28.01.1986
Sameinað þing: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

Stjórnmálaástandið að loknu þinghléi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf við þeim fsp. sem ég bar fram í upphafi þessara umræðna í dag. Ég held að þessar umræður hafi leitt í ljós að það er auðvitað full ástæða til þess að fram fari hér í þinginu af og til almenn pólitísk stjórnmálaumræða. Þingið er ekki einungis, og á ekki að vera, afgreiðslustofnun fyrir tiltekin frv. og tillögur sem fluttar eru, heldur er þingið líka málstofa þeirra stjórnmálaumræðna sem óhjákvæmilegt er að fari fram í landinu, í þingræðis- og lýðræðisríki, og þess vegna skil ég ekki það tal sem stundum er haft uppi um gagnsleysi umræðna af þessu tagi. Ég held að það sé mjög brýnt fyrir alla stjórnmálaflokkana og þm. sem hér sitja að menn beri saman bækur sínar og geri grein fyrir sínum sjónarmiðum þannig að okkur takist sem þm. að átta okkur betur en ella væri á almennum þróunarlínum í stjórnmálunum þá og þá.

Ég ætla þá að víkja að þeim atriðum sem hafa fram komið í ræðum nokkurra aðila og fyrst ætla ég að víkja að ræðu hæstv. forsrh. Hann vék nokkuð að ástandinu í húsnæðismálum og gagnrýndi það sem hv. 1. landsk. þm. hafði sagt um þau mál. Það er út af fyrir sig nokkuð til í því hjá hæstv. forsrh. að það hefur orðið nokkur aukning á framlögum til húsnæðismála beint úr ríkissjóði. En það er ekki það sem ræður úrslitum í dag, heldur hitt að kaupið hefur lækkað svo mikið að fólkið getur ekki byggt, og vextirnir hafa hækkað svo mikið að fólkið getur ekki borgað skuldirnar sínar. Það er þetta sem veldur því ástandi sem nú er um að ræða í húsnæðismálum, sem m.a. kemur fram í því að það er svo að segja ekkert byggt af nýju íbúðarhúsnæði m.a. hér á þéttbýlissvæðinu samkvæmt nýjustu upplýsingum um þau mál. Hæstv. forsrh. á ekki að spyrja fyrst um framlög úr ríkissjóði heldur um það hvað er byggt og hvernig stendur á því að nauðungaruppboðin á íbúðum hafa aldrei nokkurn tímann verið fleiri en núna. Aldrei verið fleiri en núna. Það segir meira um ástandið í húsnæðismálum en allt annað, en allar tölur sem hæstv. ráðh. geta tínt fram í þessum efnum.

Hæstv. forsrh. vék nokkuð að kjarasamningunum og stöðu fiskvinnslunnar m.a. Hann vitnaði til þess að ég hefði rætt um stöðu framleiðsluatvinnuveganna. Ég vil leiðrétta hann að því er það varðar sem hann hafði eftir mér í þeim efnum. Staða framleiðsluatvinnuveganna hefur verið að batna samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir núna um þróun markaðsverðs síðustu dagana. Það er nú skyndilega komið svo að Þjóðhagsstofnun mun vera komin að þeirri niðurstöðu að meðaltalsfrystihúsið sé með nokkurn veginn eðlilegan rekstrargrundvöll. Þetta stafar af því að verðlag á okkar afurðum erlendis hefur verið að hækka, m.a. á saltfiski, og sú nýja mynd sem blasir við verður ekki fullskýrð nema það verði tekið með líka að olíuverð er að lækka. Eins og menn vita þá er kostnaður við olíu á meðalfiskiskipi í kringum 20% af útgerðarkostnaði núna, þannig að 10% lækkun á olíuverði munar geysilega miklu í afkomu útgerðarinnar um þessar mundir. Það er þess vegna fjarstæða eins og sakir standa að halda því fram að ekki sé hægt að koma til móts við verkalýðshreyfinguna vegna þess að þjóðarbúið eigi nú í miklum þrengingum.

