20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

1. mál, fjárlög 1986

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að mæla hér fyrir brtt. á þskj. 374 við frv. til fjárlaga fyrir árið 1986 sem ég flyt ásamt hv. þm. Haraldi Ólafssyni, Ragnari Arnalds, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Stefáni Benediktssyni. Þetta er brtt. við 6. gr. fjárlaga, þ.e. heimildagreinina. Þessi till. hefur ekki í för með sér nein fjárútlát úr ríkissjóði og raunar er tillagan bara stutt viðbót við lið sem þegar er fyrir hendi á 6. gr., en tillagan er svohljóðandi:

„Að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjald af tækjum sem flutt eru inn til aukningar á dreifikerfi útvarps svo og óáteknum filmum, myndböndum og hljóðböndum fyrir útvarp.“ Og þá kemur hér viðbótin: „Enn fremur að fella niður aðflutningsgjöld og sölugjald af upptökubifreið sem ríkisútvarpið hyggst kaupa á árinu 1986.“ Þetta er viðbótin. Síðan heldur greinin áfram eins og hún var: „Fjármálaráðuneytið setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Skal ég nú rökstyðja nokkuð hvað hér er um að ræða. Svo er mál með vexti að frá því að sjónvarpið tók til starfa hefur verið stefnt að því að þar væri til bifreið með fullkomnum upptökubúnaði. Slíkt tæki hefur aldrei verið til og þau tæki, sem notuð eru t.d. við þá útsendingu sem héðan hefur átt sér stað í kvöld í fréttunum, eru gömul, í gömlum bílum, samsett að mestu af starfsmönnum sjónvarpsins og tækin sjálfsagt eingöngu starfhæf vegna þess að þeim er vel við haldið og vegna tæknikunnáttu starfsmanna íslenska sjónvarpsins. Sumt af þessu er uppgjafadót sem okkur hefur verið gefið frá hinum Norðurlöndunum. Það hafa aldrei verið til nein bærileg tæki af þessu tagi hér. En nú er sem sagt stefnt að því að kaupa þau á næsta ári. Sú upptökubifreið, sem hér er um rætt að kaupa, mun kosta með aðflutningsgjöldum í kringum 54 millj. kr. Ef aðflutningsgjöldunum er sleppt er kostnaðurinn rúmlega 30 millj. kr.

Ég vek sérstaka athygli á því hverju hlutverki slíkt tæki gæti þjónað fyrir landsbyggðina vegna þess að með upptökubifreið af þessu tagi er hægt að fara vítt og breitt um landið og senda beint út frá hinum dreifðu byggðum. Þar að auki er slíkt tæki líka nauðsynlegt vegna þess að nú stendur fyrir dyrum að sjónvarpið flytji í nýtt hús sem er að rísa hér í borginni. Til þess að brúa það bil sem skapast þegar þangað verður flutt er nauðsynlegt að til sé upptökubifreið af þessu tagi þannig að sjónvarp þurfi ekki að falla niður því að hún yrði notuð í stað upptökustjórntækis meðan menn eru að koma sér fyrir í nýja húsinu.

Þessi tillaga hefur sem sagt ekki fjárútlát í för með sér og þess vegna held ég að það geti verið útlátalítið að samþykkja hana. En ég ítreka að hér er um verulegt hagsmunamál að ræða fyrir landsbyggðina og ég tel að það sé nauðsynlegt að efla Ríkisútvarpið nú sem um áramótin mun mæta vaxandi samkeppni og á næsta ári þegar útvarpsrekstur hér verður frjáls.

