20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

1. mál, fjárlög 1986

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nokkrum brtt. við fjárlög. Sú fyrsta, sem ég mæli fyrir, er flutt auk mín af Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur, þingkonum Kvennalistans, og er á þskj. 357 undir lið II, 3. atriði.

Á síðasta þingi fluttu þm. Kvennalista þáltill. þar sem hvatt var til þess að komið verði á kerfisbundinni leit að brjóstakrabbameini hjá konum með röntgenmyndatöku af brjóstum, mammografíu, eins fljótt og unnt er. Till. þessi var samþykkt s.l. vor. Um er að ræða hópskoðun á öllum íslenskum konum í ákveðnum aldurshópum, t.d. 40-69 ára, á tveggja ára fresti.

Brjóstakrabbamein er algengasti illkynja sjúkdómur meðal kvenna og tíðnin eykst stöðugt. Á Íslandi greinast nú um 70-90 konur á hverju ári með þennan sjúkdóm og þrettánda hver kona getur búist við því að fá hann á lífsleið sinni. Á hverju ári deyja um 25 konur af brjóstakrabbameini.

Til þess að bætt tækni við meðferð síðustu áratuga megi nýtast til fullnustu verður að finna æxlið meðan það er enn lítið um sig og hefur ekki náð að breiðast út um líkamann. Öruggasta aðferðin til að finna slík æxli á byrjunarstigi er einmitt röntgenmyndataka af brjóstum. Nýjar rannsóknir í Svíþjóð með þessari tækni sýna lækkun á dánartíðni kvenna allt að 31% á átta ára rannsóknartímabili. Þetta eru niðurstöður sem ekki er hægt að líta fram hjá. Samkvæmt þeim má draga þá ályktun að árlegum dauðsföllum hérlendis vegna þessa sjúkdóms mundi fækka um átta þegar hópskoðun væri farin að bera árangur.

Það er ekki bara álitamál í mínum huga hve lengi má bíða með að fjármagna slíka hópskoðun. Það er beinlínis ábyrgðarhluti. Tæki til skoðunar hafa þegar verið gefin, húsnæði verið lagt til af hálfu Krabbameinsfélagsins. Það sem á vantar er fyrst og fremst fjármögnun rekstrarkostnaðar, en áætlað er að hann muni nema um 700 kr. á hvern einstakling sem fer í skoðun. Lætur nærri að það jafngildi rekstri um fimm sjúkrarúma á ári.

Það orkar ekki tvímælis að með því að greina snemma krabbamein í brjósti kvenna er unnt að bjóða þeim upp á vægari, mannúðlegri og árangursríkari meðferð. Róttækar og lýtandi skurðaðgerðir geta haft djúpstæð sálræn áhrif auk eðlilegs ótta við sjúkdóminn og dauðann. Það hefur því ekki einungis áhrif á lífslíkur ef sjúkdómur uppgötvast seint heldur beinlínis á gæði og gleði þess lífs sem konan á fyrir höndum. Við höfum því lagt til að auka fé til Krabbameinsfélagsins þannig að því verði gert kleift að hefja þessa hópskoðun sem fyrst. Til þess höfum við gert breytingu við 4. gr., lið 08 399 131, Krabbameinsfélag Íslands, en þar höfum við lagt til að hækkun verði um 10 millj. kr. og ætti það að duga til þess að hleypa þessari hópskoðun af stað.

Ég vil ítreka það við hv. þm. að hér er um að ræða mikið velferðar- og réttlætismál.

Í öðru lagi mæli ég hér fyrir brtt. á þskj. 389, þ.e. brtt. við 4. gr. 06 238, Dómstóll og rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum. Þessi brtt. er flutt auk mín af hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur. Þar er um að ræða hækkun á þessum lið sem ég áður greindi, fyrir 3228 þús. kemur 4700 þús.