Staðreyndin er sú að þjóðarframleiðsla hefur farið vaxandi allt frá 1983. Erlendir vextir hafa lækkað. Olía er að lækka erlendis. Verð á okkar framleiðsluvörum erlendis fer hækkandi. Birgðahald okkar útflutningsfyrirtækja verður stöðugt ódýrara og minna en áður var. Allt gerir þetta það að verkum að það eiga að vera til þess möguleikar núna að koma til móts við verkalýðshreyfinguna í landinu. Og hvað er hún að biðja um? Það er best að fara aðeins yfir það. Hún er að biðja um 8% aukningu á kaupmætti kauptaxta. Það er málið. Auðvitað er það hárrétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það er ekki einfalt mál að koma þessu fyrir, m.a. vegna þess að yfirborganir hafa færst mjög í vöxt á undanförnum árum. Á sama tíma og Þjóðhagsstofnun mælir 4% aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna liggur það fyrir að kaupmáttur kauptaxta - taxtanna sjálfra á milli áranna 1984 og 1985 - hefur heldur lækkað ef eitthvað er. Og ef nú ætti að ná upp kaupmætti kauptaxta ársins 1985, ef það ætti að gerast í dag, þá þyrfti að auka kaupmáttinn núna um 5-6% vegna þess að kaupmáttur hefur í janúar fallið um 45%, í þeim mánuði einum. Þannig að verkefnið, að koma þessum kauphækkunum fyrir til þeirra sem vinna á strípuðum töxtunum, er út af fyrir sig ekki einfalt, hvorki frá sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar né, trúi ég, heldur atvinnurekendasamtakanna.

En það er þetta sem verkalýðshreyfingin er að leggja áherslu á og ég er reyndar þeirrar skoðunar að leiðin í þessu efni geti ekki verið önnur en sú að hækka kaupið, hækka kauptaxtana sjálfa og taka meira í gegnum samneysluna, gegnum félagslega þjónustu, til þeirra sem eru með hraklegustu kauptaxtana í landinu. Það stríðir hins vegar gegn stefnu Sjálfstfl., stefnu markaðshyggjunnar og stefnu ríkisstjórnarinnar og þess vegna er ekki hlustað á úrræði af því tagi. En ég held að þegar menn skoða þetta málefnalega og af sanngirni viðurkenni þeir að þetta sé eina leiðin.

Það er auðvitað alveg hrikalegt að heyra þennan blessaðan hæstv. forsrh. þjóðarinnar vera að tala um það að kjörin hafi batnað. Þvílík ósvífni! Þetta er eins og blaut tuska framan í andlitið á þúsundum heimila í landinu. Þúsundum heimila í landinu. Þar eru nauðungaruppboð, þar eru skuldir og framleiðsluatvinnuvegirnir í viðkomandi byggðarlagi eru að sligast. Fólkið er að flýja af landsbyggðinni. Fólkið er að flýja Ísland. Ætli það sé af því að kjörin hafi batnað? Ætli það hafi orðið fólksfækkun á Vestfjörðum vegna þess að kjörin hafi batnað? Ætti það hafi orðið fólksfækkun á Íslandi vegna þess að kjörin hafi batnað? Auðvitað er ósvífni, ósvífni af hæstu gráðu af hæstv. forsrh. landsins að tala svona um þessar mundir. Þeir eru að vísu til þar sem kjörin hafa batnað og batnað mikið. Þeir eru til. Þeir eru til ýmsir gæðingar Verslunarráðsins. Okurlánastarfsemin, þar geta kjörin hafa batnað hjá þeim sem hana stunda. Hjá hinum almenna manni er þetta fjarstæða og raunar fullkomin svívirða, fullkomin svívirða að halda öðru eins fram. Og ég blæs á alla talnaleikfimi þar sem er gerð tilraun til þess að halda svona rugli fram fyrir þing og þjóð. Hafa menn ekki tekið eftir því að fjölgað hefur um tugi prósenta því fólki sem leitar til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar um fátæktarhjálp? Það hefur aldrei verið eins margt og í dag. Ætli það sé slóðaskapur eða trassaskapur eða ræfildómur sem því veldur? Auðvitað ekki. Auðvitað er það kaupið og kjörin sem því veldur. Menn eiga að kynna sér hlutina áður en þeir slengja út úr sér fullyrðingum af þessu tagi yfir Alþingi Íslendinga.

