20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

1. mál, fjárlög 1986

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Áður en ég kem að meginefni máls míns vil ég geta þess sem gerðist fyrir nokkrum mínútum. Ég fékk þá upphringingu sem gerir það að verkum að ég kemst ekki hjá því að taka mál fyrir í þessum ræðustól sem ég hefði ekki gert annars.

Öfugt við ýmis byggðarlög, sem starfrækt hafa um nokkurt skeið gagnfræðaskóla og barnaskóla í einni stofnun, grunnskóla, hafa Ísfirðingar á umliðnum árum rekið þessar skólastofnanir aðgreindar, annars vegar sem gagnfræðaskóla og hins vegar sem grunnskóla. Það hafa þráfaldlega komið fram frá hæstv. menntmrn. óskir um að þeir Ísfirðingar hyrfu frá þessari stefnu sinni en færu þá leiðina í staðinn að sameina þessar tvær skólastofnanir í einn grunnskóla. Sérstök nefnd til þess að endurskoða þessi mál var sett á laggirnar af hálfu bæjarstjórnar Ísafjarðar fyrir nokkrum mánuðum og starfaði hún að þessum málum í samráði við menntmrn. Samkvæmt sérstakri ósk menntmrn. var fallist á að framkvæma þessa sameiningu skólanna og láta hana koma til strax á þessu hausti. Til þess að það yrði hægt þurfti að leggja í framkvæmdir þá þegar, m.a. við breytingu innréttinga, sameiningu kennslustofa í eina og aðrar byggingarframkvæmdir sem Ísfirðingar hófust þegar handa um og eru búnir að framkvæma fyrir á fjórðu milljón kr. Það vakti hins vegar athygli mína þegar við hófum störf í fjvn. í haust að engin tillaga barst frá hæstv. menntmrn. um framlag til þessara framkvæmda og hafði þó menntmrn. gert tillögur um framkvæmdir langt umfram það sem framkvæmdafé nam í fjárlögum. Tilraunir til þess að fá málið tekið upp innan fjvn. báru ekki árangur, m.a. vegna þess hversu erfitt er að taka upp tillögur sem menntmrn. hefur sjálit ekki gert.

Núna fyrir nokkrum mínútum hringdi einn af starfsmönnum menntmrn. í mig sem starfað hefur að þessu máli með þeim Ísfirðingum. Það var Sigurður Helgason. Hann hafði þá nýlega fengið skeyti frá bæjarstjórn Ísafjarðar þar sem hann var spurður hvernig á því stæði að menntmrn. stæði ekki við samninga sem það hefði gert og samkomulag sem það hefði gert. Sigurður sagði mér að hann ætti ekki orð til yfir það að ráðuneytið hefði hvorki gert tillögur um framlög á þessu ári né næsta ári til þessa verkefnis. Hann tjáði mér að hann væri reiðubúinn til að staðfesta eftirfarandi og ég mætti hafa það eftir sér og hann mun koma í Alþingishúsið innan skamms til þess að staðfesta það við mig sjálfur og væntanlega hæstv. ráðh. líka:

1. Það var ráðist í þessa framkvæmd að fyrirlagi menntmrn. og samkvæmt þess.

2. Menntmrn. hét Ísfirðingum því að helmingur framkvæmdakostnaðar sem lagt yrði í á þessu ári yrði greiddur og lofaðist til þess að gera tillögu um aukafjárveitingu í því skyni.

3. Menntmrn. hét Ísfirðingum því að sjá til þess að tillaga yrði gerð og afgreiðsla fengin á fjárveitingum fyrir næsta ár, árið 1986, til grunnskólans á Ísafirði svo að halda mætti áfram þeim framkvæmdum sem hafnar eru af bæjaryfirvöldum og greiddar hafa verið úr bæjarsjóði að beiðni menntmrn.

Sigurður Helgason tók fram að hann væri reiðubúinn til að staðfesta þessar upplýsingar hvar og hvenær sem er.

Ráðuneytið hefur hins vegar ekkert af þessu gert. Það hefur ekki gert neinar tillögur um aukafjárveitingar til grunnskólans á Ísafirði vegna framkvæmda á þessu ári og það gerði ekki heldur neinar tillögur um fjárveitingar til framkvæmda við skólann á næsta ári.

Herra forseti. Ég geri mér það alveg fyllilega ljóst að úr þessu verður málið ekki tekið upp innan fjvn. sem hefur lokið sínu starfi. En ég vil eindregið óska þess við hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. að þeir taki nú málið til skoðunar og kanni hvort það sé ekki rétt sem Sigurður Helgason hefur staðfest við mig. Sé það rétt er það að sjálfsögðu skylda hæstv. ráðh. að sjá til þess að það sé staðið við fyrirheit og samkomulag sem gert hefur verið við bæjarstjórn Ísafjarðar í þessu máli.

Ég hef jafnframt, herra forseti, óskað eftir því við 1. þm. Vestf. að hann beiti sér fyrir því að þegar eftir jólin verði boðaður fundur með bæjarstjórn Ísafjarðar og menntmrn. til þess að greiða úr þessum málum.

Í ítreka það, herra forseti, að undir eðlilegum kringumstæðum hefði svona mál ekki átt erindi í þessa umræðu, en vegna málsatvika sá ég mér ekki annað fært en taka málið upp á þessum vettvangi og skora á hæstv. ráðh. að leysa úr þessu máli.

Herra forseti. Fyrir afgreiðslu fjárlagafrv. nú liggur eftirfarandi fyrir:

Í fyrsta lagi: Halli á rekstri ríkissjóðs á árinu 1985 mun nema eigi lægri fjárhæð en 2,3 milljörðum kr. samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar. Engar ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu ríkisstj. til að mæta þessum halla, hvorki með sparnaði né með tekjuöflun. Hallinn mun því koma fram í aukningu erlendra skulda á þessu ári. Það er til vitnis um búskap hæstv. ríkisstj. að í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir útgjöldum til greiðslu vaxta né afborgana nema af hluta þeirrar skuldar sem eftir stendur af árinu 1985 hjá ríkissjóði.

