20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

1. mál, fjárlög 1986

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Vísast eru þau fjárlög, sem hér eru til 3. umr., ekki þeirrar gerðar að þau muni standast tímans tönn, eins og fram hefur komið í máli fjölmargra ræðumanna sem á undan mér hafa talað. Það má því vera að til lítils sé að flytja brtt. við þau drög að fjárlögum sem hér liggja fyrir, en þó höfum við þingkonur Kvennalistans ekki geta setið hjá aðgerðarlausar og horft á hvert þjóðþurftarmálið skorið niður og við nögl. Því flytjum við allnokkrar brtt. við þetta fjárlagafrv. og vil ég taka fram að tillögur eru aðeins gerðar um albrýnustu málin. Það er fjöldamargt fleira sem við hefðum viljað sjá ofar á listanum í þessu fjárlagafrv., en því verður ekki gerð tæmandi skil nú.

Ég mæli fyrst fyrir brtt. á þskj. 357, sem er borin fram af þingkonum Kvennalistans, um hækkun á framlagi ríkisins til byggingar dagvistarheimila fyrir börn úr 40 millj. kr., sem er smánarleg upphæð, í þær 128 millj. kr. sem er sú lágmarksupphæð sem þarf til að mæta umsóknum sveitarfélaganna í þessu efni. Í þessum málum er þörfin knýjandi og sívaxandi, ekki síst vegna þess að framlög til dagvistarheimila barna hafa lækkað um 20% að raungildi á síðustu tveimur árum.

Á síðasta þingi lögðum við Kvennalistakonur fram frv. til l. um átak í dagvistarmálum barna. Þar var gert ráð fyrir að á ári hverju yrði veitt úr ríkissjóði upphæð sem nemur a.m.k. 0,8% af A-hluta fjárlaga til byggingar dagvistarheimila fyrir börn. Miðað við niðurstöðutölu A-hluta fjárlaga árið 1985 hefði í ár verið um að ræða upphæð sem nemur 208 millj. kr. Forsendur þessa frv. voru m.a. þær að við gerð kjarasamninga Alþýðusambands Íslands í október 1980 samdi ríkisstj. um að þörf fyrir dagvistarþjónustu barna skyldi fullnægt á næstu tíu árum. Með bréfi dags. 26. mars 1981 skipaði menntmrh. nefnd til að gera tíu ára áætlun um uppbyggingu dagvistarheimila í landinu. Nefndin, sem lauk störfum í apríl árið 1982, lagði fram umbeðna áætlun byggða á tveimur mismunandi forsendum fyrir þörf á dagvistarrými og komst að þeirri niðurstöðu að árlega þyrfti að veita úr ríkissjóði 30 millj. kr. miðað við forsendu 1, en 50 millj. kr. miðað við forsendu 2 til að því markmiði í byggingu dagvistarheimila sem samið var um árið 1980 yrði náð.

Tillögur nefndarinnar um upphæð fjárveitinga voru miðaðar við byggingarvísitölu. Samkvæmt framreikningi Þjóðhagsstofnunar ættu 30 millj. að vera orðnar 113,7 millj. og 50 millj. orðnar 189,4 millj. í janúar 1986. Það er sem sagt á bilinu 114-190 millj. kr. sem hefði átt að veita á fjárlögum ársins 1986 til byggingar dagvistarheimila hefði verið staðið við kjarasamningana frá 1980.

Þess í stað höfum við á því fjárlagafrv. sem fyrir okkur liggur upphæð til þessara mála upp á 40 millj. kr. Það er sem sagt ekki nóg að tvær ríkisstjórnir hafi þverbrotið það sem um var samið í kjarasamningunum 1980 heldur hefur í engu verið tekið tillit til þess frv. um átak í dagvistarmálum barna sem á síðasta þingi var vísað til ríkisstj. með því fororði að taka tillit til þessara mála við næstu fjárlagagerð. Þau tilmæli meirihlutamanna í Ed. eru að engu höfð í því fjárlagafrv. sem við ræðum hér og kemur mér ekki á óvart því að sú ríkisstj. sem nú situr hefur ekki gert annað en að lækka að raungildi framlög til þessara mála jafnt og þétt allan sinn stjórnartíma.

