28.01.1986
Sameinað þing: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2120 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

79. mál, sala á ferskum fiski erlendis

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Viðskrn. fer með útgáfu útflutningsleyfa vegna sölu á ferskum fiski erlendis. Ráðuneytið hefur ekki aðstöðu til að kanna í hvert sinn sem slík umsókn berst hvernig atvinnuástandi er háttað í vinnslustöðvum víðs vegar um landið. Ráðuneytið hefur jafnan lagt það í mat útgerðaraðila á hverjum stað hvort eðlilegt þætti að selja ferskan fisk úr landi. Raunar hefur ráðuneytið haft nána samvinnu við Landssamband ísl. útvegsmanna um siglingar fiskveiðiskipa til þess að þess verði jafnan gætt að ekki sé of mikið framboð á ferskum fiski í einu á helstu mörkuðum okkar erlendis.

Með hinni miklu aukningu sem orðið hefur á útflutningi á ferskum fiski í gámum hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því í samráði við Landssamband ísl. útvegsmanna, Fiskifélag Íslands svo og gjaldeyriseftirlit Seðlabankans að settar voru reglur sem eiga að tryggja sem best full gjaldeyrisskil svo og aðrar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að framfylgja fiskveiðistefnu landsmanna. Þannig er útflytjendum á ferskum fiski í fiskigámum gert skylt að skýra frá aflasamsetningu í hverjum gámi og sömuleiðis hvaðan fiskurinn er keyptur, hvort útflytjandi er fiskvinnslustöð eða hvort fiskurinn er seldur beint úr veiðiskipum. Ráðuneytið hefur stöðugt samráð við Fiskifélag Íslands um framkvæmd þessa máls og fyrirhugaðar eru á næstunni viðræður milli þessara aðila þar sem reynt verður að tryggja sem best góðan framgang útflutnings á ferskum fiski.

Það er rétt að árétta að ráðuneytið hefur ekki aðstöðu til að meta hvort atvinnuástandi sé svo háttað á hinum ýmsu stöðum að ekki megi flytja fisk úr landi. Bæði kemur þar til skortur á starfsfólki svo og að útflutningur á ferskum fiski er löngum skipulagður með allmiklum fyrirvara og þess vegna er afar erfitt fyrir stjórnvöld að fylgjast náið með atvinnuástandi á þeirri stundu sem fiskurinn er fluttur út frá hinum ýmsu útgerðarstöðum.

Ég vil einnig árétta að í mörg ár hefur fiskur verið fluttur út óunninn, einkum af ákveðnum veiðiskipum, og á því hefur ekki orðið nein teljandi breyting. Breytingin sem hefur orðið á síðustu tveimur árum er hinn svokallaði gámafiskur. Heildarútflutningur á ísuðum fiski mun vera nálægt því að vera um 10% af öllum bolfiskafla landsmanna. Þessi aukning stafar af ýmsum ástæðum, m.a. þeirri að hinir smærri bátar og útgerðarmenn fá nú betra verð fyrir sinn fisk og sjómenn almennt nýta sér þetta í hærri tekjum. Sömuleiðis hefur fallið niður að öllu leyti vinnsla á fiski í skreið. Þessi fiskur er að miklu leyti fluttur úr landi nú og hefur verið til mikilla hagsbóta fyrir smærri útgerðir. Kosturinn við þennan útflutning er sá að greiðsla kemur strax fyrir fiskinn, útflutningsgjöld eru greidd á stundinni, en hins vegar er líka mikið samband á milli ýmissa fiskvinnslustöðva og framleiðenda þar sem í mörgum tilfellum er um svipaða eignaraðild að ræða, en erfitt fyrir þá oft og tíðum að ganga á hagsmuni sjómanna í þessum efnum.

Hér er um vandamál að ræða sem ég hygg að erfitt sé að leysa með algeru banni þó að einhver aukning hafi átt sér stað á liðnum árum. Við verðum líka að taka tillit til hinna breyttu viðhorfa sem orðin eru, eins og hvað snertir verkun í skreið og sölu skreiðar úr landi.