Í öðru lagi: Til viðbótar við hallarekstur ríkissjóðs sjálfs kemur hallarekstur opinberra sjóða, fyrirtækja og stofnana. Samtals nemur hallareksturinn í opinberum búskap á árinu 1985 um það bil 8 milljörðum kr. Allur þessi hallarekstur er fjármagnaður með erlendum lánum.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu í fjármálastjórn hins opinbera á árinu 1985 stendur nú til hefðbundin fjárlagaafgreiðsla sem byggð er í senn á sjálfsblekkingu, óraunsæi og óbreyttri óstjórnarstefnu í fjármálum ríkisins. Áformuð er aukin erlend lántaka ríkissjóðs á næsta ári frá lánsfjárlögum 1985. Horfið er frá samþykktri stefnumörkun Alþingis um 2. áfanga tekjuskattslækkunar á árinu 1986. Gefist er upp við áform um einföldun tollakerfis og lækkun tolla. Gefist hefur verið upp við að tiltaka sparnað að fjárhæð 250 millj. kr., sem fjmrh. boðaði við 2. umr., en reynt að leyna uppgjöfinni með þeirri einföldu aðferð að áætla launa- og reksturskostnað lægri, en áform sjálfrar ríkisstj. um laun og rekstrargjöld ættu að hækka þessa liði í samræmi við verðlagsspá hennar sem öllum er þó ljóst að er gróflega vanáætluð og víðs fjarri veruleikanum. Nýir neysluskattar eru auk þess á lagðir í dulargervi, t.d. skattar, sem eiga að renna í ríkissjóð, á notendur Pósts og síma að fjárhæð 188 millj. kr. Er það í fyrsta sinn sem notendur Pósts og síma greiða með notendagjöldum sínum ekki bara greiðslur til stofnunarinnar heldur beina skatta í ríkissjóð. Þar að auki eru svo samþykktar framkvæmdir og fjármunatilfærslur án þess að ráð sé gert fyrir tekjum til þeirra. T.d. hefur ríkisstj. fallist á framkvæmdaáform hjá Pósti og síma sem munu krefjast um það bil tvöfalt meiri hækkunar á afnotagjöldum Pósts og síma en vitað er að ríkisstj. hefur þegar fallist á og skilur hún það mál eftir alveg óafgreitt.

Að öllu samanlögðu stendur því til við þessar aðstæður að afgreiða hefðbundin fjárlög sem við afgreiðsluna fela í sér ekki minna en 800-1000 millj. kr. halla á rekstri ríkissjóðs, en í rauninni mun hallinn á árinu 1986 verða eigi minni en hann var og er á árinu 1985 og aukning erlendra skulda vaxa að sama skapi. Þetta er ekki aðeins niðurstaða mín. Það er niðurstaða Morgunblaðsins, málgagns hæstv. ríkisstj., sem komst að þessari sömu niðurstöðu og birti hana fyrir nokkrum dögum, að miðað við óbreytta afgreiðslu fjárlaga eins og nú á að fara fram mundi halli á ríkissjóði á næsta ári verða meiri en hann varð í ár og erlend skuldasöfnun verða meiri en hún hefur orðið á þessu ári.

Hitt er einnig mjög alvarlegt að öllum þessum fjármunum að viðbættum nær öllum tekjum ríkissjóðs er því sem næst einvörðungu varið í rekstur ríkisins sjálfs og stofnana þess en ekki til arðvænlegra framkvæmda því hlutur ríkisins í framkvæmdum í landinu er því sem næst enginn orðinn. Allir þessir fjármunir fara í að halda kerfinu sjálfu gangandi. Ríkissjóður er orðinn eins og mjólkurkýr sem ekki mjólkar lengur. Hvað eina sem ríkissjóði er aflað fer til þess að halda ríkinu og stofnunum þess, kerfinu sjálfu, gangandi.

Þegar þessar horfur voru ljósar taldi þingflokkur Alþfl. það vera algert ábyrgðarleysi að afgreiða fjárlög með hefðbundnum hætti. Ásamt öðrum stjórnarandstæðingum stóðum við því að þeirri tillögu við 2. umr. fjárlaga að fjárlagaafgreiðslunni yrði frestað og fjárlagagerðin tekin til endurskoðunar frá grunni, m.a. með það fyrir augum að gerðar yrðu kerfisbreytingar á ríkisbúskapnum. Til þess að slíkt yrði framkvæmanlegt bauðst Alþfl. til þess að sýna ríkisstj. og fjmrh. það traust að afgreiða á Alþingi þær greiðsluheimildir sem ríkisstj. og fjmrh. teldu nauðsynlegar og einnig bauðst flokkurinn til þess að eiga hlut að endurskoðun fjárlaganna og leggja m.a. fram í því sambandi tillögur sínar og hugmyndir um styrkingu fjárlagagerðarinnar og kerfisbreytingar í ríkisbúskapnum. Þessar tillögur Alþfl. og annarra stjórnarandstæðinga voru felldar við 2. umr. fjárlaga og boðinu um samstarf um grundvallarendurskoðun fjárlagagerðarinnar þar með hafnað.

Í samræmi við afstöðu sína um nauðsyn þess að flokkar Alþingis breyti um viðhorf og taki upp ábyrga stefnu við fjárlagagerð, bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar, telur þingflokkur Alþfl. því rétt að kynna nú við 3. umr. fjárlaga þær breytingar sem hann hefði sérstaklega lagt áherslu á að skoðaðar yrðu ef sú leið hefði verið valin, sem hann lagði til, að fjárlagagerðin yrði endurskoðuð frá grunni.

Þessar tillögur Alþfl. eru hvorki tæmandi tillögur né endanlegar, enda unnar við erfiðar aðstæður og á skömmum tíma, en þær eru hugsaðar sem vísbending frá þingflokki Alþfl. um í hvaða átt hann vill stefna varðandi stjórn opinberra fjármála á Íslandi og hvers konar breytingar hann telur nauðsynlegt að gera við framkvæmd breyttrar stefnu í efnahagsmálum.

Meginmarkmið þeirra brtt., sem þingflokkur Alþfl. flytur á þskj. 377, eru eftirfarandi:

1. að treysta fjárlagagerðina m.a. með því að við fjárlagaafgreiðslu sé áætlað fyrir umtalsverðum rekstrarafgangi hjá ríkissjóði sem geti þá a.m.k. mætt óvæntum áföllum eða ófyrirséðum útgjöldum á komandi ári;

2. að draga mjög verulega úr lánsfjárþörf ríkissjóðs og ríkisstofnana og þar með úr þörf fyrir lántökur erlendis;

3. að taka til endurmats ýmis grundvallaratriði í ríkisbúskap og ríkisrekstri, m.a. í þeim tilgangi að atvinnuvegir landsmanna fái eðlilegt svigrúm og frjálsræði til rannsóknarstarfsemi í sína þágu, en taki þá um leið við aukinni ábyrgð bæði stjórnunarlegri og fjárhagslegri, og

4. að ríkisvaldið geti á ný tekið eðlilegan þátt í framkvæmdum og arðvænlegri uppbyggingu í landinu í stað þess að meginþorra þeirra fjármuna sem til ríkisins ganga sé varið í það eitt að halda kerfinu gangandi.