Hæstv. forsrh. ræðir svo um það hér í sinni ræðu að hann teldi eðlilegt að gerður yrði heildarsamningur um lífskjör. Út af fyrir sig teldi ég heppilegt að finna aðstæður til að gera slíkan samning. Það er útilokað hins vegar að gera ráð fyrir því að núv. ríkisstj. geri slíkan samning. Eða um hvað er verkalýðshreyfingin að gera kröfur? Hún gerir í fyrsta lagi kröfur um 8% kauphækkun umfram verðhækkanir á árinu 1986. Hún gerir í öðru lagi kröfur um það að kaupmátturinn sem um verður samið verði tryggður. Og hún gerir í þriðja lagi tillögur um stórfellt átak í húsnæðismálum. Það er lágmark áður en ráðherrar fara að láta út úr sér yfirlýsingar um lífskjarasamninga að þeir lýsi því yfir að þeir séu tilbúnir til þess að standa við bakið á verkalýðshreyfingunni í þeim kjaraátökum sem nú standa yfir. Ef einhver vilji væri hjá ríkisstj. í þessu efni mundi hún auðvitað láta þessa hluti koma fram. Nei, talið um lífskjarasamning, vilja til að bæta kjörin, laga afkomuna og allt þetta, þetta er blekkingarleikur. Billegur blekkingarleikur. En hann er dónalegur gagnvart því fólki sem hefur fengið að kynnast fátæktinni inni á heimilum á Íslandi á nýjan leik.

Hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis svöruðu spurningum mínum varðandi kjördaginn og 18 ára kosningaraldur. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að fyrir liggi frá þeim báðum að hvað sem öllu öðru líður þá verði ákvæðin um 18 ára kosningaraldur afgreidd á þessu þingi. Mér þykir það hins vegar miður að stjórnarflokkarnir skuli ekki hafa komið sér saman um kjördaginn varðandi sveitarstjórnarkosningarnar. Ég nefndi 14. júní eða annan laugardag í júní vegna þess að ég taldi að stjórnarflokkarnir stæðu að þeirri tillögu af því að hún stendur í stjfrv. Núna kemur hins vegar hv. 2. þm. Reykv. hér upp og setur viss spurningarmerki við þann dag. Það er ekki aðstaða til þess hér að fara að rökræða um það hvaða dagar eru heppilegastir. Ég vil aðeins segja það af minni hálfu að Alþb. er tilbúið til þess að ganga í það með öðrum þingflokkum núna næstu daga að festa þennan dag, það er alveg meginatriðið, og það verði gefin um það yfirlýsing, hvað svo sem líður frv. ríkisstj. Ríkisstj. vill sjálfsagt fá það afgreitt, en það er hennar að knýja á um það en ekki okkar. Óvissan í þessu efni er í raun og veru ekki boðleg.

Herra forseti. Í ræðum hv. 2. þm. Reykv. og hæstv. forsrh. var svo vikið að Þróunarfélaginu. Ég kallaði þetta félag oft undarlega skepnu í ræðum mínum hér á síðasta þingi. Ég komst þannig að orði að þessi undarlega skepna hefði gengið aftur, komið inn í fjárlögin og farið út úr þeim inn í lánsfjárlagafrv. og farið út úr því aftur o.s.frv. koll af kolli. Nú hefur hins vegar hv. 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis hjálpað mér við að finna nafn á þessa undarlegu skepnu. Hún heitir trjónukrabbi. Nafngiftin er fengin frá Steinólfi Lárussyni vini mínum í Fagradal á Skarðsströnd og ég tel að það sé óvíða betra að leita að góðu nafni en einmitt hjá honum.

Það stendur yfir forustudeila í trjónukrabbanum um þessar mundir, Þróunarfélaginu. Forsrh. komst þannig að orði: Þegar ég vissi að góður maður var á lausu, þá ákvað ég að beita mér fyrir því að hann yrði ráðinn forstjóri Þróunarfélagsins. Góður maður var á lausu. Alveg fyrir hreina tilviljun. Allt í einu frétti hæstv. forsrh. af því að Gunnlaugur Sigmundsson væri á lausu. Það hefur nú verið stórkostleg stund fyrir hæstv. forsrh. þegar hann skynjaði þessa miklu lausn á vanda Þróunarfélagsins að þessi snillingur var á lausu. Og hann sagði: Málið var ekki lagt fyrir ríkisstjórnina og er ekki mál ríkisstjórnarinnar, en samt er eðlilegt að forsrh. ráði í þessu máli. Og síðan sagði hæstv. forsrh. eftirfarandi setningu, sem er yfirlýsing um það að ráðherrar Sjálfstfl. eru ekki starfi sínu vaxnir, hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: „Athugasemdir hafa ekki komið til mín frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.“

