28.01.1986
Sameinað þing: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

79. mál, sala á ferskum fiski erlendis

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Það er ekki rétt að bera saman annars vegar þennan útflutning, a.m.k. gámaútflutninginn, og hins vegar skreiðarverkunina. Munurinn er að sjálfsögðu sá að sá afli sem settur var til skreiðarverkunar var yfirleitt lélegasti aflinn af hverju fiskiskipi. Sá afli sem settur er í gáma og sendur út er venjulega sá fiskur sem hefur verið síðast veiddur, nýjasta og besta hráefnið.

Þá hefur því einnig verið haldið fram að þarna væri verið að finna markaði fyrir fisk sem ekki væri hægt að taka til verðmætrar vinnslu hér heima. Það hefur komið fram í svörum ráðherra að magnið af þorski í þessum ferskútflutta fiski er tvöfalt á við magn nokkurrar annarrar fiskitegundar sem svona er flutt út og hvorki meira né minna en 2/5 hlutar af heildarmagninu. Ástæðan fyrir þessu er að sjálfsögðu sú að fiskverð á Íslandi er orðið óeðlilega lágt miðað við það sem fæst fyrir ferskan fisk í nálægum löndum og það sér hver sjálfan sig í því, eins og þetta horfir við gagnvart sjómönnunum, að þeir geta tvöfaldað sínar tekjur með því að selja fisk óunninn, t.d. til breskra eða vestur-þýskra frystihúsa, miðað við það að selja fiskinn hér á landi til þess að útvega vinnu fyrir íslenskar hendur.

Herra forseti. Það væri ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann mundi ekki vilja taka það til athugunar með hæstv. sjútvrh. að stöðva það framferði að fiskiskip sem fær úthlutað kvóta haldi þannig á sínum málum að ár eftir ár selji þetta fiskiskip svo til allan sinn kvóta á erlenda markaði án þess að sjá fyrir atvinnu fyrir íslenskar hendur, hvort ekki sé ástæða til þess að setja einhverjar hömlur við því hversu mikið af afla sem úthlutað er á hvert fiskiskip megi selja með þessum hætti til útlanda vegna þess að áhrifin af þessu eru nákvæmlega þau hin sömu og ef Vestur-Þjóðverjar eða Bretar væru farnir að gera út á Íslandsmið ekki undir vestur-þýsku eða bresku flaggi, heldur undir íslensku flaggi. Áhrifin af því eru nákvæmlega þau hin sömu. Þetta er eins og þeir leigi eða kaupi sér aðgang að íslenskum auðlindum, að vísu fyrir meira fé en áður, en gjörðin er sú hin sama.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra og ítreka þá fsp. til hans hvort hann muni ekki vilja láta skoða það í samvinnu við sjútvrh. að setja einhverjar hömlur við því að fiskiskip geti ár eftir ár selt svo til allan sinn aflakvóta óunninn til útlanda.