Þessum markmiðum vill Alþfl. m.a. ná með samræmdum aðgerðum á sviði opinberrar fjármálastjórnar og því hefur þingflokkur Alþfl. nú flutt samræmdar brtt. við fjárlög og lánsfjárlög. Þessar brtt. varða:

I Lántökuáform ríkissjóðs og opinberra aðila.

II. Tekjuöflun ríkissjóðs.

III Útgjaldaáform ríkissjóðs.

IV. Kerfisbreytingar í ríkisrekstri.

V. Olnbogarými til athafna, það svigrúm sem þessar breytingar skapa til þess að ríkið geti á ný gerst virkur þátttakandi í þjóðlífinu með framlögum til framkvæmda og félagslegra athafna.

Á öðrum vettvangi, þ.e. við 2. umr. um lánsfjárlög í Nd. Alþingis, hefur verið gerð grein fyrir brtt. Alþfl. við lánsfjárlög sem hafa að markmiði að draga mjög verulega úr lántökum opinberra aðila, einkum lántökum þeirra erlendis.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir meginatriðum í tillögum Alþfl. um breytingar á fjárlógunum sjálfum, þ.e. á ríkisrekstrinum í þrengri merkingu.

I. Um lántökuáform ríkissjóðs og ríkisstofnana. Í brtt. Alþfl. er gert ráð fyrir eftirfarandi breytingum frá áformum fjmrh. í lántökum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja:

1. Lántökuáform ríkisfyrirtækja eru lækkuð um 350 millj. kr. og þeim lántökum breytt í ríkisframlög. Útvegað er fjármagn til þeirra auknu framlaga.

2. Heildarlántökuþörf ríkissjóðs er lækkuð og þar með er erlend lántaka hans lækkuð um 1674 millj. eða meira en helming þess sem ríkisstj. ráðgerir að erlend lántaka nemi á næsta ári.

II. Tekjuöflun ríkissjóðs.

1. Til þess að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs er rekstrarafgangur hans aukinn úr um það bil 190 millj. kr. samkvæmt frv. fjmrh. í um 1200 millj. kr. eða samtals um rösklega 1 milljarð kr.

2. Í tillögum Alþfl. er gert ráð fyrir því að staðið sé við stefnumörkun Alþingis um afnám tekjuskatts af launatekjum og tekjuskattur lækkaður um 740 millj. kr. umfram áform ríkisstj.

3. Alþfl. vill að staðið sé við fyrri áform um einföldun á tollafrumskóginum, sem leiða mun til lækkunar tolla um 340 millj. kr., og flytur tillögu um það.

4. Alþfl. vill ekki að það tekjutap sé bætt með breytingum á vörugjaldi sem leiða mun til mikilla innbyrðis verðbreytinga, um allt að þriðja tug prósenta, á ýmsum neysluvörum, svo sem brauðvörum. Því flytur flokkurinn tillögu um lækkun á vörugjaldi frá áformum í fjárlögum um á fjórða hundrað milljóna kr.

5. Alþfl. vill skattleggja þá stórfelldu eignasöfnun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum í skjóli skattlauss verðbólgugróða og flytur því tillögu um stighækkun eignarskatts sem mun lækka eignarskatt einstaklinga um rúmlega 80 millj. kr. frá áformum fjmrh. en auka eignarskatt félaga um 577 millj. kr. frá tillögum hans.

6. Alþfl. vill að söluskatturinn sé þannig framkvæmdur að unnt sé að hafa eftirlit með því að honum sé skilað til ríkissjóðs, sem ekki er nú, og flytur því tillögur um fækkun undanþága sem auka mundu tekjur ríkissjóðs af söluskattinum um a.m.k. 5 millj. kr. Fyrir liggja upplýsingar um að ef allar undanþágur frá söluskatti væru felldar niður mundi söluskatturinn skila tvöfalt meiri tekjum en hann skilar eins og hann er framkvæmdur í dag. Við gerum ekki tillögu um að allar undanþágur verði felldar niður frá söluskattinum, en við gerum tillögu um að þeim verði mjög verulega fækkað þannig að almenn viðskiptavelta sé öll söluskattsskyld. Þetta mun gefa ríkissjóði í tekjur um 5 milljarða kr. Þetta svigrúm viljum við nota til þess að lækka söluskattsprósentuna úr 25% í 20% og fer þá um helmingurinn af þeim tekjuauka sem ég var að ræða um hér áðan. Til þess að vega upp á móti áhrifum söluskattshækkunarinnar leggjum við svo til að bætur lífeyristrygginga, svo sem mæðralaun, ekkjubætur, barnalífeyrir, tekjutrygging o.s.frv., verði hækkaðar um 20% sem ásamt með öðrum nýmælum í tillögum flokksins í lífeyristryggingamálum munu auka greiðslur til aldraðra, öryrkja, barnmargra fjölskyldna og lágtekjufólks um 1,9 milljarða kr.

7. Alþfl. vill einföldun skattakerfisins og flytur því tillögur um skattahreinsun, þ.e. um afnám alls konar smáskatta sem flækja skattakerfið og eru auk þess í mörgum tilvikum óréttlátir, dýrir og erfiðir í innheimtu. Samtala þeirra skatta, sem flokkurinn leggur til að hreinsaðir verði út úr fjárlögum með þessum hætti, er á sjöunda tug milljóna kr.

III. Þá komum við að útgjaldaáformum ríkissjóðs, en tillögur Alþfl. um sparnað og niðurskurð í ríkisrekstri miðast ekki eins og tillögur ríkisstj. við ótiltekin áform um samdrátt eða sparnað heldur flytur flokkurinn ákveðnar og afmarkaðar tillögur. Meðal þeirra eru:

1. Niðurfelling heimildar til fjmrh. um að verja allt að 70 millj. kr. til hlutafjárkaupa og stofnfjárframlaga til ótiltekinna aðila.

2. Tilflutningur verkefna frá ríkinu til aðila í atvinnulífinu, svo sem með því að leggja niður ríkisstofnanir sem fást við viðfangsefni sem eðlilegt er að atvinnulífið sjái sjálft um. Meðal slíkra stofnana, sem tillaga er gerð um að niður séu lagðar, eru húsameistari ríkisins, tilraunabú og tilraunastöðvar, fóður- og graskögglaverksmiðjur, Bifreiðaeftirlit ríkisins, ríkisrekið mat á sjávarafurðum og landbúnaðarafurðum, laxeldisstöð í Kollafirði.