Það má svo geta þess að þeir sem stunda sjónvarpsupptökur og sjónvarpsmyndagerð þurfa ekki að greiða aðflutningsgjöld og tolla af þeim tækjum sem þeir kaupa. Þess þarf Ríkisútvarpið hins vegar. Venjuleg upptökuvél, eins og notaðar eru, kostar í innkaupum 1,6 millj. Ríkisútvarpið þarf að borga rúmar 3 millj. kr. fyrir slíkt tæki, en fyrirtæki sem eru í þessum rekstri borga 1,6 millj. Þetta er auðvitað fullkomlega óeðlilegt og verður að leiðrétta þetta þannig að Ríkisútvarpið standi jafnfætis þessum fyrirtækjum. Auðvitað væri það opin leið fyrir Ríkisútvarpið að fá eitthvert fyrirtæki til að kaupa upptökuvagn fyrir sig. Slíkt fyrirtæki þyrfti ekki að borga nema rúmar 30 millj. Ríkisútvarpið gæti síðan leigt af þessu fyrirtæki sem slyppi við að borga tolla og aðflutningsgjöld. En ég held að menn geti verið sammála um að það sé ekki sanngjarnt að meiri byrðar séu lagðar á ríkisstofnun með þessum hætti en einkafyrirtæki.

Þá langar mig til að víkja stuttlega að annarri tillögu sem ég er reyndar ekki meðflm. að en var mælt fyrir hér í kvöld. Það má nú með sanni segja að kannske hafi ýmsar undarlegar tillögur séð dagsins ljós í þessari umræðu, en þó held ég að þessi sé einna undarlegust. Hún er á þskj. 345 og flm. eru allt þm. sem eru konur. Í þessari tillögu stendur: kvennarannsóknir 1 millj. kr. Nú er mér nokkur spurn. Hvað þýðir orðið kvennarannsóknir? (Gripið fram í.) Það fyrsta sem mér flaug í hug var: Nú ættu einhverjir menn að flytja tillögu til jafnvægis, þannig að ekki verði um misrétti kynjanna að ræða hér, sem í stæði: karlarannsóknir 1 millj. kr. (Gripið fram í.) Ég skal játa það, hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, að mér fannst kannske helst til strákslegt að gera það og kannske aðeins fyrir neðan virðingu Alþingis. Ég skal játa það. (ÁJ: Fyrir neðan beltisstað.) Kvennarannsóknir, hvað er það? Mér datt fyrst í hug að þetta ætti heima undir liðnum Sjúkrahús, að þetta væri eitthvað sem kæmi Landspítalanum við. Það mætti líka hugsa sér að breyta þessu þannig að þetta væru kvenna- og karlarannsóknir. Ég veit ekki hvaða stefna er hér á ferðinni. Það er bannað að mismuna fólki eftir kynjum. Ég veit ekki betur. (Gripið fram í.) Já, já, ég kannast við þá skilgreiningu, en hún er mér afskaplega fjarræn ef þannig má til orða taka. Ég held að þetta fyrirbæri, kvennarannsóknir, sé upprunnið í Ameríku hjá amerískum millistéttakonum. Síðan hefur þetta verið apað eftir hér.

Ég hefði skilið þessa tillögu ef hún hefði fjallað um það að greiða sérstaklega fyrir orlofsdvöl verkakvenna eða eitthvað í þá áttina, einstæðra mæðra eða eitthvað því um líkt. En þetta orð, kvennarannsóknir, alveg eins og orðið kvennamenning, er að mínum dómi rugl.

Ég heyrði þegar mælt var fyrir þessari tillögu áðan að þá var talað um fræðakonur og vísindakonur og áðan talaði hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir um dvalarkonur. Ég held að hér sé á ferðinni - og hvar er nú hæstv. menntmrh. sem vill standa vörð um íslenska tungu - atlaga að íslenskri tungu. Og hverjir skulu nú til varnar verða? Hér er talað aftur og aftur um þingkonur.