Jafnframt er ljóst að því fer fjarri að þörf fyrir dagvistun barna hafi minnkað á þeim árum sem hér um ræðir. Þvert á móti hefur þörf á dagvistarrými aukist svo umfram framboð sökum núverandi efnahagsástands að neyðarástand hefur skapast í þessum efnum. Við núverandi efnahagsástæður og þann óheyrilega langa vinnutíma sem flestum vinnufærum Íslendingum er boðið upp á hafa feður og mæður lítinn tíma afgangs fyrir börn sín. Skyldu hv. þm. nokkurn tíma hugsa um hvar börnin eru á meðan foreldrarnir eru að vinna?

Ástandið var þannig í þessum málum fyrir rúmu ári að þá var rúm fyrir 43,5% barna á landinu á aldrinum sex mánaða til fimm ára á dagvistarheimilum. Þar af voru 34,6% á leikskólum, sem bjóða aðeins fjögurra stunda fóstrun á dag, en aðeins 8,9% á dagheimilum. Á skóladagheimilum landsins var rúm fyrir 377 börn eða 1,5% barna á aldrinum 6-11 ára. A meðan rúmlega 80% kvenna og yfir 90% karla eru úti á vinnumarkaðnum er þetta raunveruleikinn. Jafnvel þótt ekki sé tekið mið af núverandi efnahagsástandi, sem kallar foreldra til vinnu utan heimilis án tillits til barna, er það grundvallaratriði í baráttu fyrir jafnri stöðu karla og kvenna á vinnumarkaðnum að öllum foreldrum standi dagvistarþjónusta fyrir börn til boða, að foreldrar geti sjálfir valið hvort börn þeirra sækja dagvistarheimili en að ríkið velji ekki fyrir þá eins og nú er. Því höfum við Kvennalistakonur lagt til á þskj. 357 að sinnt verði beiðnum sveitarfélaganna um framlög til byggingar dagvistarheimila og þau hækkuð úr þeim 40 millj. kr., sem í fjárlagafrv. eru, í 128 millj. kr.

Hv. alþm. ætti að vera ljóst að við svo búið má ekki lengur standa í dagvistarmálum barna. Það er ábyrgðarhlutur okkar, sem sitjum á hv. Alþingi, að sjá til þess að hér verði ráðin bót á og aflétt því neyðarástandi sem nú ríkir í þessum málum. Ég skora því á hv. þm. að kanna nú grannt hug sinn til þessara mála og veita þessu máli liðsinni sitt.

Á þskj. 357 er einnig till. frá þingkonum Kvennalistans um 100% hækkun á framlögum til listrænnar starfsemi í landinu, þ.e. listrænnar starfsemi sem er að finna í lið 02 982 í 4. gr. frv. Þannig er nú málum háttað hér á landi að handhafar framkvæmdavalds tala sjaldan um list. Það er þá ekki nema við hátíðleg tækifæri þegar þeim verður orða vant að gripið er til þess neyðarúrræðis að segja fáein orð um listir. Hér innan þessara veggja fer ekki fram umræða um gildi listrænnar starfsemi fyrir íslenskt þjóðlíf, hvað þá heldur umræða um nauðsyn þess að ríkisvaldið styrki slíka starfsemi. Fjárveitingar ríkisins til listrænnar starfsemi koma helst til umræðu þegar skera þarf niður fjárlög. Er eins og menn haldi að niðurskurður á því sviði breyti einhverju, sem skiptir máli, um niðurstöður ríkisfjármálanna.

Staðreyndin er sú að íslenska ríkið veitir ótrúlega lágum fjárhæðum til listrænnar starfsemi, svo lágum að hliðstæður er varla hægt að finna meðal vestrænna þjóða. Er þá auðvitað miðað við hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins.

Það mætti ætla að íslenska ríkið hefði aukið framlög sín til lista í samræmi við þá miklu grósku sem ríkt hefur hér á landi á þessu sviði á síðustu árum. Því er hins vegar ekki að heilsa. Þvert á móti hafa framlög ríkisins, ef eitthvað er, rýrnað. Samkvæmt þeim fjárlögum, sem nú eru til umræðu, ætlar ríkisstj. að veita af rausn sinni sem nemur um 0,7% af heildarútgjöldum ríkisins til listrænnar starfsemi.

Staðreyndin er því sú að íslenskri listastarfsemi er í síauknum mæli haldið uppi af sjálfboðavinnu útpískaðra listamanna sem hafa ofan í sig og á með því að vinna í alls kyns óskyldum störfum, svo sem auglýsingagerð og prófarkalestri. Er varla við að búast að íslenskir listamenn verði til stórræðanna, hvað þá heldur samkeppnishæfir á erlendum vettvangi, ef svo heldur áfram.