3. Þá flytjum við tillögur um niðurskurð framlaga til óarðbærra framkvæmda og athafna, svo sem til útflutningsbóta, til fjárfestinga í hefðbundnum landbúnaði og til gæluverkefna pólitískra stjórnvalda sem hvorki auka efni né bæta lífskjör þjóðarinnar.

IV. flokkur okkar tillagna fjallar um kerfisbreytingar þær sem gera verður í rekstri hins opinbera ef menn ætla að ná einhverjum varanlegum árangri.

Í fyrsta lagi leggjum við þar til að Kennaraháskóli Íslands verði sameinaður Háskóla Íslands þannig að aðeins verði um að ræða einn Háskóla Íslendinga en ekki tvær háskólastofnanir með tvöfaldri yfirstjórn og tvöföldum stjórnunarkostnaði.

Í öðru lagi leggjum við Alþýðuflokksmenn til að allar þær rannsóknarstofnanir, sem fást við hagnýt rannsóknarverkefni, verði gerðar að sjálfseignarstofnunum með sjálfstæð og sjálfstæði, m.a. um verkefnaval. Í tillögum okkar er gert ráð fyrir því að ríkisvaldið greiði tiltekinn grunnkostnað við starfsemi þessara stofnana sem að öðru leyti kosti starfsemi sína sjálfar, enda ráði þær þá í samráði við atvinnulífið hvaða hagnýt rannsóknarefni eru tekin til meðferðar og atvinnulífið greiði kostnaðinn við slíkar rannsóknir að undanteknum þeim grunnkostnaði sem ríkið greiðir. Um leið gerum við tillögur um að ríkið tvöfaldi framlög sín í rannsóknarsjóð, en þangað geta þessar stofnanir eins og aðrir aðilar sótt um fjárveitingar til einstakra rannsóknarverkefna.

Þriðji þáttur í tillögum okkar um kerfisbreytingar er að Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands, þ.e. gömlu atvinnumálaráðuneytin, sem gegna tvöföldu hlutverki, annars vegar opinberir gagnasöfnunaraðilar, hins vegar þjónustuaðilar í þágu hagsmunasamtaka, verði lögð niður sem ríkisstofnanir, en viðkomandi atvinnuvegir yfirtaki rekstur þeirra og stjórn. Opinber gagnasöfnunarverkefni þessara stofnana, svo sem skýrslugerðir og upplýsingasöfnun, verði hins vegar færð yfir til Hagstofu Íslands og gerum við ráð fyrir því í okkar tillögum að fjárveitingum til Hagstofunnar verði hagað samkvæmt því.

Í fjórða lagi gerum við tillögu um það í okkar kerfisbreytingartillögum að ríkisvaldið hætti afskiptum af atvinnurekstri og viðfangsefnum sem í nútíma þjóðfélagi eru eðlileg verkefni annarra aðila, eins og sveitarfélaga eða atvinnufyrirtækja i einkaeigu eða í eigu samvinnuhreyfingarinnar.

Fimmta atriðið í okkar kerfisbreytingartillögum er að niðurgreiðslur á tilteknum neysluvörum, sem stjórnvöld ákveða hverjar skuli vera, verði afnumdar og þeim breytt í beinar niðurgreiðslur til neytenda þannig að neytendurnir fái sjálfir að ráða því hvaða vörur eða þjónustu þeir vilja niðurgreiða af opinberu fé og séu því ekki bundnir við annað neyslumynstur en þeir sjálfir kjósa.

Sú aðferð, sem við höfum í huga varðandi framkvæmd slíkra beinna niðurgreiðslna til neytenda, er ný útfærsla á hinu gamla fjölskyldubótakerfi sem við þekkjum frá fyrri árum, ný útfærsla sem tryggir það í fyrsta lagi að ungt fólk með eitt eða tvö börn á framfæri fái mjög verulegar greiðslur og í öðru lagi að mjög stórar fjölskyldur, þar sem foreldrar hafa mjög mörg börn á framfæri, fái verulegar greiðslur. Þessar greiðslur, sem við gerum tillögu um að upp verði teknar með þessum hætti, nema frá 6 og upp í 8 þús. kr. á hvert barn á mánuði miðað við þær takmarkanir sem ég hef hér lýst.

V. Þá, herra forseti, skilar samtala þeirra breytinga, sem við leggjum til að gerðar verði með þessum hætti, auknu svigrúmi fyrir ríkisvaldið til þess að veita fjármunum í félagsleg viðfangsefni og í framkvæmdir. Í samræmi við það gerum við tillögur um að svigrúmið sé m.a. þannig nýtt:

Í fyrsta lagi til þess að stórauka framlög í Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna til þess að unnt verði að leysa vanda húsbyggjenda. Alþfl. leggur til að þessi framlög verði samtals aukin um tæplega 600 millj. kr.

Í öðru lagi gerum við tillögur um aukningu á framlögum í Framkvæmdasjóð fatlaðra og til þjónustu við fatlað fólk.

Í þriðja lagi gerum við ráð fyrir því að aukið verði framlag til sjúkratrygginga um alla þá fjárhæð sem ríkisstj. áformar að flytja frá sjúkratryggingum og yfir á sjúklinga sem sérstakan skatt á sjúkt fólk á næsta ári.

Í fjórða lagi leggjum við til að auka framlög til Þjóðarbókhlöðu, til sjúkrahúsabygginga, til framkvæmda við Landspítala, til grunnskóla, til hafnarmannvirkja og til fjölmargra annarra framkvæmdaliða þannig að ríkið geti tekið eðlilegan þátt í framkvæmdum í landinu og staðið við þá verkáfanga og þær framkvæmdir sem ráðgerðar hafa verið af opinberum aðilum á næsta ári.

Í fimmta lagi leggjum við síðan til mjög verulega aukningu á fjárveitingum til þess að efla eftirlit með skattsvikum með sérstakri fjárveitingu til skattrannsókna á vegum ríkisskattstjóra. Þær kerfisbreytingar og sparnaður, sem við gerum tillögur um, gera okkur fært að ná þessum markmiðum og flytja tillögur um auknar fjárveitingar í þessu sambandi.

