20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

1. mál, fjárlög 1986

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Nokkrir þm. Reykvíkinga hafa á þskj. 297 flutt brtt. um hækkun á rekstrarstyrkjum fyrir ýmsar stofnanir fatlaðra á Reykjavíkursvæðinu sem ég mæli hér fyrir. Þeir þm. sem flytja þetta ásamt mér eru hv. þm. Kristín S. Kvaran Guðrún Helgadóttir, Ellert B. Schram, Haraldur Ólafsson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Jón Baldvin Hannibalsson, Svavar Gestsson, Guðrún Agnarsdóttir og Guðmundur J. Guðmundsson.

Svæðisstjórn málefna fatlaðra í Reykjavík hefur kynnt fjvn. og þm. Reykvíkinga beiðni um fjárveitingu til brýnustu verkefna vegna þjónustu við fatlaða í Reykjavík. Um var að ræða beiðni um rekstrarstyrki að upphæð 9,5 millj. kr. umfram það sem fram kemur á fjárlögum. Um er að ræða vistheimili fyrir fjölfötluð börn, meðferðarheimili fyrir börn með geðræn og einhverf einkenni, meðferðarheimili fyrir þroskahefta með hegðunarvandkvæði, verndaða vinnustaði á vegum Sjálfsbjargar og rekstrarstyrki til þriggja sambýla.

Við sem flytjum þessa tillögu, sem fram kemur á þskj. 297, teljum að vandlega athuguðu máli að mjög brýnt sé og nauðsynlegt að fjárveitingavaldið komi að verulegu leyti til móts við þessa beiðni svæðisstjórnar, en höfum afmarkað okkur við þau fimm verkefni sem fram koma á þskj. 297 og ég mun hér gera nánari grein fyrir.

Á árinu 1984 og yfirstandandi ári hefur Framkvæmdasjóður fatlaðra úthlutað 5 millj. kr. til vistheimilis fyrir fjölfötluð börn sem áformað er að rísi við Holtaveg. Teikningar og útboðsgögn liggja fyrir og er reiknað með að framkvæmdir hefjist strax eftir áramótin. Áætlanir byggja á því að rekstur geti hafist um áramótin 1986-1987, en frá 1. október verði ráðinn forstöðumaður. Er hér lagt til að veitt verði 109 þús. kr. í rekstur þannig að hann geti hafist 1. okt. n.k., en þá er áformað að ráða forstöðumann.

Í grg. svæðisstjórnar Reykjavíkur segir m.a. varðandi þessa fjárveitingarbeiðni, með leyfi forseta:

„Margar ástæður liggja að baki þarfar á heimili af þessari gerð. Foreldrar geta verið látnir eða veikir. Þá leiðir byrðin sem af fjölfötlun getur stafað til þess að heimilisástæður verða iðulega óþolandi fyrir alla aðila. Deildir stofnana sem taka við þessum börnum eru yfirfullar. Heimilið að Holtavegi mun rúma fimm börn, en átta börn eru á biðlista hjá svæðisstjórn. Þá þykir fullvíst að mun fleiri aðstandendur fjölfatlaðra barna leiti svæðisstjórnar á næstunni. 1 milljón rann til heimilisins 1984, 4 milljónir 1985, en svæðisstjórn mælir með 7 milljónum fyrir árið 1986. Áætlaður kostnaður við bygginguna er 13 milljónir. Teikningar af vistheimilinu eru tilbúnar og voru samþykktar á fundi svæðisstjórnar 30. nóv. 1984. Borgarráð úthlutaði lóð við Laugarnesveg/Hrísateig í nóvember 1984, en vegna mótmæla íbúa hverfisins var sú úthlutun dregin til baka. 19. júní 1985 var úthlutað öðru sinni og nú við Holtaveg. Vegna þessara ófyrirséðu atvika seinkaði framkvæmdum um heilt ár. Lóðin við Holtaveg er tilbúin til notkunar.“