Sá vandi, sem aukin neysla ávana- og fíkniefna hefur fært einstaklingum, fjölskyldum og stjórnvöldum, krefst margvíslegra lausna. Úrbætur á aðhlynningu þeirra sem þegar hafa orðið fíkniefnaneyslu að bráð hafa þegar verið gerðar eða eru í augsýn. Neyðarathvarf hefur verið opnað hér í nágrenninu á vegum Rauða krossins og hæstv. heilbrrh. hefur nýlega tilkynnt um makaskipti á húsnæði ríkis og borgar fyrir unglingageðdeild við Dalbraut.

Sá vandi, sem virðist vera einna brýnastur nú, er að koma í veg fyrir innflutning og dreifingu fíkniefna að svo miklu leyti sem það er hægt. Samkvæmt upplýsingum frá Arnari Jenssyni lögreglufulltrúa fíkniefnadeildarinnar er ekki nægur fjöldi lögreglumanna til þess að vinna að öllum þeim upplýsingum sem embættinu berast og þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna. Enn fremur er mikil nauðsyn fyrir sérstaka rannsóknarlögreglumenn að geta einbeitt sér að langtíma verkefnum. Það eru venjulega hin stærri mál. Þetta er ekki unnt vegna fámennis og aðstöðuleysis.

Þeir sem nú vinna að rannsókn fíkniefnamála eru ofhlaðnir verkefnum og þurfa að sinna gífurlegri aukavinnu. Það er algengt að þeir þurfi að vinna allt að 200 klst. í mánuði.

Starfshópur til að skipuleggja lögreglu- og tollgæsluaðgerðir á sviði fíkniefna sendi dómsmrh. tillögur sínar til úrbóta á s.l. sumri. Þar er ítrekuð mannfæð þeirra deilda sem aðallega fást við eftirlit og rannsóknir fíkniefnamála, en tillögur þær, sem nefndin gerði, eru:

1. Í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík starfi ekki færri en fjórir fastir rannsóknarlögreglumenn, átta lögreglumenn er komi tímabundið til starfa í deildinni

en fari síðan til starfa í almennri löggæslu og aðrir taki við, tveir menn er stjórni leitarhundum og einn lögreglufulltrúi. Er með þessu óskað eftir sex viðbótarmönnum.

2. Í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli starfi tveir lögreglumenn að fíkniefnarannsóknum og er óskað eftir einum viðbótarmanni.

3. Við rannsóknardeildir lögreglunnar í Kópavogi, í Hafnarfirði og á Akureyri starfi einn rannsóknarlögreglumaður í hverri deild sem hafi fíkniefnarannsóknir að aðalstarfi. Væntanlega þarf að bæta við einum manni á hverjum stað vegna þessa. Rannsóknarlögreglumennirnir í Kópavogi og Hafnarfirði vinni með rannsóknardeildinni í Reykjavík þannig að Reykjavíkursvæðið myndi eina heild.

4. Lögreglumaður annist reglulegar ferðir um landið til að kynna öllum lögreglumönnum rannsóknir fíkniefnamála. Jafnframt sinni hann almenningstengslum um fíkniefni.

5. Hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli starfi á hverri vakt tollvörður sem sérhæfður sé í fíkniefnaeftirliti.

Ég tel mjög brýnt að komið verði til móts við þessar . tillögur og besta leiðin til að koma í veg fyrir aukna neyslu fíkniefna er auðvitað að minnka framboð á þessum efnum og forða því að nýir neytendur bætist í hópinn. Við verðum að beina kröftum okkar að þeim verkefnum nú því að á skal að ósi stemma.

Við þm. Kvennalista höfum ekki gengið svo langt í brtt. okkar að koma fyllilega til móts við óskir fíkniefnalögreglunnar, en gerum þó ráð fyrir a.m.k. tveimur nýjum stöðugildum í tillögum okkar og teljum það skref í rétta átt.