Herra forseti. Þó að tillögur þær, sem við gerum, séu margar eru þær ekki tæmandi né endanlegar og fullkomnar, enda unnar á skömmum tíma og við erfiðar aðstæður. En þær eru ábendingar okkar Alþýðuflokksmanna um hvernig beri að standa að endurskoðun fjárlagagerðarinnar þar sem frá grunni verði farið ofan í ríkisbúskapinn og tekist á við vandamálin þar af kjarki og einbeitni sem flestar ríkisstjórnir á Íslandi hefur stórlega skort.

Það sem við erum að gera nú hefur aldrei fyrr gerst hér á Alþingi, þ.e. að stjórnarandstöðuflokkur taki sig til og leggi fram heildstæðar tillögur í mörgum liðum, ekki bara um vinsælu viðfangsefnin, ekki bara um aukin útgjöld og aukna eyðslu heldur einnig um mál sem ekki eru vinsæl en er nauðsynlegt að gera ef ná á tökum á ríkisrekstrinum. Það hefur aldrei áður gerst að stjórnarandstöðuflokkur hafi komið fram með þannig tillögur, hafi lýst þannig óhikað stefnu sinni, hafi boðið fram samstarf sitt til þess að endurskoða fjárlagagerð með slíkum hætti.

Eðlilegt er að spurt sé: Hvaða áhrif hafa þessar tillögur Alþfl. annars vegar á afkomu ríkissjóðs, hins vegar á lántökuþörf og erlendar lántökur? Þetta eru lykilorðin í allri umfjöllun um fjárlagagerð á Íslandi. Við Alþýðuflokksmenn höfum fengið Fjárlaga- og hagsýslustofnun til þess að yfirfara tillögur okkar, færa þær upp á rétt verðlag og reikna síðan út afkomuna á greiðsluyfirliti ríkissjóðs eins og því er lýst í 1. gr. fjárlaga. Stærstu tölurnar þar, samkvæmt niðurstöðu Hagstofunnar á endanlegu verði fjárlagafrv., eru þessar:

Samkvæmt tillögum ríkisstj. er gert ráð fyrir því að tekjur umfram gjöld hjá ríkinu verði 188 millj. kr. Samkvæmt tillögum Alþfl. um breytingar við fjárlögin er niðurstaða Fjárlaga- og hagsýslustofnunar að tekjur umfram gjöld hjá ríkissjóði verði 1215 millj. 946 þús. kr. Samkvæmt áformum hæstv. ríkisstj. gerir hún ráð fyrir því að taka til láns til þess að endurlána ríkisstofnunum 960 millj. kr. á næsta ári. Samkvæmt tillögum Alþfl. er gert ráð fyrir því að taka til láns til þess að endurlána þessum sömu stofnunum 570 millj. kr. Mismuninum þar á milli er ekki eytt með einhverjum æfingum, eins og hæstv. ríkisstj. gjarnan gerir tillögur um, heldur er í tillögum Alþfl. reiknað með því að mismuninum á þessum lántökum sé breytt í bein framlög úr ríkissjóði og eru tillögur um það gerðar hjá okkur. Þrátt fyrir það er rekstrarafkoman hjá okkur á ríkissjóði 1216 millj. kr. á sama tíma og áform ríkisstj. eru um 188 millj. kr. tekjur umfram gjöld. Niðurstaðan á erlendum lántökum miðað við þær brtt. sem við flytjum eru annars vegar samkvæmt fjárlagafrv. 2 milljarðar 550 millj. kr. eða um það bil, en samkvæmt brtt. þeim sem við flytjum, yrðu þær samþykktar, yrði niðurstöðutalan 1 milljarður 50 þús. kr. eða meira en helmingi lægri en þær lántökuþarfir sem hæstv. ríkisstj. ráðgerir.

Þá kem ég að brtt. sjálfum á þskj. 377 og skal fara mjög hratt yfir sögu því þær eru margar og ég vil ekki tefja fundi þingsins með of löngum lýsingum á þeim. Við höfum samið bæði grg. og fengið Fjárlaga- og hagsýslustofnun til þess að áætla annars vegar tekjuauka og hins vegar tekjutap á nýjasta fjárlagaverðlagi með hverri tillögu fyrir sig.

1. till. á þskj. gerir ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að lækka framlag til hluta- og stofnfjárframlaga úr 140 millj. í 70 millj. kr.

2., 3. og 4. till. eru áhrif af þeim breytingum á eignarskatti sem við flytjum tillögur um. Þær lækka eignarskatt einstaklinga um 80 millj. kr., en hækka eignarskatt félaga um 577 millj. kr.

5. till. okkar er varðandi breytingu á tekjuskatti þess efnis að staðið sé við samþykkt Alþingis um lækkun tekjuskatts í áföngum og að árið 1986 verði gert annað áfangaár. Mun sú tillaga, ef samþykkt verður, hafa þær afleiðingar að tekjuskattur einstaklinga mun lækka um 740 millj. kr.

6. till. okkar varðar vörugjald. Við föllumst ekki á að tekjur ríkissjóðs séu jafnaðar, eins og hæstv. ríkisstj. gerði ráð fyrir, með því að hækka vörugjald, sem hefði leitt til mjög mikilla verðbreytinga á einstökum útgjaldaliðum heimila, og gerum því tillögu um að frá þeirri hækkun sé horfið. Það mun kosta ríkissjóð um 340 millj. kr.

Loks kemur till. okkar um söluskattinn, afnám undanþága sem mun skila ríkissjóði í auknar tekjur a.m.k. 2,6-2,7 milljörðum kr.

8. og 9. till. ásamt 11. till. eru svo varðandi það sem við höfum kallað skattalagahreinsun, niðurfellingu smáskatta sem menn hafa verið að leggja á og aldrei hefur verið ætlað að standa nema eitt og eitt ár en eiga sumir rætur sínar að rekja allt til ársins 1946. Er raunar fráleitt þegar menn eru með í ríkiskerfinu skatta eins og t.d. lestargjald sem mig minnir að gefi 50-60 þús. kr. í ríkissjóð eða eitthvað nálægt því og er lagt á skip 10 brúttórúmlestir og stærri með 1,50 kr. á hverja brúttórúmlest. Það er alveg fráleitt að menn skuli vera með slíka skatta allar götur frá árinu 1946 og séu ekki enn þá búnir að hreinsa þá út. Þeir skattar sem við leggjum til að hreinsaðir séu út eru í fyrsta lagi miðagjald, í öðru lagi skoðunargjald ökutækja og prófgjöld, sérleyfisgjald, lestargjald, vitagjald, skipaskoðunargjald og auk þess flugvallaskattur sem skiptir verulegu máli í tekjum ríkissjóðs, 40 millj. kr., en er í raun skattur af samgöngukerfi Íslendinga, bæði innanlands og milli landa.