Í tillögum okkar þm. Reykvíkinga er lagt til að fjárveiting verði veitt til að hægt sé að auka stöðugildi á sambýlum á vegum Styrktarfélags vangefinna í Víðihlíð 5 og 7. Um er að ræða 1,3 viðbótarstöðugildi fyrir Víðihlíð 7 allt árið 1986 sem kostar 644 þús. og 4 viðbótarstöðugildi fyrir Víðihlíð 5 hálft árið 1986, sem kostar 1455 þús. kr. Nauðsynlegt er að fjármagn fáist fyrir þessum auknu stöðugildum, en Styrktarfélag vangefinna hefur fallist á beiðni svæðisstjórnar Reykjavíkur um vistun nokkurra fatlaðra einstaklinga ef til komi aukin stöðugildi vegna mikillar umönnunar sem þessir fjölfötluðu einstaklingar þurfa. Vil ég, með leyfi forseta, vitna í bréf þar að lútandi, dags. 13. nóv., sem undirritað er af svæðisstjórn Reykjavíkur í málefnum fatlaðra og Styrktarfélagi vangefinna, en þar segir, með leyfi forseta:

„Það ríkir mjög alvarlegt ástand í vistunarmálum vangefinna og einhverfra í Reykjavík. 70 manns eru á biðlista. Þar af þurfa um 35 manns tafarlaust að fá heimili. Í mörgum tilfellum eru foreldri og systkini að bugast undir því mikla álagi sem því fylgir að hafa vangefinn eða einhverfan einstakling á heimilinu. Við þessar aðstæður er það staðreynd að aðrir fjölskyldumeðlimir þurfa oft að leita hjálpar hjá félags- og geðheilbrigðisþjónustunni sem einnig felur í sér stofnanavistanir í lengri eða skemmri tíma. Með því að einstaklingurinn flytji af heimilinu má áætla að aðstæður hans og fjölskyldunnar í heild batni til muna.

Hjá svæðisstjórn Reykjavíkur liggja fyrir þrjár umsóknir um vistun á meðferðarheimili einhverfra barna að Trönuhólum 1. Umsækjendur þessir búa við mjög erfiðar heimilisaðstæður. Auk þess er svæðisstjórn kunnugt um nokkur börn sem bíða eftir plássi að

Trönuhólum 1, en eiga ekki formlegar umsóknir hjá svæðisstjórn Reykjavíkur, m.a. vegna þess að foreldrar vænta ekki úrlausnar í bráð. Í dag eru þrír einstaklingar að verða útskriftarhæfir frá Trönuhólum 1 og því bráðnauðsynlegt að þeir fái sambýlispláss við sitt hæfi. Væntanleg útskrift af Trönuhólaheimilinu er fyrsta útskrift einstaklings af meðferðarheimili einhverfra barna á Íslandi. Er því mikið í húfi að vel sé staðið að þeirri útskrift. Að öðrum kosti er sýnt að sá árangur sem náðst hefur með tilkomu Trönuhólaheimilisins er unninn fyrir gýg.

Styrktarfélag vangefinna mun í þessum mánuði ljúka byggingu þriðja húss af fjórum raðhúsum við Víðihlíð 5-11. Raðhúsin eru ætluð fyrir sambýli og skammtímavistun fyrir vangefið fólk. Fjórða og síðasta áfanga er áætlað að ljúka fyrir mitt árið 1986 svo framarlega sem lokafjárveiting fæst. Upphafleg áætlun um nýtingu þessara húsa var að eitt skyldi vera fyrir skammtímavistun, annað fyrir einstaklinga sem eru lítið sjálfbjarga og þurfa mikla þjónustu. Þessi tvö hús eru komin í notkun samkvæmt þessari áætlun. Hin tvö húsin voru ætluð fyrir einstaklinga sem þurfa mjög takmarkaða þjónustu.