Þá langar mig enn einu sinni að vitna til orða sem forsrh. þessa lands mælti einu sinni úr þessum ræðustól, árið 1964 var það, þegar verið var að ræða um lífeyrissjóð hjúkrunarmanna og hjúkrunarkvenna. Þá sat ég hér uppi á þessum svölum sem þingfréttaritari er Bjarni Benediktsson hélt stutta ræðu. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Þetta þykir kannske of lítið mál til að deila um, en ég vil alls ekki fallast á það, að konur séu ekki menn. Þetta er hrein málvilla, sem á að fara að láta okkur samþykkja hér. Það er latmæli, tekið upp á síðustu áratugum, að kalla konur ekki menn. Samkvæmt gamalli íslenskri málvenju og algerri hefð eru konur auðvitað menn. Þess vegna er ekki hægt að samþykkja þessa vitleysu, réttast væri að vísa henni frá.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson forsrh. þessa lands hér úr þessum ræðustóli fyrir 22 árum. Þegar maður heyrir aftur og aftur þetta leiðinlega latmæli, þessi málspjöll, sem þessir hv. þm. beita sér fyrir hvað eftir annað, er ekki laust við að manni renni í skap. (Gripið fram í.) Já, mér finnst þetta vera fyrir neðan virðingu Alþingis. Þeim finnst þetta, hv. þm. Kvennalistans vera afskaplega skemmtilegt, en ég álít að það sé nokkurt alvörumál þegar þm. á Alþingi Íslendinga gera sér sérstakt far um að spilla íslenskri tungu eins og ég tel tvímælalaust að verið sé að gera með ónefninu þingkona. Sem blaðamaður starfaði ég með konum. Þær urðu ekki reiðari en ef þær voru kallaðar blaðakonur. Þær voru blaðamenn og þær voru fréttamenn. Þetta er réttur skilningur að mínu mati.

Ég veit ekki hvernig menn skilja orðið „kvennarannsóknir“. Ég efast um að allir skilji það hér. Ég spurði þrjár konur núna í kvöldmatarhléinu: Hvernig skiljið þið þetta orð? Þær skildu það ekki. Eru þetta rannsóknir framkvæmdar á konum, af konum eða fyrir konur? Auðvitað er þetta tómt rugl. Ég veit að þessi tillaga verður aldrei samþykkt sem betur fer, en mér þykir miður að hún skuli hafa séð dagsins ljós hér. (Gripið fram í.) Og hér er talað um, eins og ég vitnaði til áðan, fræðakonur og dvalarkonur. Þetta er atlaga að íslenskri tungu og ekki til sóma fyrir þá þm. sem að standa. Við höfum þá skyldu hér (Gripið fram í.) að vernda og verja tunguna. - Hvað segir hæstv. ráðherra? (Samgrh.: Þetta fellur allt undir kvennarannsóknirnar.) Já, já, það má sjálfsagt. Það verður hver að leggja sína merkingu í það orð og mætti um það ýmislegt segja án þess að nánar sé út í þá sálma farið að þessu sinni. En ég hygg að hæstv. ráðh. skilji alveg hvað ég á við. (Gripið fram í: Já, við höfum ekkert hátt um þetta.)

Ég held ég láti þá útrætt um þessa tillögu, hún verðskuldar kannske ekki mikið meiri umfjöllun, en snúi mér að öðrum brtt. sem ég vildi minnast á. Hér liggur fyrir tillaga á þskj. 295 um Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, að liðurinn falli brott, flutt af hv. þm. Halldóri Blöndal og Birni Dagbjartssyni. Raunar afgreiddi hæstv. menntmrh. þessa tillögu mjög snyrtilega í tveimur setningum eða svo í sjónvarpi í fyrrakvöld þegar hann sagði að hún bæri keim af fumi og fáti, auglýsingamennsku og sýndarmennsku og þar að auki væri ekki rétt að málum staðið vegna þess að við yrðum auðvitað að segja okkur úr þessari stofnun áður en við ákvæðum að hætta að borga til hennar. Nú vil ég segja örfá orð um þessa stofnun.