Ég þarf ekki að lýsa fíkniefnavandanum fyrir hv. þm., svo mikið hefur verið um hann rætt bæði hér í þingsölum og úti í þjóðfélaginu. Öllum ógnar sá vandi og víst er að allir vildu sjá á bak honum. Til þess að svo geti orðið verðum við að taka á málum og veita til þess nauðsynlegu fjármagni. Hér er einungis farið fram á hluta þess fjármagns sem til þarf. Minna getur það varla orðið og ég hvet hv. þm. til þess að styðja þessa brtt.

Ég vil síðan mæla fyrir brtt., herra forseti, á þskj. 389 sem einnig er flutt af hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur auk mín og varðar Námsgagnastofnun. Það er við 4. gr., liður 02 422. Þeir liðir, sem við leggjum til að hækki, eru liður 1.20, Framleiðsludeild, úr 58 336 þús. í 60 336 þús. og liður 1.60, Námsefnisgerð, þar sem í stað 5929 þús. koma 7929 þús.

Sú hækkun, sem við leggjum til, miðar fyrst og fremst að því að fjármagna námsgögn fyrir sex ára börn. Nú munu u.þ.b. 97% sex ára barna sækja grunnskóla. Skólatími þeirra hefur lengst verulega og er nú allt að 20 tímar á viku. Jafnframt hafa kröfur um námsefni af ýmsu tagi aukist verulega og er nú þegar unnið að ýmsum verkefnum samkvæmt tillögum nefndar á vegum menntmrn. um yngri barna kennslu. Æskilegt væri að gefa skólum kost á því að taka efni þetta af kvóta sínum hjá stofnuninni eins og er með annað efni, enda oft erfitt að meta hvort námsefni henti betur sex, sjö eða átta ára nemendum þar sem víða er um blandaða aldurshópa að ræða. En mikilvægt er að tryggja nemendum í forskóla jafnan aðgang að námsefni.

Sex ára börn munu vera um 6 þús. talsins á landinu og menntmrn. áætlar kostnað á hvern nemanda til jafnaðar um 1910 kr. Heildarfjárþörf mun því nema 7640 þús. eða tæpum 8 millj. kr. Við þm. Kvennalista höfum með þessum till. okkar til hækkunar verið bæði raunsæjar og hógværar þar sem við leggjum í raun til að sú hækkun, sem nauðsynleg væri til að sinna að fullu þörfum allra sex ára barna, sé tekin í tveimur áföngum, þ.e. helmingur á þessu ári og helmingur síðar. Minna má það tæplega vera og ég vil leggja áherslu á það við hv. þm. að lengi býr að fyrstu gerð.

Herra forseti. Ég vil næst mæla fyrir brtt. sem er á þskj. 357 og varðar kvennaathvarf í Reykjavík. Það er brtt. við 4. gr., 07 999, 1.40. Samkvæmt fjárhagsáætlun Samtaka um kvennaathvarf mun rekstur athvarfsins og húsnæðis þess að frádregnum sértekjum kosta um 4 millj. 658 þús. kr. á árinu 1986. Þar sem erfiðlega hefur gengið að fá stuðning sveitarfélaga, með nokkrum undantekningum þó, fara samtökin nú fram á að 70% rekstrarkostnaðarins komi af fjárlögum. Eftir sem áður hyggjast samtökin þó leita eftir stuðningi sveitarfélaga, aðallega á Suðvesturlandi, til að greiða 30% rekstarkostnaðar, 1 millj. 397 þús. kr.

Athugun á starfsemi kvennaathvarfsins, sem gerð var af Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðingi, leiddi í ljós að mikil aukning varð á aðsókn í athvarfið milli áranna 1983 og 1984. En í fyrra komu þangað 178 konur og 137 börn. Meðaldvalartími kvennanna var 11,5 dagar, en um 70% þeirra dvöldust 7 daga eða skemur og tæplega 50% einn og tvo daga. Að meðaltali dvöldust 5,6 konur og 6,2 börn í athvarfinu á degi hverjum. Það sem af er þessu ári hefur fjöldinn verið svipaður, en þó ívið minni.