Af þeim 35 manna hópi sem tafarlaust þarf að fá heimili er mesta neyðarástandið á meðal einstaklinga sem þurfa á meiri þjónustu og aðstoð að halda en upphaflega var áætlað að sambýli við Víðihlíð 5 og 7 mundu veita. Styrktarfélag vangefinna vill gjarnan mæta þeirri þörf sem að ofan getur og breyta þar með upphaflegri áætlun um sambýli að Víðihlíð 5 með því að taka inn einstakling frá meðferðarheimilinu að Trönuhólum. Til þess að svo geti orðið eru svæðisstjórn Reykjavíkur og Styrktarfélag vangefinna sammála um að annars vegar þurfi að koma til fjármagn til að ljúka byggingarframkvæmdum við Víðihlíð 5, 2,6 millj. kr., hins vegar þurfi stöðugildi að vera í samræmi við þá þjónustu sem veita þarf. Þetta eru 6,23 stöðugildi auk sérfræðiþjónustu sálfræðings, félagsráðgjafa og geðlæknis. Til þess að hægt sé að hefja rekstur í Víðihlíð 7 þarf einnig að koma til 1,3 stöðugildi við þau 2,3 sem heimild er fyrir nú þegar. Fáist fjármagn í þær stöðuheimildir sem til þarf verður hægt að sinna málum 11 einstaklinga af þeim 35 sem áður voru nefndir og fer þá einn þeirra inn á Trönuhólaheimilið. Þannig heldur áfram sú æskilega þróun sem hafin er í málefnum einhverfra hér á landi. Þá er það hugmynd okkar, sem að þessum málum vinna, að margir af biðlistanum geti nýtt sér tilboð í formi leiguíbúða með lágmarksþjónustu.“

Ég vil geta þess, herra forseti, vegna þess sem fram kemur í þessu bréfi, að í fyrsta skipti er útskrifaður einstaklingur af Trönuhólaheimilinu, sem er meðferðarheimili einhverfra barna á Íslandi, að hér er vissulega miklum áfanga náð. Auk þess er mikill sparnaður í því fyrir ríkissjóð ef þessi þróun heldur áfram því það er mjög dýrt að vista einstaklinga á meðferðarheimilinu á Trönuhólum. Kostnaðurinn við hvern einstakling sem þar dvelur er 1478 þús. kr. á ári, en ef við tökum sem dæmi að þessi einstaklingur flytjist í sambýli, t.d. í Víðihlíðina, er kostnaðurinn mun minni eða um 400- 500 þús. kr. Þessi þróun er því mjög æskileg og nauðsynlegt að Alþingi stuðli að því að hún geti haldið áfram.

Í tillögum okkar þm. Reykvíkinga á þskj. 297 er því lögð til fjárveiting til sambýlanna Víðihlíð 5 og 7. Ég fagna því að sjálfsögðu að fjvn. hefur í sínum tillögum nú við 3. umr. nokkuð tekið tillit til þeirra tillagna, sem hér hafa verið fram lagðar, þótt þeim sé engu að síður ekki að fullu mætt.

Varðandi þá tillögu, sem fram kemur á þskj. 297, um fjárveitingu vegna rekstrarkostnaðar fyrir verndaðan vinnustað á vegum Sjálfsbjargar, þá er hér um nýtt viðfangsefni að ræða, en fyrirhugað er að taka á leigu húsnæði fyrir þessa starfsemi. Í bréfi svæðisstjórnar Reykjavíkur, sem sent var öllum þm. Reykjavíkur, segir svo um þessa starfsemi:

„Sjálfsbjörg hefur nú þegar fengið starfsleyfi fyrir verndaðan vinnustað í Reykjavík. Áætlað er að hann veiti 35-40 manns vinnu í lengri eða skemmri tíma. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan kosti 36,3 millj. og að stofnkostnaði verði skipt niður á næstu fimm ár. Beðið er um fjárveitingu vegna launakostnaðar þriggja starfsmanna til að undirbúa starfsemina. Um er að ræða 3/4 hluta starfs framkvæmdastjóra, 3/4 hluta starfs verkstjóra og 1/4 hluta starfs iðjuþjálfa eða 1,75 stöðugildi. Þá er gert ráð fyrir aðkeyptri vinnu sérfræðings fyrir 500 þús. kr.“

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að mjög mikil þörf er á vernduðum vinnustöðum fyrir fatlaða og virðist hér vera um hagkvæman kost að ræða sem leggja beri áherslu á að veiti 35-40 fötluðum vinnu.