Áhugaleysi stjórnvalda á þessu sviði íslensks mannlífs hefur einnig þær alvarlegu afleiðingar í för með sér að menningarfjandskapur hvers konar og virðingarleysi fyrir gildi listanna á auðveldara með að ná fótfestu meðal þjóðarinnar en ella væri. Þetta menningarhatur hefur náð svo langt að ungliðasamtök stærsta stjórnmálaflokks landsins virðast vera gengin þessu hatri á hönd. Á ég þar við fræga tillögu Sambands ungra sjálfstæðismanna um það hvernig megi bjarga þjóðinni með því að skera niður allar fjárveitingar til lista og til mannúðarstarfsemi hvers konar.

Það ætti að vera okkur, sem hér sitjum, verulegt áhyggjuefni að virðingarleysi fyrir listum og menntum er komið á þetta stig meðal ýmissa hópa samfélagsins. Ef einhver dirfska býr á meðal hv. þm. ættu þeir að ganga á hólm við slík sjónarmið með því að efla þá sjóði sem styrkja skapandi listir og efla þar með frjálsa hugsun og víðsýni meðal þjóðarinnar. Að því miðar sú till. okkar Kvennalistakvenna að auka framlög til ýmiss konar listastarfsemi í landinu, þ.e. liðurinn 02 982, um 100% eða um 61 368 þús. kr. Teljum við að með minna verði ekki af komist í þessum efnum. Til að setja þessa upphæð í talnasamhengi vil ég benda hv. þm. á að 61 millj. kr. er vel innan við helmingur þeirrar upphæðar sem ríkið mun fá í sinn sjóð á næsta ári í söluskatt af bókum. Áætlað er að sköpunarstarf rithöfunda muni skila ríkinu um 150 millj. kr. í söluskattstekjur á næsta ári.

Virðulegi forseti. Þær fjárveitingar, sem nú eru ætlaðar til lista, minna frekar á syndakvittanir en fastmótaða stefnu. Þær endurspegla skilningsleysi stjórnvalda á samfélagslegu gildi listanna og þær opinbera áhugaleysi ráðamanna á því að efla frumlega hugsun á meðal landsmanna.

Flestum okkar er orðið ljóst gildi rannsókna og nýsköpunar í raunvísindum fyrir efnahag þessarar þjóðar. En mönnum virðist enn ekki vera orðið ljóst gildi nýsköpunar í hugvísindum og listum fyrir bæði andlega velferð þjóðarinnar og eins fyrir efnahagslega velferð hennar því að án nýsköpunar á huglæga sviðinu verður ekki um að ræða neinar framfarir á því efnahagslega. Við þurfum ekki annað en líta í sögu vísindanna til að sjá þessa staðreynd blasa við og við þurfum ekki annað en líta til nágrannaþjóðanna til að sjá að stjórnvöld þar hafa á þessari staðreynd þroskaðri skilning en stjórnvöld hér.

Það er á ábyrgð stjórnvalda á hverjum tíma að móta mannúðlega menntastefnu sem hefur þann megintilgang að örva hvern og einn landsmann til skapandi hugsunar og auðvelda fólki þannig að opna hug sinn fyrir nýjum hugmyndum og nýjum sjónarhornum. Slík stefna mundi einnig vera mótvægi við það innihaldslausa fóður sem í síauknum mæli er dengt inn í vitund landsmanna, ungra sem aldinna, með hjálp dagblaðaskrums og gegndarlauss auglýsingafárs í sjónvarpi og hljóðvarpi. Það ætti því að vera hv. þm. metnaðarmál að móta slíka stefnu áður en það verður um seinan. En sem fyrsta skref í þá átt og til að sýna vilja í verki ættum við að sjá til þess að sjóðir til nýsköpunar í listum og vísindum verði efldir svo að um muni. Þegar til lengdar lætur mundi slíkt skref efla virðingu þjóðarinnar fyrir listum og vísindum og einnig fyrir þeim hv. þm. sem þessa bekki sitja og eru ekki margir þegar þessi orð eru mælt af munni fram.

Virðulegi forseti. Ég mæli einnig fyrir till., sem er að finna á þskj. 345 og ég flyt ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Kristínu Halldórsdóttur, Kristínu S. Kvaran, Guðrúnu Helgadóttur og Guðrúnu Agnarsdóttur, þess efnis að 1 millj. kr. verði á næsta ári varið til að styrkja þann frjóa en fjársvelta vísindavettvang sem kvennarannsóknir hér á landi eru.