Fjárhagsáætlunin er miðuð við óbreyttan rekstur á næsta ári, þ.e. 6,5 stöðugildi, en athvarfið er opið allan sólarhringinn. Einu tekjur athvarfsins eru daggjöld sem dvalarkonur greiða fyrir fæði og húsnæði. Ekkert er greitt fyrir börn. Daggjaldið hefur verið óbreytt þetta ár en hækkar nú um mánaðamótin í 250 kr. Vegna niðurskurðar á fjárbeiðnum samtakanna þetta ár hefur ekki reynst unnt að framkvæma nauðsynlegt viðhald og endurbætur á húsnæði athvarfsins og er sá liður því enn mjög hár í fjárhagsáætluninni eða um 645 þús. Eigið fé samtakanna frá myndarlegri fjársöfnun árið 1983 er nú uppurið og að hluta bundið í húsbyggingu í Reykjavík sem ákveðið hefur verið að selja til að samtökin geti staðið við skuldbindingar sínar vegna kaupa á húsnæði fyrir athvarfið sjálft og lána sem tekin voru í því skyni. Fjárhagsáætlun kvennaathvarfsins gerir einungis ráð fyrir rekstri neyðarathvarfs fyrir konur sem verða að flýja heimili sín vegna ofbeldis um lengri eða skemmri tíma. Kostnaður við rekstur samtakanna sjálfra er borinn uppi af félagsmönnum og styrktarmönnum.

Þessi starfsemi, sem margir héldu að ekki væri þörf fyrir í þjóðfélagi okkar, hefur þegar sannað tilverurétt sinn og er nú ómissandi. Sá samtakamáttur sem hóf þessa starfsemi og hefur síðan rekið hana af mikilli óeigingirni er lofsverður. Sú sjálfboðavinna sem þarna hefur farið fram er ómæld og hefur lyft grettistaki. Það er nauðsyn að starfsemi kvennaathvarfsins geti haldið áfram. Hún þjónar brýnni þörf samfélagsins. Því er eðlilegt að ríkissjóður beri hluta af rekstarkostnaði hennar.

Sú heildartala sem í fjárlögum stendur nú eru 2 millj. 34 þús. kr. og hefur þar verið steypt saman þeim tölum sem áætlaðar voru til kvennaathvarfsins á Akureyri sem nú hefur lokað og kvennaathvarfsins í Reykjavík. Fjárþörf Reykjavíkurathvarfsins er þó meiri og til að mæta henni höfum við gert tillögu um hækkun upp í 3 millj. og 260 þús. sem þó er ekki sú fjárhæð sem farið er fram á. Við höfum enn á ný verið hógværar í beiðnum okkar og ég vona að þm. taki tillit til þess og að þessi brtt. verði samþykkt.

Að síðustu, herra forseti, þá mun ég mæla fyrir brtt. á þskj. 357, sem er við 4. gr. lið 02-233 um Rannsóknasjóð. - Er hæstv. forsrh. mættur á fundinn eða er hann í húsinu? Ég hefði gjarnan viljað að hann hlustaði á mál mitt. (Gripið fram í: Fjmrh. er mættur.) En forsrh.? Er hann í húsinu? (Forseti: Það er verið að kanna það. Það er upplýst að hæstv. forsrh. er ekki í húsinu.) Þá vona ég að hæstv. forsrh. lesi mál mitt síðar.