Síðan gerum við ráð fyrir því í 12. gr. að hækkaðar verði tekjur ríkisins af leigu ríkisjarða. Ríkið er stærsti jarðeigandi á Íslandi og á fleiri tugi jarða sem leigðar eru út bæði til einstaklinga og félaga til ýmissa þarfa. Heildartekjur ríkissjóðs af öllum þessum ríkisjörðum eru áætlaðar 1,4 millj. kr. Það dugar ekki einu sinni til þess að greiða laun þeirrar deildar í landbrn. sem á að hafa eftirlit með og innheimta afgjöldin af þessum jörðum. Við gerum tillögur um að að lágmarki séu þessi afgjöld hækkuð tífalt þannig að í staðinn fyrir 1,4 millj. kr. tekjur hjá stærsta jarðeiganda Íslands fyrir útleigu á öllu sínu jarðnæði komi 14 millj. kr. í tekjur ríkissjóðs af því og þætti sjálfsagt engum mikið.

Þá komum við að útgjaldaliðunum. Fyrsta till. okkar er sú að liðurinn um húsameistara ríkisins falli niður og sú starfsemi flytjist til annarra aðila. 2. og 3. till. varðandi 14, gr. eru um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands í eina stofnun.

15. brtt. er um stórhækkun á framlagi í rannsóknarsjóð til þess að styðja og styrkja rannsóknarstarfsemi í landinu.

17. tillaga er um hækkun á framlagi til Námsgagnastofnunar til námsefnisgerðar. Ákvarðanir hafa verið teknar af skólayfirvöldum um að hefja forskólanám og eins um eins árs lengingu skólaskyldunnar. Þeim ákvörðunum hafa hins vegar ekki fylgt ákvarðanir um að hækka fjárveitingar til Námsgagnastofnunar svo að hægt sé að semja námsefni fyrir þessar tvær bekkjardeildir sem hið opinbera hefur þó ákveðið að tekin skuli upp kennsla í.

18. brtt. varðar hússtjórnarskóla þar sem lagt er til að aðeins tveir hússtjórnarskólar verði starfræktir á landinu og reynt að gera betur við þær tvær skólastofnanir en þær mörgu stofnanir sem hefur verið dreift út um byggð ból á landinu.

19. till. er um auknar fjárveitingar í byggingu grunnskóla.

20. till. varðar Lánasjóð ísl. námsmanna og fjallar um að breyta lántökum til lánasjóðsins í framlög af hálfu ríkisins því að við teljum óeðlilegt að sjóðir eins og Byggingarsjóður ríkisins, Byggingarsjóður verkamanna og Lánasjóður ísl. námsmanna séu fjármagnaðir með erlendum lánum.

21. till. er um Þjóðarbókhlöðuna sem þjóðin gaf sjálfri sér í afmælisgjöf árið 1974, að haldið verði áfram og lokið því verkefni.

22. till. varðar aukna markaðssókn og markaðsöflun á vegum utanrrn.

23. till. varðar hækkun matvæla- og neyðaraðstoðar við fátækar þjóðir.

24. till. varðar hækkun á framlögum í Jarðasjóð, en Jarðasjóður hefur því hlutverki að gegna að aðstoða þá bændur sem vilja hætta búskap og hverfa af býlum sínum. Hjá mörgum slíkum eru vandkvæðin þau að þeir fá næstum því ekkert fyrir þær eignir sem eru ávöxtur margra ára starfs þeirra, jafnvel alls lífsstarfsins, og þurfa því að halda áfram að velja á milli þess annars vegar að halda áfram að búa þó þeir vilji frá búskap hverfa ellegar þá að skilja allar eignir sínar eftir og flytja á mölina eignalausir menn. Tillaga okkar er um að hækka mjög verulega framlag í Jarðasjóð sem hefur því hlutverki að gegna að hjálpa bændum við slíkar aðstæður og greiða þeim fyrir þær eignir sem eru árangur lífsstarfs þeirra ef þeir vilja hverfa á braut og hætta búskap.

Þá gerum við ráð fyrir því að Búnaðarfélag Íslands falli brott sem ríkisstofnun, en flytjum síðar í þessu þskj. tillögu um hækkun á fjárveitingum til Hagstofu Íslands til þess að taka við gagnasöfnunarverkefni Búnaðarfélags Íslands og Fiskifélags Íslands.

26. till. varðar það að við viljum láta leggja embætti veiðistjóra niður.

27. till. varðar það að við viljum láta gera Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, eins og aðrar rannsóknarstofnanir sem stunda hagnýtar rannsóknir, að sjálfseignarstofnun þar sem ríkið greiði ákveðinn grunnkostnað, sem í þessu tilviki er í okkar tillögum lagt til að verði rúmlega launakostnaður fastráðinna starfsmanna, en stofnunin standi að öðru leyti undir sér sjálf.

28. og 29. till. varða annars vegar niðurfellingu mats á landbúnaðarafurðum og hins vegar einangrunarstöð holdanauta í Hrísey sem er alveg fráleitt að sé ríkisstofnun sem ríkið eigi og reki.

30. till. varðar lækkun á jarðræktarframlögum.

31. till. varðar sparnað í uppbótum á útfluttar landbúnaðarafurðir.

32. till. er niðurfelling búfjárræktarframlaga, sem eru framlög skv. lögum nr. 31/1973, til þess að kosta verðlaun á hrútasýningum o.s.frv. Við teljum ekki eðlilegt að ríkið greiði verðlaun á hrútasýningum heldur eigi bændur sjálfir, sem þar eiga hlut að máli, að sjá um að verðlauna þá gripi sem bera af öðrum.

Ég hef þegar rætt um Fiskifélag Íslands, en um það er fjallað í 33. brtt., um Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins sem um er fjallað í 34. tillgr. og Ríkismat sjávarafurða sem um er fjallað í 35. tillgr.

Í 36. tillgr. er gerð tillaga um stóraukningu á framlögum til fiskileitar, markaðsöflunar og tilrauna í útgerð.

Í 37 tillgr. er gerð tillaga um mjög verulega hækkuð ríkisframlög í baráttuna gegn ávana- og fíkniefnum.

38. tillgr. gerir ráð fyrir því, sem oft hefur borið á góma en hefur aldrei tekist að framkvæma, að Bifreiðaeftirlit ríkisins verði lagt niður, en sú þjónusta sem það veitir verði flutt á löggild bifreiðaverkstæði.

Í 39. og 40. tillgr. eru lagðar til mjög verulegar hækkanir til húsnæðismála, yfir 500 millj. kr.