Það vill svo til að ásamt varaformanni menningarmálanefndar Norðurlandaráðs heimsótti ég þessa stofnun í fyrra sem fulltrúi menningarmálanefndarinnar. Við áttum þar tal við fjölmarga vísindamenn og stjórnendur. Það er ljóst að þessi stofnun er í kreppu. Hún er í kreppu eftir að Bandaríkjamenn sögðu sig úr henni og minnkuðu þannig umráðafé hennar að mjög miklu leyti. Nú hafa Bretar fylgt í fótspor þeirra, þ.e. frú Thatcher, gegn miklum mótmælum í Bretlandi. Okkar viðmælendur þar sögðu: Kannske verður þessi kreppa að verða verri áður en hún getur orðið betri. Nú er kreppan orðin verri þannig að það er von til þess að hún geti farið að verða betri. Þeir sögðu líka: Það er ekkert skrýtið þó sá sem er orðinn fertugur, eins og þessi stofnun, hafi gott af því að fara í svolítinn megrunarkúr. Vafalaust er það rétt að ýmislegt hefur þarna mistekist og að stjórnanda þessarar stofnunar, sem á kannske ekki langt eftir af starfstíma sínum þar, hefur mistekist mjög margt og að hann hefur verið óvinsæll. Hann hefur þótt bruðlsamur og ekki gæta hagsýni í rekstri þessarar stofnunar. Þetta er sjálfsagt allt saman rétt og ekki allt undanþegið ámæli eða gagnrýni sem þar hefur verið gert. Hins vegar hefur þessi stofnun gert mjög margt gott. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að undir forustu Íslendinga hafa Norðurlöndin unnið að því að gera úrbótatillögur í rekstri þessarar stofnunar. Þar hefur haft forustu um af okkar hálfu og fyrir hönd Norðurlandanna prófessor Andri Ísaksson. Hann hefur unnið þar einstaklega gott verk. Ég varð mjög áþreifanlega var við það í heimsókn minni hversu mikils álits og trausts hann nýtur meðal stjórnenda og starfsmanna þessarar stofnunar.

Það væri misráðið ef við á þessu stigi segðum okkur úr þessari stofnun. Ég tala nú ekki um að fremja þá lögleysu að greiða ekki okkar skerf eins og við erum skuldbundin til. Það er auðvitað út í hött. Við eigum að vinna að því að laga þessa stofnun, bæta hana og gera hana betri. Ég sé að hv. þm. Björn Dagbjartsson hristir höfuðið. Ég er honum ósammála. Við eigum ekki að leggja þessa stofnun niður. Það er unnið merkilegt starf í þróunarlöndunum víða á vegum þessarar stofnunar og hún vinnur merkilegt kynningar- og menningarstarf á mörgum sviðum. Það væri mjög misráðið að hætta þátttöku í henni.

Ég hygg að ef hv. þm. ættu kost á að kynna sér og kynntu sér þessi mál mundu þeir hafa aðra skoðun. En þessi tillaga var í rauninni afgreidd í fréttatíma sjónvarpsins fyrir fáum kvöldum.

Vil ég þá víkja. að till. á þskj. 315 sem fjallar um matvæla- og neyðaraðstoð skv. nánari ákvörðun ríkisstj. Þetta framlag var lækkað mjög verulega við 2. umr. fjárlaga. Á brtt., sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, er gert ráð fyrir að þetta framlag verði aftur hækkað, eða þrefaldað. Ég skal viðurkenna að það er verulega mikil hækkun frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. En þrátt fyrir okkar þrengingar og erfiðleika held ég að við séum aflögufær á þessu sviði og eigum að vera aflögufær.

Ég minni á það sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Javier Pérez de Cuellar, sagði á ráðstefnu sem haldin var í Genf í mars á þessu ári til að safna fé til að aðstoða 30 milljónir manna í Afríku sem hungur blasir við: „Hungrið í Afríku nú ógnar fleiri mannslífum en nokkurn tíma hafa farist í nokkru stríði veraldarsögunnar.“ Þetta sagði aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í mars s.l. Hann hefur sett upp sérstaka skrifstofu til að skipuleggja þessa neyðarhjálp og safna fé handa fólki á þeim 20 svæðum sem verst eru sett í Afríku.

Okkur ber siðferðileg skylda til að leggja meira af mörkum en fjárlagafrv. ríkisstj. eftir 2. umr. gerir ráð fyrir. Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð. Ég hygg að öllum sé alvara málsins ljós.