Í desember á s.l. ári ákvað ríkisstj. að verja 50 millj. kr. í styrki til rannsókna og þróunarstarfsemi. Var þessu fé einkum ætlað að stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Þáv. hæstv. menntmrh. fól síðan Rannsóknaráði ríkisins að gera tillögur um og hafa umsjón með úthlutun þessa fjármagns. (Forseti: Ég vildi nú gjarnan biðja hv. þm. um að hafa örlítið hljóðar um sig, aðra en hv. ræðumann.) Rannsóknaráð ríkisins auglýsti eftir umsóknum um styrki í samræmi við reglur sem menntmrh. setti og rann umsóknarfrestur út 1. september s.l. Alls bárust 122 umsóknir og var heildarupphæð umsókna af fé ársins um 205 millj. kr., en áætlað var að heildarkostnaður rannsóknarverkefnanna, sem mörg standa í a.m.k. 2-3 ár, verði um 680 millj. kr. á núverandi verðlagi. Af umsóknum þessum reyndust 47 vera frá fyrirtækjum, 25 frá einstaklingum, en 16 frá einstökum opinberum stofnunum. Í 33 umsóknum var um að ræða samstarf stofnana og fyrirtækja eða einstaklinga. Umsóknirnar skiptust með eftirgreindum hætti á tegundir verkefna:

Upplýsinga- og tölvutækni. Það voru 38 umsóknir að upphæð 52,3 millj. kr.

Fiskeldi og skyld verkefni. 28 umsóknir að upphæð 36,7 millj. kr.

Orkunýting og efnistækni. 13 umsóknir að upphæð 14 millj. kr.

Matvælatækni. 11 umsóknir að upphæð 15,7 millj. kr.

Lífefna- og líftækni. 10 umsóknir að upphæð 61 millj. kr.

Framleiðni- og gæða aukandi tækni. 7 umsóknir að upphæð 5,7 millj. kr.

Bygginga- og mannvirkjatækni. 5 umsóknir að upphæð 6,9 millj. kr.

Síðan voru ýmis verkefni. Það voru 10 umsóknir að upphæð 12,7 millj. kr.

Stærstum hluta umsóknanna var vísað til faglegrar umsagnar sérfróðra aðila en síðan til sérstakrar matsnefndar sem Rannsóknaráð ríkisins skipaði. Þar sem fé var takmarkað við 50 millj. kr. var einungis hægt að sinna hluta þeirra umsókna sem bárust. Það er hins vegar fullljóst að sárlega skortir og hefur skort nægilegt fé til rannsókna á Íslandi og er það ekki bara skoðun þeirra, sem fást við rannsóknir hérlendis, heldur er það þegar farið að setja mark sitt á atvinnumál okkar. Á ársfundi Rannsóknaráðs ríkisins í febrúar s.l., þangað sem boðaðir voru fulltrúar fyrirtækja og atvinnuveganna, var það samdóma álit ræðumanna að stórauka þyrfti rannsóknir á Íslandi. Var þar bæði rætt um að tryggja verði fjármagn til grunnrannsókna án tillits til einstakra verkefna, en einnig væri afar mikilvægt að koma á fót verkefnabundinni fjármögnun til nokkurra ára í senn. Þó lögðu margir megináherslu á það að grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir verða ekki slitnar úr tengslum hvor við aðra og nær væri að tala um rannsóknir og hagnýtingu þeirra.

Athugun á íslenskum aðstæðum á vegum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, leiddi í ljós að Íslendingar verja mun minna fé til rannsókna af opinberu fé en flestar aðrar Evrópuþjóðir og sitjum við þar á bekk með þeim löndum sem skemmst eru á veg komin í Evrópu í þessum efnum og er það slæmt.

Nýlega barst Alþingi svohljóðandi áskorun frá 26 vísinda- og fræðimönnum sem ég vil lesa, með leyfi forseta:

„Við undirrituð viljum vekja athygli alþingismanna á eftirfarandi:

Á liðnum árum höfum við Íslendingar dregist aftur úr nágrannaþjóðum okkar í nýtingu þekkingar og nýrrar tækni. Þetta hefur leitt til stöðnunar í íslensku atvinnulífi. Fyrir ári beitti ríkisstjórn landsins sér fyrir stórmerku átaki þegar ákveðið var að verja á yfirstandandi ári 50 millj. kr. til rannsókna í þágu nýsköpunar í atvinnulífinu. Umsóknir í þennan rannsóknarsjóð sýndu ljóst hinn mikla fjölda góðra hugmynda sem virkja má til að efla íslenskt atvinnulíf. Sjóðurinn hefði þurft liðlega tvöfalt meira fé til að geta sinnt öllum álitlegum umsóknum.

