24.10.1985
Sameinað þing: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

53. mál, sjúkra- og iðjuþjálfun

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 53 hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir skipulegu, samræmdu átaki til þess að koma sem bestri sjúkra- og iðjuþjálfun inn á heilsugæslustöðvar landsins sem allra fyrst. Kannað verði rækilega hversu tengja megi þessa þætti sem best við kennslu í heilsurækt í efstu bekkjum grunnskólans. Efldir verði möguleikar Vinnueftirlits ríkisins til að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum á vinnustöðum þar sem leiðbeint yrði sem gleggst um grundvallaratriði réttra vinnubragða og vinnustellinga jafnhliða bættri vinnuaðstöðu.

Leitað skal samráðs um átak þetta við samtök launafólks og vinnuveitenda, svo og þau félög heilbrigðisstétta sem málið varðar sérstaklega.“

Hér er um endurflutta till. að ræða með ítarlegri grg. sem segir flest af því sem segja þarf. Ég hef auk þess flutt framsögu áður fyrir málinu og vísa einnig til þess. Nokkur atriði vil ég þó koma inn á hér.

Í fyrsta lagi kann að vera spurt: Hvers vegna till. af þessu tagi? Vissulega er hér um lagaatriði að ræða. Sjúkraþjálfun er eftir nýjustu breytingar á heilsugæslulögum orðin gildur þáttur hvarvetna, m.a. í heilsugæslustöðvum, en enn þá of víða aðeins sem lagabókstafur. Iðjuþjálfunin er yngri grein, fámennari starfsstétt er þar um að ræða en vaxandi og gildi þeirra starfa, ekki síst samhliða sjúkraþjálfun, ótvíræð. Alvarlegasta mismununin milli þessara stétta liggur þó ekki í minni lagastoð fyrir iðjuþjálfun þótt staðreynd sé, heldur í því að þá menntun þarf alfarið að sækja út fyrir landsteinana. Að því þyrfti að huga alveg sérstaklega.

Tilgangur tillögunnar er máske aðallega sá að vekja athygli á vaxandi þátttöku þessara stétta í heilbrigðisþjónustunni og nauðsyn samræmds átaks allra aðila til að auka þá þætti sem lúta nú að endurhæfingu fyrst og fremst, en þyrftu að geta beinst að fyrirbyggjandi starfi sem fyrst og mest. Þess vegna er lögð svo rík áhersla á skólana í þessari till., tengingu þessara þátta við heilsurækt í a.m.k. efri bekkjum grunnskólans.

Þýðing þess að tengja þessa starfsemi við Vinnueftirlit ríkisins er ótvíræð, enda hefur það þegar sjúkraþjálfara að hluta í sinni þjónustu. Alvara skýrslu um könnun á vinnusjúkdómum í frystihúsum og fiskvinnslu, orsökum þeirra og afleiðingum, er slík að hún blátt áfram kallar á átak í þessum efnum. Þar þarf því miður fyrst og fremst að snúa sér að afleiðingunum, en forvarnarstarf má hiklaust vinna samhliða.

Ég segi gjarnan sögu um lítið byggðarlag eystra sem fyrir því láni varð að fá sjúkraþjálfara í byggðarlagið. Annir þessarar konu eru ótrúlegar, en árangurinn enn ótrúlegri og margir sem leita hefðu þurft til stofnana eða hingað suður með ærnum kostnaði hafa hvoru tveggja sloppið við þann mikla kostnaðarlið og vinnutapið að auki. Allir hafa grætt. Samfélagið líka að sjálfsögðu.

Mjög er haft á orði að heilsugæslustöðvar landsbyggðarinnar séu vel við vöxt. Nýting þeirra til þessara þátta skilar um leið betri nýtingu þessa húsnæðis, auk allra annarra kosta.

Ég vil leggja áherslu á að hvar sem samtök fatlaðra eru virk leggja þau höfuðáherslu á að fá þessa þjónustu sem næst vettvangi eða á vettvang. Gleðilegast dæmi um árangur af því er frá Höfn í Hornafirði. Formaður Sjálfsbjargar þar, Guðlaug Hestnes, segir engan vafa leika á því að sú starfsemi sem innan tíðar hefst þar muni skila ríkulegum ávinningi jafnt í líðan og heilsu fólks sem beinhörðum fjárhagsávinningi. Svo þarf víðar að verða.

Til að vekja athygli á nauðsyn raunverulegs átaks í þessum efnum er tillagan enn einu sinni flutt og vissa mín er sú að margt fólk bíður eftir þessu skipulega átaki hvarvetna um land.

Aðeins í lokin, herra forseti. Það fer fjarska vel á því að mælt sé fyrir till. um þetta efni á þessum degi, baráttudegi kvenna. Þessar stéttir báðar eru að yfirgnæfandi hluta kvennastéttir og eins og ég hef áður ítrekað bent á, bæði í framsögu og blaðagreinum þessu tengdum, þarf samhliða átakinu að bæta til mikilla muna kjör þessara stétta. Skulu það mín lokaorð.

Ég vil svo leggja til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til hv. félmn.