Þá vil ég, herra forseti, víkja stuttlega að till. á þskj. 339 sem ég flyt ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, Páli Péturssyni og Stefáni Benediktssyni. Hún fjallar um nokkra hækkun á framlagi til þingflokkanna til greiðslu á sérfræðiaðstoð, þ.e. úr 5343 þús. upp í röskar 6 millj. Ég veit að ég þarf ekki að fjölyrða um þetta mál við hv. þm.

Að síðustu, herra forseti, er ég hér með skriflega brtt. við 4. gr., Dómsmál, ýmis starfsemi, liður 06 281, um að þar komi nýr liður sem heitir Rannsókn umferðarslysa 1.83 500 þús. kr. Nú er það svo að við höfum sérstaka rannsóknarnefnd sjóslysa hér á landi og höfum lengi haft. Ég hygg að starfsemi hennar hafi gefið góða raun og verið til slysavarna. Við höfum sérstaka rannsóknarnefnd flugslysa sem rannsakar hvert einasta slys eða óhapp sem verður á flugvélum. Það þykir nauðsynlegt.

Raunar flýgur mér það í hug núna hvernig fjölmiðlar t.d. fjalla um slys, hvernig flugslys skipa einhvern veginn alltaf ríkari sess í fréttamati allra fjölmiðla en önnur slys. Það er einkennilegt umhugsunarefni. Þegar tveir, þrír menn farast í lítilli flugvél einhvers staðar erlendis fær það svipað rými í fréttum og ef hvolfir ofhlaðinni ferju einhvers staðar í Austurlöndum og drukkna 200 manns. Þetta er fyrirbæri sem ég kann ekki að skýra en er ákaflega einkennilegt.

Við höfum sérstaka rannsóknarnefnd sjóslysa, sérstaka rannsóknarnefnd flugslysa, en í þeim slysum þar sem flestir farast, þar sem flestir hljóta örkuml og flestir bíða bana er engin rannsóknarnefnd. Þar fer ákaflega lítil rannsókn fram á hinum raunverulegu orsökum slysanna.

Ég vakti athygli á því hér á Alþingi fyrir nokkru að að því er varðar viss slys, ákveðna slysaflokka er slysatíðni hér á börnum og unglingum - það eru ekki bara umferðarslys heldur aðrar tegundir slysa líka- með því hæsta sem þekkist í heiminum, með því hæsta sem þekkist í Evrópu á öðrum sviðum. Þetta er alvarlegt mál. Ég held að ef örlítið fjármagn væri látið af hendi rakna til að hefja slíkar rannsóknir, hefja raunhæfar slysavarnir til að við vitum hvernig við eigum að verjast, forsenda þess að við vitum hvað við getum gert er að vita af hverju þetta á sér stað, sé mjög brýnt mál.

Ég veit mætavel að tillögur stjórnarandstöðunnar til hækkunar á fjárlögum eiga af eðlilegum ástæðum ekki upp á pallborðið þegar ríkisstjórnarflokkar eru búnir að reyra saman fjárlögin á erfiðum tímum. En ég held þó að það verði að skoða hvert mál og meta. Áreiðanlega getum við verið sammála um að fjárveiting á borð við þessa kæmi ansi ofarlega í þeirri röð þegar þessi mál eru skoðuð. Ég mælist til þess í fullri einlægni að þeir sem ráða horfi sérstaklega til þessa máls vegna þess að við getum ekki lengur horft upp á það ástand sem verið hefur og er enn. Við verðum að bregðast til varnar með einhverjum hætti.

Slysavarnafélag Íslands var stofnað á sínum tíma þegar sjóslys voru sjálfsagt algengustu banaslys hér við land og þau slys sem flestir Íslendingar létu lífið í. Starf þess skilaði miklum árangri og þar er vel að verki staðið nú. En í slysavarnakerfi okkar er gloppa þar sem eru umferðarslysin og raunar fleiri slysaflokkar. Ég ítreka það að ég bið menn að hugleiða þetta mál sérstaklega og þá um leið hvort ekki er hægt að veita tillögu af þessu tagi eitthvert brautargengi.