Hvað er hæstv. fjmrh. að geipa í blöðum og fjölmiðlum um þetta mál og láta málgögn sín þenja sig síðu upp og síðu niður um þetta mál þegar hann hefur ekki einu sinni rænu á því að koma athugasemd á framfæri við hæstv. forsrh.? Hverslags ódöngun er þetta eiginlega í íhaldsráðherrunum um þessar mundir? Maður hefði haldið að stólaskiptin hleyptu lífi í einn og einn mann á þeim bæ. En það er nú eitthvað annað. Þeir geta ekki einu sinni ungað út úr sér bókun á ríkisstjórnarfundum eða haft uppburði í sér til að nefna málið við hæstv. forsrh. Hann hefur aldrei heyrt það nefnt að Sjálfstfl. sé óánægður með þetta mál.

Ég vil biðja hv. 2. þm. Reykv., starfandi formann Sjálfstfl. í dag, um að gera grein fyrir því hvernig honum líki þessi embættisfærsla ráðherra íhaldsins. Hverslags eiginlega vesöld og uppdráttarsýki er það sem sækir á íhaldsráðherrana um þessar mundir, þegar þeir geta ekki tíst út úr sér einni bókun á ríkisstjórnarfundum í máli af þessu tagi? Því að það var þetta sem hæstv. forsrh. sagði orðrétt: „Athugasemdir hafa ekki komið til mín frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins um Þróunarfélagið.“ Það var von að hv. 2. þm. Reykv. teldi nauðsynlegt að kveða fast að orði og vitna í Steinólf í Fagradal til þess að gefa máli sínu litríkt innihald þegar hann ræddi þessi mál hér áðan. En ráðherrar Sjálfstfl., sex stykki, hafa ekki komið þessu frá sér enn þá. Ja, þvílíkt, þvílíkt og annað eins!

Ég ætla aðeins að koma hér að þessu máli á eftir með því að líta á nokkra punkta sem komu fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv. Það var spaugileg ræða, fyrir utan þetta með trjónukrabbann sem var nú kapítuli út af fyrir sig. Hann sagði: „Það var samið um það að stjórnarflokkarnir fengju sinn helminginn hvor.“ 50 millj. hvor til að ráða Þróunarfélaginu. Hæstv. forsrh. lét Guðmund G. Þórarinsson, alþjóðlegan samningamann Framsfl., fara með sinn hlut. En hvern ætli hæstv. fjmrh. hafi látið fara með sinn hlut? Það var hinn engilhreini og ópólitíski miðstjórnarmaður í Sjálfstfl., Davíð Scheving Thorsteinsson. Það skyldi þó ekki vera að hæstv. fjmrh. hafi beitt Davíð Scheving Thorsteinsson þrýstingi í þessu máli, sett á hann þrýsting? Eða er hugsanlegt að hæstv. fjmrh. hafi ekki sinnt sínum embættisskyldum og þar með látið afskiptalaust hvernig var farið með umboð þessara 50 millj. kr.? Auðvitað er þetta hreinn skrípaleikur hjá íhaldinu. Hreinn skrípaleikur. Og þegar íhaldið þykist ekki vilja láta pólitík koma nálægt peningamálum þá er það auðvitað þvílík fjarstæða miðað við reynsluna af Sjálfstfl. sem ævinlega leggur á það mesta áherslu að standa þannig að hlutunum að skara eld að sinni köku, nota aðstöðu sína í ríkisstjórn til þess að koma peningum til sinna manna. Út á það gengur þeirra aðild að stjórnkerfinu yfirleitt.

Ég vík aftur máli mínu að ræðu hæstv. forsrh. Þegar hann hafði fjallað nokkuð um Þróunarfélagið ræddi hann aðeins um kjötmálið. Ég beindi ákveðnum spurningum í þeim efnum til hæstv. iðnrh. Hæstv. iðnrh. lofaði formanni Sjálfstfl. að taka það mál ekki upp í þinginu og hefur núna runnið af hólmi og ætlar ekki einu sinni að þora að svara fyrirspurnum.

