæmt tillögum sem sérfræðingur okkar í hafsbotnsmálum dr. Talwani hefur gert. Að öllu samanlögðu vænti ég þess að Alþingi sameinist um samþykkt þessarar þáltill.