Í 41. tillgr. er lögð til hækkun um samtals 30 millj. kr. til málefna fatlaðra.

43. brtt. varðar yfir tveggja milljarða kr. hækkun á framlögum til Tryggingastofnunar ríkisins.

44. brtt. varðar hækkun á framlagi til yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóð svo að hægt sé að standa við áformin um byggingu K-byggingar, þ.e. krabbameinsrannsóknabyggingarinnar.

45. tillgr. varðar hækkun á framlögum til byggingar sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða.

46. brtt. er nýr liður, framlög til aðgerða gegn skattsvikum samkvæmt ályktun Alþingis upp á 13,5 millj.

47. tillgr. er nýr liður: Til greiðslu biðlauna vegna breytinga og fækkunar ríkisstofnana og fyrirtækja. Við gerum ráð fyrir því að sé um það að ræða að fólk missi vinnu sína vegna þess að fækkað sé ríkisstofnunum séu því greidd eðlileg biðlaun. Gerum við að sjálfsögðu tillögu um fjárhæð slíkra biðlauna og að áætlað sé fyrir þeim í ríkisrekstrinum.

48. brtt. er um aukningu á hafnarframkvæmdum.

49. brtt. um að Siglingamálastofnun ríkisins verði gerð að ríkisstofnun, B-hluta fyrirtæki, og hún kosti þjónustu sína við atvinnuveginn sjálf. Skoðunargjöld Siglingamálastofnunar ríkisins eru talin vera 15 sinnum lægri en viðgengst í öllum nálægum löndum. Er þetta eitt dæmið enn um það sem við Alþýðuflokksmenn höfum kallað velferðarkerfi atvinnuveganna þar sem ríkisvaldið er látið niðurgreiða í stórum mæli ýmsa þjónustu sem verið er að veita ýmsum atvinnufyrirtækjum og stofnunum.

51. liður er um að fella niður greiðslur til Sérleyfissjóðs.

52. liður er um að gera Iðntæknistofnun Íslands að sjálfseignarstofnun, eins og við gerum tillögur um varðandi aðrar rannsóknarstofnanir sem stunda hagnýtar rannsóknir.

53. og 54. liður: Lánasjóðir iðnaðarins, framlög til þeirra, og framlög til iðnaðarrannsókna verði felld burt sem sérstakir liðir, en á móti bendum við á stórhækkun á framlagi til rannsókna almennt sem ég hef gert grein fyrir hér áður.

55. Rafmagnseftirlit ríkisins verði gert að B-hluta stofnun.

56. Niðurgreiðslur verði afnumdar eins og þær eru framkvæmdar í dag, en í staðinn verði teknar upp beinar niðurgreiðslur til neytenda sem ég hef þegar lýst.

57. Sértekjur vegna skráningar hlutafélaga standi undir öllum kostnaði við skráninguna en ríkið sé ekki að borga með hlutafélögum og skráningu þeirra í þessu sambandi.

58. Hækkun til Hagstofu Íslands svo að hún geti tekið að sér gagnasöfnunarverkefni Fiskifélags Íslands og Búnaðarfélags Íslands.

59. Frestað verði fjárfestingum í ríkisbitreiðum.

60. liður og liðirnir þar á eftir varða B-hluta stofnanir. Þar má helst nefna að við gerum ráð fyrir því að hætt verði starfrækslu ýmissa B-hluta stofnana, svo sem tilraunabúsins að Hesti, tilraunastöðvarinnar á Reykhólum, fóður- og fræframleiðslu Gunnarsholti, Stórólfsvallabúsins, fóðuriðjunnar í Ólafsdal, grænfóðurverksmiðju í Flatey, laxeldisstöðvarinnar í Kollafirði og einangrunarstöðvar holdanauta í Hrísey.

Hvað varðar þá rannsóknarstarfsemi sem þarna hefur farið fram felst ekki í okkar tillögum að við gerum ráð fyrir því að henni verði hætt heldur teljum við eðlilegt um ýmsar þær rannsóknir sem þarna fara fram, t.d. rannsóknirnar og tilraunirnar á Reykhólum, að þær séu framkvæmdar af bændum sjálfum sem hafa t.d. í þessu tilliti áhuga á sauðfjárrækt og áhuga á því þarfa verkefni að rækta fram hreinhvítt sauðfé, - bændurnir sjái um þetta sjálfir og fái stuðning til þeirrar starfsemi frá ríkisvaldinu.

Aðrir liðir eru einfaldlega bókhaldsliðir vegna till. sem ég hef þegar lýst, herra forseti, og varða 4. gr. Herra forseti. Ég hef hlaupið á helstu atriðunum af þeim 74 brtt. sem við Alþýðuflokksmenn flytjum á þskj. 377. Ég hef lýst tilganginum með tillöguflutningnum sem er nýmæli. Ég tel ekki ástæðu til að hafa að svo stöddu fleiri orð um þetta mál. - [Fundarhlé].

Kolbrún Jónsdóttir: Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. í fjvn. fyrir gott samstarf og einnig ritara nefndarinnar.

Nú í ár blasir við halli á ríkissjóði eins og margir hafa minnst á við þessa umræðu og einnig við 2. umr. þessa frv. Hallinn verður ekki aðeins rúmlega 700 millj., eins og áætlað var á s.l. ári, heldur um 2,3 milljarðar eftir nýjustu tölum. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir þjóð sem er sokkin upp fyrir mitti í skuldasúpunni. Þetta eru alvarleg tíðindi þegar við stefnum í mesta aflaár í sögu landsins.

Aukinn halli á ríkissjóði leiðir til aukinnar erlendrar lántöku, eins og nú er fram komið í lánsfjárlögum sem samþykkt voru í hv. Ed. í dag, en yfirlýst stefna ríkisstj. gengur í þveröfuga átt. Hún hefur stefnt að að lækka erlendar skuldir, en það hefur því miður ekki tekist.

Vegna þess hve erlenda skuldasöfnunin hefur verið mikil á undanförnum árum greiðum við nú 6,7 milljarða kr. í vexti af erlendum lánum. Það er um 1,7 milljörðum hærri upphæð en fer til fræðslu- og menningarmála á vegum menntmrn. á árinu 1986.

Ríkisstj. hefur ekki reynt að bregðast við þessum síaukna vanda varðandi erlenda skuldasöfnun. Það gengur ekki lengur að láta reka á reiðanum og láta börn þessa lands taka við þeim vandamálum sem ríkisstjórnir skilja eftir sig hver á fætur annarri.