Að lokum er í tillögunni á þskj. 297 lagt til að veitt verði fjárveiting að upphæð 1 millj. 531 þús. vegna reksturs á sambýli á vegum svæðisstjórnar. Hér er um að ræða lið sem við flm. till. leggjum þunga áherslu á því að hér virðist vera um mjög hagkvæman kost að ræða sem veita mun 5-6 fötluðum einstaklingum úrlausn. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í bréf sem svæðisstjórn málefna fatlaðra í Reykjavík hefur sent fjvn. um þetta efni, en þar segir, með leyfi forseta:

„Svæðisstjórn hefur boðist hús til leigu fyrir sambýlið í Reykjavík að Sóleyjargötu 11. Í óformlegum viðræðum við aðstandendur og forráðamenn hefur komið fram að verð á húsaleigu yrði samkvæmt því verðlagi sem ríkisstofnanir greiða almennt og húsaleigusamningur verður gerður til fimm ára. Í húsinu gætu búið fimm til sex manns. Nauðsynleg stöðugildi eru 4,6 svo að einn starfsmaður sé ávallt til staðar. Nokkrar lagfæringar á húsnæðinu eru nauðsynlegar, t.d. vegna breytinga á hreinlætisaðstöðu.

Svæðisstjórn málefna fatlaðra í Reykjavík fer þess á leit við fjvn. Alþingis að fá fé til reksturs sambýlis að Sóleyjargötu 11 frá 1. júlí 1986 að telja.

Eins og áður hefur verið kynnt eru á biðlista eftir vistunarplássum í Reykjavík skráð 70 nöfn, auk fjölmargra til viðbótar sem vitað er um að ekki hafa sent formlegar umsagnir til svæðisstjórnar. Svæðisstjórn telur að hér sé um að ræða hagstætt leigutilboð sem gæti leyst úr brýnum vistunarvanda nokkurra þeirra sem bíða eftir sambýlisplássum í Reykjavík.“

Nú við 3. umr. hefur fjvn. lagt til og tekið upp sem sína tillögu þá tillögu sem fram kemur á þskj. 297 þannig að ráð má gera fyrir að þessi tillaga verði samþykkt og að það geti orðið að veruleika að svæðisstjórn í málefnum fatlaðra í Reykjavík geti tekið þetta húsnæði á leigu. Því ber að sjálfsögðu að fagna.

Á þskj. 356 flyt ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur tillögu um að hækka framlag í Framkvæmdasjóð fatlaðra um 45 millj. kr. eða úr 80 millj. í 125 millj. kr. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu því að í gær mælti ég fyrir sams konar tillögu við afgreiðslu lánsfjárlaga. Ég vil þó draga fram helstu staðreyndir í málinu.

Frá stofnun framkvæmdasjóðsins 1980 hefur sjóðurinn verið skertur um samtals 167 millj. kr. að raungildi. Mestu munar um skerðingu á árinu 1984 sem var 57,8 millj. kr. og á yfirstandandi ári um 59 millj. kr. Í fjárlögum fyrir næsta ár er Framkvæmdasjóði fatlaðra ættuð óbreytt krónutala milli ára. Hér er um að ræða gífurlega skerðingu sem nemur 85 millj. kr., en framlög til sjóðsins ættu að vera 135 millj. kr. á næsta ári fyrir utan tekjur af erfðafjárskatti, en með honum ætti sjóðurinn að hafa til ráðstöfunar 165 millj. kr. í stað 80 millj. kr. sem nú er gert ráð fyrir. Samtals er því um að ræða skerðingu frá stofnun framkvæmdasjóðsins um 250 millj. kr. að raungildi.