Þegar þessari till. var dreift á borð hv. þm. í gær kom í ljós að sumir hv. þm. vissu ekki hvað kvennarannsóknir voru, töldu jafnvel að flm. hefðu farið ráðuneytavillt við gerð till., hún ætti heima hjá heilbr.- og trrn., t.d. undir liðnum „Borgarspítali“, því að hér hlyti að vera um að ræða læknisfræðilegar rannsóknir á konum. Þessi viðbrögð hv. þm. sýna e.t.v. best hversu ósýnileg vinna kvenna er körlum og við hversu ramman reip er að draga í þessum efnum, þar á meðal í svonefndum kvennarannsóknum. Hv. þm. vita einfaldlega ekki hvað er á ferðinni þegar þetta orð birtist þeim á þingskjali. Þeir vita ekki að kvennarannsóknir eru rannsóknir sem konur vinna að. Það eina sem þeim dettur í hug þegar þeir sjá orðið eru rannsóknir á einhverju sem lýtur að líkömum kvenna.

Til þess að taka af allan vafa um það hvað hér er á ferðinni er mér ljúft og skylt að útskýra í fáeinum orðum hvað átt er við með kvennarannsóknum. Kvennarannsóknir eru í stuttu máli hvers konar vísindalegar rannsóknir sem konur stunda og sem annaðhvort beinast að konum á einhvern hátt, t.d. rannsóknir á sögu kvenna eða rannsóknir á bókmenntum eftir konur, eða þá byggjast á ákveðnum kvenlegum viðhorfum, ef svo má segja, þótt rannsóknin sjálf beinist ekki endilega að konum. Sem dæmi um það síðarnefnda má t.d. nefna rannsóknir kvenna á Biblíunni út frá kynbundnum trúarhugmyndum, öðrum nafni kvennaguðfræði.

Á öllum sviðum fræða og vísinda eru konur nú að þreifa sig áfram með nýjar og skapandi rannsóknir af þessu tagi. Þær eru nýjar og skapandi vegna þess að til þeirra bera konur reynslu sína, vitund og lífssýn, en ekkert af þessu hefur áður verið mótandi á nokkru rannsóknasviði.

Fræðilegar rannsóknir hafa fram á síðustu ár verið einkavettvangur karla. Þeir hafa valið viðfangsefnin, mótað rannsóknaraðferðirnar og þau hugtök sem unnið er með og út frá. Þau viðhorf, sjónarhorn og sá skilningur, sem konur eru nú í fyrsta sinn í aðstöðu til að bera inn í fræðigreinarnar vegna stóraukinnar menntunar kvenna á undanförnum árum, hafa víða verið sem frjóvgandi regn á gróðurmold. Upp hafa sprottið nýjar hugmyndir, ný viðfangsefni, nýjar aðferðir og nýjar niðurstöður sem stundum varpa nýju ljósi á fræðigreinina alla, hvetur fræðimenn til að leita nýrra svara og hvetur þá til nýrra dáða. Það á við um þá fræðigrein sem ég þekki gerst, mannfræðina, þar sem kvennarannsóknir eru viðurkenndar sem einn helsti vaxtarbroddur greinarinnar á undanförnum árum. Svo mun einnig vera um fleiri fræðigreinar þótt ekki sé það alls staðar viðurkennt.

Kvennarannsóknir eiga sér töluverða sögu í nágrannalöndum okkar, en hér á landi hefur fram undir síðasta ár lítið farið fyrir þeim. Þó hafa íslenskar fræðakonur sinnt þessum hluta fræða sinna eftir bestu getu en við bágar aðstæður og stundum gríðarlega vantrú og vanmat starfsbræðra sinna. Hefði því að óreyndu mátt búast við að í íslenskum kvennarannsóknum væri ekki um auðugan garð að gresja. Hins vegar brá svo við að þegar farið var á stúfana fyrir u.þ.b. ári síðan og athugað hvernig þessum málum væri í raun háttað kom í ljós að ótrúlega margar fræðakonur höfðu ýmislegt fram að færa á þessu rannsóknarsviði. Var þeim stefnt saman til ráðstefnu og var fyrsta ráðstefnan um íslenskar kvennarannsóknir haldin með miklum glæsibrag í Háskóla Íslands dagana 29. ágúst til 1. september s.l. Þar fluttu 26 fræðikonur erindi í eftirtöldum fræðigreinum: bókmenntafræði, sagnfræði, lögfræði, landafræði, lífeðlisfræði, fjölmiðlafræði, guðfræði, stjórnmálafræði, uppeldis- og sálarfræði, afbrotafræði, mannfræði, hjúkrunarfræði og erfðaverkfræði.