Tap þjóðarinnar vegna Kröfluvirkjunar nemur nú yfir 2 milljörðum kr. og fellur beint á ríkissjóð. Auk þess er orðin tímaspurning hvenær ríkissjóður þarf að taka yfir skuldir Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, eins og ég minntist á við 2. umr. þessa máls, sem nema yfir 3 milljörðum kr. Ofan á þetta bætist svo Hafskipsævintýrið, en tapið þar er álíka mikið og fer til málefna fatlaðra á vegum félmrn. á n.k. ári.

Það er því engin spurning að hér er verið að ræða um frv. til fjárlaga sem er útgjaldaaukandi en kemur sér ekki betur fyrir þegna þessa lands. Hér er ekki um tímamarkandi fjárlög að ræða heldur eingöngu framlengingu í uppsöfnuðum skuldavanda ríkisstj.

En þrátt fyrir þann skuldavanda, sem við stöndum nú frammi fyrir, slá ráðherrar um sig eins og þeir hafi gnægð fjár. Fréttir berast gegnum opinbera fjölmiðla til hv. þm. í fjvn. um að ríkisstj. hafi ákveðið á fundi að kaupa mjólkurstöð á 110 millj. kr. Það er furðulegt að á sama tíma og dregið er úr framlögum til skólabygginga, heilsugæslu og fleiri málefna er lagt kapp á að safna stofnunum, húsum, ef ekki með því að kaupa þau, þá bara að leigja. Víðishúsið stendur autt að mestu og hefur kostað ríkissjóð stórfé. Þjóðarbókhlaða stendur hálfbyggð og er ekki til fé til að klára þá byggingu.

Nýverið hefur ríkið fest leigu á húsnæði til níu ára fyrir Þjóðskjalasafnið. En hvað skeður svo? Ríkisstj. festir kaup á mjólkurstöð til að hýsa sömu stofnun. Það er ekkí mikið að marka fjárlög ef hægt er að kaupa eignir og veita aukafjárveitingar linnulaust án þess að það komi fyrir hv. Alþingi.

Til að mæta kaupsýki hæstv. ríkisstj. þarf að hækka skatta og auka lántökur. Nýjasta skattaaðferðin er að ná tekjum í gegnum Póst og síma. Nú á að skattleggja símnotendur um 188 millj. kr. Á þennan skatt leggst síðan söluskattur sem mun nema um 47 millj. kr. Alls mun þessi aukaskattur nema 235 millj. á næsta ári.

Hreinlegra væri og hefði komið jafnar niður á landsmenn að auka aðra skatttekju en skatt á Póst og síma því að hann kemur verst niður á þeim sem bera hæsta símakostnaðinn. Hér á landi eru það þeir sem búa í dreifbýli og þurfa að sækja bæði gegnum síma og með ferðalögum margt hingað suður á þéttbýlissvæðið. Þessi aukni skattur kemur því mjög misjafnlega niður á landsmenn.

Eins og ég hef áður nefnt leggjast erlendar lántökur undanfarinna ára á með enn meiri þunga á næsta ári. Alls munu vaxtagreiðslur og afborganir nema 13,1 milljarði, en af þeirri upphæð eru á milli 8 og 9 milljarðar greiddir af opinberum aðilum. Þetta er býsna há upphæð. Væri því tímabært að sporna gegn þessum vanda. En það frv., sem hér liggur fyrir, tekur alls ekki á þessu vandamáli þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar undangenginna mánaða.

Til að gera breytingar á frv. til fjárlaga þarf meira en að flytja brtt. við það frv. sem hér liggur fyrir. Til að ná fram breytingum þarf meiri hluta á hv. Alþingi. Þingflokkur BJ hefur lagt fram á Alþingi þingmál og brtt. við fjárlagafrv. undangenginna tveggja ára sem hafa miðað að samdrætti í ríkisbákninu. Þær till. hafa ekki náð fram að ganga. Þar af leiðandi hefur þingflokkur bandalagsins ákveðið að leggja engar brtt. fram við þetta fjárlagafrv. Þingflokkurinn sendi frá sér fréttatilkynningu og ég ætla að fá að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingflokkur BJ ákvað eftir að fjárlagafrv. kom fram að leggja ekki fram neinar brtt. við frv. Ástæðurnar eru þessar helstar:

1983 lagði þingflokkur BJ fram umfangsmiklar brtt. við fjárlagafrv. Þær miðuðu í fyrsta lagi að tekjusamdrætti, í öðru lagi að útgjaldasamdrætti og í þriðja lagi að átaki til nýsköpunar í atvinnulífi og menntun. Allar þessar tillögur voru felldar.

Haustið 1984 lagði þingflokkur BJ fram á annan tug till. til þál. um samdrátt og breytingar í ríkisrekstri. Þar var lagt til að fjöldi opinberra fyrirtækja og stofnana yrði lagður niður. Margar þessara stofnana eru tímaskekkja í nútíma samfélagi. Sumar þeirra eru beinlínis til óþurftar og verkefnum annarra má sinna á betri og nútímalegri hátt. Þessar till. voru ýmist felldar eða látnar daga uppi í nefndum þingsins.

Við afgreiðslu fjárlagafrv. 1984 lagði þingflokkur BJ enn fram umfangsmiklar brtt. sem miðuðu að því sama og áður, að skera upp velferðarkerfi atvinnuveganna og efla nýsköpun og menntun. Óþarft er að gera grein fyrir örlögum þessara till.

Vinnubrögð við fjárlög eru úrelt. Þar er við stjórnvöld að sakast. Þrátt fyrir 50 millj. kr. útgjöld til nefnda, stjórna og ráða er yfirsýn ríkisstj. yfir áhrif og útkomu fjárlaga ekki meiri en svo að tíu dögum fyrir áramót hefur enginn ráðherra hugmynd um hvernig árið kemur út.

Með hliðsjón af því að hækkanir á fjárlögum ársins 1984 urðu í fjölda liða 50 til 100% og hallinn þrisvar sinnum meiri en ráðgert var er augljóst að án gagngerrar endurskipulagningar á eftirliti og undirbúningi fjárlaga er gerð þeirra markleysa ein. Með hliðsjón af framangreindu telur þingflokkurinn tilgangslaust að leggja fram brtt. við fjárlagafrv. að þessu sinni.“

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frv., enda fór ég nokkrum orðum um það við 2. umr. þessa máls og reyndi að skýra mín sjónarmið. Ég tel að það þurfi gagngera uppstokkun á frv. náist fram einhverjar breytingar til batnaðar.