27.01.1986
Sameinað þing: 36. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að flytja nýjum utanrrh. heillaóskir af minni hálfu þó að ég hafi enga pólitíska ástæðu til að binda sérstakar vonir við störf hans, því miður.

En ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, til að víkja að nokkrum atriðum sem fram hafa komið undanfarnar vikur í stjórnmálum landsins í jólaleyfi þingmanna. Þetta eru atriði sem sýna ákaflega vel að ríkisstjórnin stendur á brauðfótum. Þar er ekki samstaða um neitt annað en það að halda kaupgjaldinu niðri, enda var ríkisstjórnin stofnuð til þess fyrst og fremst á sínum tíma. Ég ætla, með leyfi forseta, að víkja hér að nokkrum dæmum um vinnubrögð ríkisstj. að undanförnu ef það mætti verða til þess strax við upphaf þings að skýra nokkur þau atriði sem fram hafa komið af hennar hálfu og einstakra ráðherra undanfarnar vikur. (Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson): Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. ræðumanns á því að það er ekki gert ráð fyrir að stofna til almennrar stjórnmálaumræðu í sambandi við tilkynningu forsrh. um breytingar á ríkisstjórninni. Forseti hefur ekki haft samráð við formenn þingflokkanna um þá umræðu sem kynni að verða hér á eftir. Það var gert 16. október þegar þá var tilkynnt um breytingar á ríkisstjórninni. Þá var samkomulag um það milli flokkanna að hafa umræðuna innan vissra takmarka sem þá voru ákveðin svo að hver flokkur hefði til umráða 15 mínútur og síðar 10 mínútur. Það skal vakin athygli á þessu. Það skal líka vakin athygli á því að það hefur ekki verið venja undir þessum kringumstæðum að stofna til almennrar stjórnmálaumræðu þegar áður hafa verið hliðstæðar tilkynningar um breytingar á ríkisstjórninni.)

Nú vil ég spyrja hæstv. forseta að því hvort hann er að bjóða upp á að hér fari fram einhver stjórnmálaumræða með eins og 10 mínútur á þingflokk eða svo í framhaldi af þessari tilkynningu hæstv. forsrh. eða er hann að bjóða upp á að þær umræður fari kannske fram á morgun? Það væri auðvitað hugsanlegt vegna þess að það er fjöldi mála sem hefur komið fram undanfarnar vikur sem er algjörlega óhjákvæmilegt að um verði rætt strax á fyrstu dögum þingsins, strax og tækifæri gefst til. Ég vil einnig skýra hæstv. forseta frá því að ég hafði rætt það, a.m.k. við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar; að einhver slík umræða gæti farið fram hér á þessum fundi. Treystir hæstv. forseti sér til þess að svara þessum spurningum hér og nú? (Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson): Það sem forseti hafði í huga var það hvort ekki væri grundvöllur fyrir því á þessum fundi að umræða um tilkynningu um breytingu á ríkisstjórninni færi fram innan svipaðra marka og venja hefur verið. Hins vegar er frá sjónarmiði forseta ekkert við það að athuga að tekin sé upp almenn stjórnmálaumræða með tilvísun til þess sem hv. 3. þm. Reykv. sagði. En þá fer betur á því að það sé ekki gert í dag heldur á fundi á morgun til þess að menn hafi fyrirvara um þessar umræður. Samkvæmt reglum um umræður utan dagskrár, sem helst yrði þá að líkja við almennar stjórnmálaumræður nú, er gert ráð fyrir því samkvæmt þingsköpum að það sé tilkynnt um það tveim tímum fyrir þingfund þannig að forseti geti tilkynnt formönnum þingflokka þetta. Samkvæmt þessu þykir eðlilegra að slík almenn umræða verði á morgun.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessi svör, sem eru alveg ótvíræð, og ég fyrir mitt leyti alveg tilbúinn til þess að fresta af minni hálfu umræðum um þessi mál þar til á morgun, enda fari þá fram hér það sem kalla má almenna stjórnmálaumræðu. Það er auðvitað m.a. í tilefni af því að nú er stólaleiknum lokið í bili alla vega. Þó að það séu ýmsir í hinum almenna þingmannahópi Sjálfstfl. vafalaust að mæna á stóla enn þá er sá kafli sem hófst með Stykkishólmsfundinum víst búinn þannig að það er full ástæða til að ræða þau mál.

Hæstv. forseti hefur boðið upp á það að þessi umræða fari fram á morgun og ég get fyrir mitt leyti fallist á það. Forsetinn hefur einnig bent á að einhver venja sé til í þessum efnum. Ég hygg að hún sé tæplega til vegna þess að það er mjög sjaldgæft að ráðherraskipti verði með þeim hætti sem hér hefur orðið. Ég hygg því að það sé heldur vafasamt að vitna til venju í þessum efnum án þess að ég vilji deila við hæstv. forseta sameinaðs þings.