20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

1. mál, fjárlög 1986

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Við lok þessarar umræðu um fjárlög fyrir árið 1986 vil ég minna á að með afgreiðslu þessa máls, svo og lánsfjárlaga fyrir 1986, hefur náðst verulegur árangur. Okkur hefur tekist að afgreiða saman fjárlög og lánsfjárlög í samræmi við löggjöf sem sett var um það efni s.l. vor. Ég tel að hér sé um mikið framfaraspor að ræða og mikils um vert að unnt sé að afgreiða þessa löggjöf sameiginlega frá Alþingi fyrir upphaf nýs árs og vænti þess að þessi árangur marki þáttaskil í meðferð þessara mála á hinu háa Alþingi.

Okkur hefur tekist við mjög erfiðar aðstæður að afgreiða fjárlög á þann veg að nokkur rekstrarafgangur verður á fjárlögum. Það hefur tekist að halda erlendum lántökum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja við sömu upphæð og nemur afborgunum af erlendum lánum. Það hefur tekist að lækka hlutfall erlendra skulda af þjóðarframleiðslu úr tæpum 55% á þessu ári niður í rúm 51% á næsta ári. Það hefur tekist að draga verulega úr fjárfestingu í þeim tilgangi að draga úr þenslu og við meðferð frv. á hinu háa Alþingi hafa fjárfestingaráform enn verið dregin saman. Sú áherslubreyting hefur þó orðið að samdráttur er meiri á sviðum opinberra framkvæmda en minni en áður var ráðgert á vegum atvinnuveganna. Er það gert í þeim tilgangi að örva framleiðslu og verðmætasköpun í þjóðfélaginu.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara fleiri orðum að þessu sinni um efnisatriði frv. eða þau atriði sem fram hafa komið í ræðum hv. þm. við þessa umræðu. Ég vil taka fram að á þskj. 420 hef ég leyft mér að flytja till. um nýjan lið við 6. gr. þar sem lagt er til að fjmrh. verði heimilt að ráðstafa allt að 6 millj. kr. af tekjum af fyrirtækjum með eignaraðild ríkissjóðs til þróunaraðstoðar. Þetta var einn af þeim liðum, eins og fram hefur komið í umræðunni, sem ráðgert var að skerða. Ég hef ástæðu til að ætla að arður af fyrirtækjum sem ríkið á eignaraðild að muni væntanlega skila meiru til ríkisins á næsta ári en ráðgert var og tel þess vegna fært að flytja till. þessa og í samræmi við þá stefnumörkun sem Alþingi hafði áður markað í þessu efni þó hitt sé augljóst mál að Alþingi verður oft og einatt að víkja frá þál. og löggjöf sem ákveða útgjöld þegar fjárlög eru afgreidd með tilliti til þess hverjir eru tekjumöguleikar ríkisins hverju sinni.

Að lokum, herra forseti, vil ég færa fjvn. þakklæti fyrir mikið starf við meðferð málsins á þessu þingi. Fjvn. hefur starfað við mjög erfiðar aðstæður vegna þeirrar þröngu stöðu sem fjármál ríkisins eru í og vegna þeirra ákvarðana ríkisstj. að beita sér við meðferð málsins á þinginu fyrir lækkun opinberra útgjalda. Sérstaklega vil ég færa formanni nefndarinnar, hv. 1. þm. Norðurl. v. Pálma Jónssyni, þakkir fyrir trausta og örugga forustu í nefndarstarfinu, svo og vil ég þakka fjh.- og viðskiptanefndum þingsins og formönnum þeirra fyrir gott starf við afgreiðslu lánsfjárlaga og vona að þessi lagasetning miði eindregið og markvisst að því að við náum þeim markmiðum í efnahags- og fjármálum sem við höfum sett okkur á næsta ári.

Umr. (atkvgr.) frestað.