Gífurlegur vandi blasir við víða á landinu í málefnum fatlaðra. Áætlað er að um 150 fatlaðir bíði nú eftir vistrými, ýmist á sambýlum eða sólarhringsstofnunum. Ég vek athygli á því að þessi vandi væri ekki til staðar ef ráðstöfunarfé sjóðsins hefði ekki verið skert svo mikið sem raun ber vitni. Áætla má að kaup á sambýli fyrir þessa 150 einstaklinga hefðu kostað um 200 millj. kr. Það er nauðsynlegt að þm. geri sér grein fyrir því að vistun þroskaheftra einstaklinga á sambýlum er stór þáttur í því að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu að þroskaheftir geti eins og kostur er aðlagast eðlilegu umhverfi og átt möguleika á því að hjálpa sér sem mest sjálfir. Fjöldi einstaklinga sem nú dvelst á sólarhringsstofnunum fatlaðra gæti útskrifast yfir á sambýli sem er í senn manneskjulegra og eðlilegri kostur fyrir þroskaheftan einstakling og ódýrara fyrir samfélagið - á það legg ég áherslu. Vistun fyrir þroskaheftan einstakling, t.d. á Skálatúni í Mosfellssveit, kostar 708 þús. kr. á ári. Margir þroskaheftir sem þar dveljast gætu vistast á sambýlum sem mundu aðeins kosta um 300-400 þús. kr. á ári samanborið við 708 þús. kr. á t.a.m. Skálatúni í Mosfellssveit. Ljóst er að þegar um svo gífurlegar skerðingar er að ræða á framkvæmdafé sjóðsins getur því seinkað um mörg ár að fá sambýli fyrir þessa einstaklinga sem þegar upp er staðið er mun ódýrari kostur fyrir þjóðfélagið.

Fyrir það takmarkaða ráðstöfunarfé sem sjóðurinn hefur til umráða þarf hann að standa undir framkvæmdum vegna skammtímafósturheimila, leikfangasafna meðferðarheimila fatlaðra, sumardvalarheimila, hjúkrunarheimila, sambýla, verndaðra vinnustaða, æfinga- og endurhæfingarstöðva og vistheimila auk þess að standa undir framkvæmdum sem ákveðnar eru með grunnskólalögum fyrir fatlaða, svo sem vegna sérkennslu og einnig skóladagheimila og dagvistarstofnana fatlaðra. Til allra þessara framkvæmda hefur sjóðurinn á sex árum einungis haft til ráðstöfunar tæpar 390 millj. kr. að raungildi. Vegna þess að sú skylda hvílir á sjóðnum að fjármagna framkvæmdir vegna skólamála fatlaðra hafa á þessum árum farið um 30% af ráðstöfunarfé sjóðsins í framkvæmdir vegna skólamála fatlaðra og um 33% hafa runnið til endurbóta og breytinga á eldra húsnæði án þess að um aukningu á vistrými hafi verið að ræða. Úthlutun úr sjóðnum til framkvæmda, sem leitt hafa til aukins vistrýmis, er aðeins um 25% af framkvæmdafé sjóðsins á árunum 1980-1984. Á það má einnig benda að á sólarhringsstofnunum og sambýlum fatlaðra hefur aukning á vistrýmum aðeins orðið 56. Það hefur aðeins fjölgað um 56 vistrými á 11 ára tímabili, frá 1973-1984, eða úr 369 vistrýmum í 425. Athyglisvert er einnig að á árinu 1980 voru viðfangsefni sjóðsins 18, en á árinu 1985 voru viðfangsefni sjóðsins 53.

Með þessum fjárlögum á enn að bæta nýju viðfangsefni á sjóðinn. Það er kostnaður vegna viðhalds á stofnunum öryrkja og þroskaheftra sem áður var gert ráð fyrir í daggjöldum og fram til þess á fjárlögum eftir að rekstur stofnana var færður á föst fjárlög. Þessum viðhaldsverkefnum er nú vísað á Framkvæmdasjóð fatlaðra. Mér er kunnugt um að stjórn málefna fatlaðra telur það ekki vera verkefni sjóðsins að greiða viðhaldskostnað á stofnunum sem nú er í fyrsta skipti vísað á takmarkað fé framkvæmdasjóðsins án einnar einustu krónu í aukningu á fjármagni milli ára.