Við undirrituð skorum því hér með á Alþingi og ríkisstjórn að veita á fjárlögum næsta árs 150 millj. kr. til hins nýja rannsóknarsjóðs.“

Undir þetta skrifa, eins og ég sagði áður, 26 einstaklingar og efstur á blaði er þar nýkjörinn háskólarektor, Sigmundur Guðbjarnason, sem einmitt skipaði sæti í þeirri matsnefnd sem fjallaði um þær umsóknir sem bárust um 50 millj. kr. styrk Rannsóknaráðs.

Samkeppnishæfni þjóða og möguleiki þeirra til að hagnýta sér þau tækifæri til nýsköpunar, sem vísindalegar uppgötvanir síðustu ára bjóða upp á, er ekki síst háð því hve sveigjanleg og reiðubúin stjórnvöld eru til að fjárfesta í menntun, endurmenntun og rannsóknarstarfsemi. Í stuttu máli að beina fjármagni í vaxandi mæli inn á nýja braut. Þekking og skilningur eru lífsgæði, lífsgæði sem eru í auknum mæli að verða markaðsvara nútímans og framtíðarinnar. Stjórnvöld verða að hafa vit á því að hefja landnám á þeim lendum þar sem framtíð þjóðarinnar mun liggja. Sá sem engu sáir uppsker heldur ekkert.

Ég vil því beina þessari tillögu sérstaklega til hv. þm. og biðja þá um að beita framsýni. Við höfum beðið um hækkun á þessu framlagi frá 50 millj. upp í 150 millj. eins og stungið er upp á í því bréfi sem Alþingi barst.

Herra forseti. Ég hef nú lokið að mestu að mæla fyrir þeim brtt., sem ég hugðist minnast á, en ég vil þó geta þess að ég er meðflm. að nokkrum öðrum brtt. og vil ég þá fyrst nefna brtt. á þskj. 297, sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert ítarlega grein fyrir, bæði þeim rökum og málsatvikum sem hníga að þeirri brtt., en þau eru bæði mörg og þung á metunum. Ég vil fylgja máli hennar eftir með því að leggja mikla áherslu á það að hv. þm. sýni þessari brtt. skilning sinn og velvilja.

Hér er um að ræða lágmarkskröfur frá svæðisstjórn fatlaðra í Reykjavík. Þetta eru í senn raunsæjar og hógværar kröfur. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því hve sambýli er miklu mannúðlegri kostur en vistun á stofnun. Jafnframt hve miklu eðlilegra og virkara mannlíf slík aðstaða býður upp á fyrir fatlaða. Enn fremur er sambýlisfyrirkomulagið talsvert ódýrara en stofnanavistun og munar þar allt að 4-500 þús. kr. á einstakling. Öll þróun í nágrannalöndum okkar stefnir í þessa átt og þykir vera í alla staði jákvæðari og gefa betri raun en sá háttur sem áður var á hafður. Ég vil því að lokum skírskota til mannúðar hv. þm. og framsýni þegar ég hvet þá til að taka jákvæða afstöðu til þessarar brtt.

Samhljóða tillaga hefur reyndar einnig verið flutt á þskj. 278 og hefur hv. þm. Kristín Kvaran þegar mælt fyrir henni. Aðrar brtt., sem ég á aðild að, á þskj. 345, 404 og 408, fyrir þeim hefur þegar verið mælt af hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og hv. þm. Helga Seljan. Ég vil því ljúka máli mínu, herra forseti, og vænti þess að hv. þm. sýni þessum brtt. velvilja og skilning.