20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

1. mál, fjárlög 1986

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Fjölmargar till. hv. þm. stjórnarandstöðunnar eru einnig óskamál okkar stjórnarsinna, en af eðlilegum ástæðum geta þm. stjórnarliðsins ekki flutt slíkar till. eða stutt till. stjórnarandstöðunnar. Það á við í þessu tilliti eins og oft áður að stundum þarf að gera fleira en gott þykir. Það er vissulega eðlilegt að stjórnarandstaðan noti tækifærið við umræður um fjárlagafrv. og veki athygli á ýmsum góðum óskamálum þingmanna með tillöguflutningi um þau. Það er ekki með glöðu geði gert að greiða atkvæði á móti því til dæmis að hækka fjárframlög til ýmissa góðra mála sem fjvn. hefur reyndar vegið og metið og þurft að skera niður fjármagn til, ekki af illvilja, það vita allir, heldur af illri nauðsyn. Í því sambandi má nefna aukin framlög til fatlaðra, þroskaheftra, blindra, til heilbrigðismála, dagvistunarmála, skólamála og þannig mætti áfram telja.

En á þskj. 425 er brtt. frá hv. 5. landsk. þm. Eiði Guðnasyni og sú brtt. gaf mér tilefni til að koma hér í ræðustól og taka til máls, en till. fjallar um rannsóknir umferðarslysa, að til þeirra verði veitt 500 þús. kr. Hv. 5. landsk. þm. bauð mér að vera meðflm. á þessari till. Hann veit að áhugi okkar fer saman í þessu efni og er ég honum þakklát fyrir það. En af eðlilegum ástæðum gat ég ekki þegið það ágæta boð þrátt fyrir áhuga minn á málinu. Það væri vissulega tillitsleysi við aðra þm. stjórnarliðsins.

Ég vildi með fáum orðum taka undir þýðingu þess að komið verði á fót rannsóknarnefnd umferðarslysa. Slík nefnd er liður í því að vinna markvisst að fækkun umferðarslysanna. Við umræður í hv. Ed. 30. okt. s.l. um frv. til umferðarlaga kom ég inn á þetta atriði í ræðu minni og gat þess jafnframt að ég mundi flytja brtt. við frv. um að koma á sérstakri slysarannsóknanefnd. Ég á reyndar von á að allshn. Ed., sem við eigum bæði sæti í, hv. 5. landsk. þm. og ég, flytji sameiginlega slíka brtt. við frv. Þannig vænti ég þess að okkur takist að vinna þessu mikilvæga máli brautargengi með stuðningi Alþingis þó að þessi till. fái e.t.v. ekki afgreiðslu nú með fjárlagafrv.

En ég vildi árétta að varðandi umferðarslysin er það æskufólkið sem er stærsti áhættuhópurinn. Það hefur verið tekið dæmi í þeim efnum um að í skóla þar sem væru t.d. 500 piltar og 500 stúlkur má árlega búast við að slasist 20-25 af þessum 500 piltum og 10-12 stúlkna, sum lífshættulega og mörg varanlega bækluð. Það er því ekkert hjóm að tala um þessi mál af alvöru.

Við megum ekki missa þetta unga fólk og ekki heldur í umferðarslysum.

Það hefur verið upplýst að umferðarslysin kosti þjóðfélagið árlega a.m.k. 1,2 milljarða kr. Það er ekki úr vegi að minna á það þegar við erum að ræða um fjárlög og hvernig eigi að ráðstafa því fjármagni sem til skipta er hverju sinni. Það mætti hafa í huga að hægt væri að stoppa í ýmis göt í fjárlagafrv. í náinni framtíð með því að leggja af mörkum umtalsvert fjármagn til fyrirbyggjandi aðgerða varðandi umferðarslysin. Þá má gjarnan byrja á slíkri slysarannsóknanefnd. Það mætti tala um að ef t.d. tækist að fækka slysum um 10% skulum við segja á næstu sjö árum mundi það þýða 2,8 milljarða lækkun kostnaðar í heilbrigðiskerfinu. Þessa 2,8 milljarða gætum við keypt fyrir 315 millj. kr. ef við notuðum t.d. svipaða upphæð og var eytt í fræðslustarfsemi þegar breytt var yfir í hægri umferðina, en notaðar voru 40 millj. kr. á því ári. Ég tek það fram að þessar tölur miðast við verðlagið í dag.

Mér datt nú í hug að skjóta þessum orðum að í tilefni af tillöguflutningi hv. 5. landsk. þm. Till. hans lætur ekki mikið yfir sér, en er góð till. Þó að hún, eins og ég sagði áðan, fái e.t.v. ekki brautargengi við afgreiðslu fjárlagafrv. af eðlilegum ástæðum eins og margar aðrar góðar tillögur held ég að við á hv. Alþingi gætum með samstilltu átaki og með því að bæta ýmislegt í umferðarmálum unnið þessu máli þarft brautargengi.