Ég bendi einnig á að áætla má að um 4-5% þjóðarinnar eða 10-12 þús. einstaklingar þurfi á að halda stöðugri aðstoð vegna fötlunar sinnar og um 12% þurfa einhverja aðstoð. Því má áætla að ekki færri en 15-20 þús. manns eigi mikið undir því að skilningur stjórnvalda ríki í málefnum fatlaðra og að löggjöf sé framfylgt sem á að tryggja réttindi þeirra og sjóðir fatlaðra séu ekki svo gífurlega skertir sem raun ber vitni. Hér er vart um minni hóp að ræða en rétt á samkvæmt lögum um málefni aldraðra. Framkvæmdasjóður aldraðra fær nú 55% hækkun á sínu framkvæmdafé. Því ber að fagna. En þörf fatlaðra er ekki síður brýn en aldraðra og fatlaðir eiga eins og aldraðir mikið undir því komið að stjórnvöld og fjárveitingavaldið sýni skilning á málefnum þeirra. Því hef ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur flutt hér brtt. sem felur það í sér að hækka framlög í Framkvæmdasjóð fatlaðra úr 80 millj. í 125 millj., en það er sama upphæð og þessa dagana er verið að samþykkja á hv. Alþingi til hækkunar á framkvæmdafé í Framkvæmdasjóð aldaðra.

Að síðustu mæli ég fyrir brtt. á þskj. 298 um að aukið verði framlag til aðgerða gegn fíkniefnum úr 1 millj. í 5 millj. kr. Um þessa tillögu þarf ekki að hafa mörg orð því að ógnvekjandi afleiðingar fíkniefnaneyslu ættu öllum að vera ljósar.

Ég minni á að Alþingi samþykkti tillögu 20. des. 1983 um skipulagðar aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu. Um var að ræða þál. frá 20. des. 1983, um skipulegar aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna. Í framhaldi af þessari ályktun Alþingis var starfshópi falið það verkefni að gera tillögur um úrbætur á sviði tolla- og löggæslu sem nauðsynlegar væru til að fyrirbyggja dreifingu og innflutning fíkniefna. Starfshópurinn skilaði ítarlegum tillögum um ýmsar aðgerðir í þessu skyni, en ljóst er að skortur á fjármagni kemur í veg fyrir að hægt sé að hrinda mörgum af þeim brýnu verkefnum í framkvæmd.

Ég verð að segja að það vekur furðu að stjórnvöld skuli aðeins beita sér fyrir 1 millj. kr. framlagi til aðgerða gegn fíkniefnum. Ég fullyrði að það er sparnaður í því fólginn að veita verulegu fjármagni til þessara mála. Að öðrum kosti munu afleiðingar fíkniefnaneyslu koma fram í auknum útgjöldum vegna félags- og heilbrigðismála á komandi árum.

Víst viðurkenna allir að aðhalds er þörf í ríkisfjármálum, en fjárveitingar í forgangsröðun verkefna hjá stjórnarflokkunum eru oft mjög furðulegar svo að ekki sé meira sagt. 40 millj. kr. er hægt að fleygja úr ríkiskassanum í áfengisútsölu, en á sama tíma er ríkissjóður ekki aflögufær nema um 1 millj. kr. til aðgerða gegn fíkniefnum.

Hæstv. menntmrh. sat fyrir svörum hjá ungu fólki í sjónvarpi á dögunum, ungu fólki sem miklar áhyggjur hafði af ört vaxandi vandamálum vegna neyslu fíkniefna. Hæstv. ráðh. sagði við það tækifæri að ekkert mætti til spara til að sporna gegn þessum vágesti. Þessi orð menntmrh. skulu vera mín lokaorð við þessa umræðu. Hér má ekkert til spara. Skora ég á þm. að hafa skilning á þessu máli og samþykkja hækkun á framlögum vegna aðgerða í fíkniefnamálum.