Aðsóknin að ráðstefnunni sló öll ráðstefnumet, en á annað þúsund manns, aðallega konur á öllum aldri. og úr fjölmörgum starfsgreinum, sóttu ráðstefnuna. Erindi, sem flutt voru á ráðstefnunni, voru gefin út fjölrituð á bók, sem nefnd var Íslenskar kvennarannsóknir, og seldist sú bók upp á ráðstefnudögunum og er nú ófáanleg. Það er því ljóst að áhugi á íslenskum kvennarannsóknum er gríðarlegur. Það er einnig ljóst að á þeim vettvangi er að finna mikinn kraft, hæfni og vilja til stórra verka. Spurningin er: Erum við tilbúin að veita nokkru af almannafé til að skapa lífvænleg skilyrði fyrir þessi fræði?

Sú 1 milljón sem við sem að þessari till. stöndum leggjum til að veitt verði til þessara mála er vitaskuld ekki mikið, ekki einu sinni ein árslaun ráðuneytisstjóra. En þessir peningar skipta máli fyrir þær félitlu vísindakonur sem þarna eiga í hlut. Fyrir þær gildir það sama og fyrir flesta aðra vísindamenn hér á landi sem rannsóknir vilja stunda. Margt smátt gerir eitt stórt og hver króna, sem fæst til þessara hluta, skiptir máli. Að auki yrði sérstök fjárveiting til kvennarannsókna, eins og hér er verið að leggja til, mikilsverð viðurkenning á þeim rannsóknum og því ómetanleg hvatning og styrkur þeim vísindakonum sem í hlut eiga.

Virðulegi forseti. Baráttan fyrir jöfnum rétti kvenna og karla til náms var bæði löng og ströng og víst er að aðstæður kvenna til framhaldsnáms eru enn þann dag í dag í ófáum tilfellum lakari en pilta. Þó hefur mikið áunnist í þessum efnum á undanförnum áratugum og árangurinn lætur ekki á sér standa. Sókn kvenna inn á svið grunnrannsókna í öllum helstu fræðigreinum er aðeins rökrétt framhald af almennt aukinni menntun kvenna og var vísast fyrirsjáanleg á sínum tíma.

Það sem enginn sá hins vegar fyrir var að konurnar fluttu með sér annan skilning, aðra reynslu og aðra veruleikasýn inn í vísindin sem kallaði á nýja tegund rannsókna, ný viðfangsefni og endurmat og endurnýjun fræðigreinanna. Nú hefur þessi sproti skotið rótum í íslenskum jarðvegi og það er okkar, sem hér sitjum, að leggja okkar af mörkum til að búa honum lífvænlegt umhverfi. Því er þessi till. hér fram borin.

Virðulegi forseti. Að lokum fáein orð um framlag okkar til þróunaraðstoðar. Það kom eins og reiðarslag yfir allmarga hv. þm. þegar till. þess efnis að skera niður framlög okkar til matvæla- og neyðaraðstoðar við bágstaddar þjóðir heimsins var samþykkt við 2. umr. þessa fjárlagafrv. Við þetta verður ekki unað og því hafa Kvennalistaþingkonur lagt til á þskj. 408 að upphafleg tala fjárlagafrv., 11 800 þús. kr., standi óbreytt þótt sannarlega sé hún ekki rausnarleg.

Jafnframt leggjum við til að Þróunarsamvinnustofnun Íslands fái þær 46 446 þús. kr. sem henni ber að lágmarki ef farið væri eftir þeirri þáltill. um þróunaraðstoð Íslands sem Alþingi samþykkti samhljóða fyrir fáeinum mánuðum síðan.

Ég tek það fram að hér er um lágmarksaukningu á þessum framlögum að ræða og má ekki minna vera ef Alþingi er í mun að standa að nafninu til við samþykktir sínar. Ég skora því á hv. þm. að skoða nú grannt hug sinn til þessara mála. Rökin fyrir aðstoð okkar við sveltandi og hrjáðar þjóðir hafa öll heyrst hér í þingsölum á umliðnum mánuðum. Það sem eftir er að færa sönnur á er hjartalag hv. þm. - [Fundarhlé].