24.10.1985
Efri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Svo sem fram kemur í nál. samgn. Ed. Alþingis hefur nefndin orðið sammála um afgreiðslu þessa máls og mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom til deildarinnar frá Nd.

Eins og fram kemur líka í nál. voru tveir nm. fjarstaddir, þau Kolbrún Jónsdóttir og Skúli Alexandersson, og hygg ég að ekki þurfi að minna á hvernig sú fjarvera er tilkomin.

Mér finnst hins vegar rétt að geta þess að í kvöld hafði ég samband við þm. stjórnarandstöðunnar í nefndinni um það með hvaða hætti væri hægt að greiða fyrir nefndarstörfum þannig að hægt væri að mæta óskum nefndarmanna. Ég fékk um það ábendingar frá þessum fjarstöddu þm. og ég gerði ráðstafanir til þess að þær upplýsingar sem þeir nefndarmenn óskuðu eftir yrðu til staðar á nefndarfundi.

Mér þykir vert að þetta komi fram ef það skyldi koma upp síðar að menn teldu sig ekki hafa verið boðaða til fundar í samgn. Hann var hins vegar ekki tímasettur af augljósum ástæðum, en þess getið að hann yrði haldinn að 1. umr. lokinni.

Ég vitna svo til framsöguræðu samgrh. þar sem hann skýrði þetta mál nákvæmlega fyrir deildinni og sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka efnislega þau rök sem hann flutti fyrir málinu. Ég legg því málið fyrir til umræðu og mælist til þess að það verði hér samþykkt og afgreitt.