En ég vil segja við hæstv. forsrh. að það er athyglisverð leið sem hann er með tillögu um í utanríkismálum, og það verður ekki sagt um framsóknarmenn að þá skorti alltaf frumleika.

Það er, eins og kunnugt er hlutverk hersins, að sögn íhaldsins og NATO-flokkanna, að verja Ísland fyrir hugsanlegum árásum óvinarins, þ.e. Rússa. Nú hefur Framsfl. fundið það út að rétt sé að setja herinn í alveg nýtt verkefni, þ.e. að éta vandann, landbúnaðarvandann. Hygg ég að þessi ræða forsrh. um að skipa hernum að snæða landbúnaðarvandann sé kannske eitt merkasta innlegg Framsfl. í umræðuna um þessi mál lengi. Og í alvöru talað: Eru menn ekki orðnir þreyttir á - í stjórnarflokkunum líka - þeirri óvissu varðandi lög og reglur í kringum þennan her sem hefur komið í ljós aftur og aftur og hefur orðið til þess að einstakir ráðherrar í ríkisstjórnum botna ekki neitt í neinu? Er ekki kominn tími til þess að herstöðvarflokkarnir geri hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum? Ég held að kjötmálið og deilan og landráðabrigslin séu dæmi um það.

Hv. talsmenn stjórnarliðsins ræddu nokkuð um Seðlabankann og gagnrýni mína á það að Geir Hallgrímsson skyldi skipaður bankastjóri Seðlabankans. Ég fagna því að hæstv. forsrh. tók undir þá skoðun mína að eðlilegt væri að skipta um bankastjóra í Seðlabankanum við stjórnarskipti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið og aðrir átti sig á því að hæstv. forsrh. skuli hafa tekið undir þetta sjónarmið því að það er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að líta á það með fullri alvöru eftir það sem nú hefur gerst þegar kommissarakerfið hefur verið flutt úr Framkvæmdastofnuninni í Seðlabankann.

Ég vil þá aðeins víkja að nokkrum atriðum sem fram komu í ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar. Mér fannst það satt að segja nokkuð merkilegt hvað hann varði einarðlega skattahækkunarstefnu Þorsteins Pálssonar - það var nokkuð athyglisvert - og bar því jafnvel við að þessi skattahækkunarstefna væri ekki aðeins efnahagsleg nauðsyn, heldur gæti hún jafnvel stuðlað að heilbrigðara líferni í sambandi við vörugjald á kökur og brauð.

Ég taldi að innan Sjálfstfl. gætu hugsanlega verið uppi mismunandi sjónarmið varðandi þessa skattahækkunarstefnu. En eftir þá ræðu sem hv. 2. þm. Reykv. flutti áðan tel ég hafa komið í ljós að innan Sjálfstfl. er full samstaða um skattahækkunarstefnuna. Og það hlýtur að vera nokkuð athyglisvert í ljósi þeirra kosningaloforða, sem Sjálfstfl. gaf fyrir síðustu kosningar, og fyrirheita um það að lækka verulega skatta hér í landinu. Þau kosningaloforð, eins og önnur, reynast auðvitað hjómið eitt þegar á hólminn kemur. Sjálfstfl. hefur engan áhuga á að standa við nein kosningafyrirheit. Hann hefur engan áhuga á öðru en að skara eld að sinni köku og sinna manna þar sem þeir sitja á réttum stöðum í kerfinu.

Hv. þm. Friðrik Sophusson vitnaði nokkuð til þess að útgjöld ríkisins til heilbrigðismála hefðu aukist um 10% á föstu verðlagi á árabili sem hann nefndi. Ég hef ekki séð þessar tölur, en ég hygg að þær séu ekki fjarri lagi. Ég hygg að ástæðan fyrir þessu sé fyrst og fremst sú stórfellda uppbygging í málefnum aldraðra sem hófst í tíð síðustu ríkisstj., og það var útilokað fyrir núv. ríkisstj. að stöðva þessa uppbyggingu. Það var hreinlega ekki framkvæmanlegt. Um það hefði aldrei orðið friður í landinu. Það hefði þýtt uppreisnarástand, liggur mér við að segja, í landinu. Þess vegna er þessi hækkun sem þarna er um að ræða á rauntölum til rekstrar í heilbrigðiskerfinu auðvitað fyrst og fremst niðurstaða af verkum fyrrv. ríkisstj. Hins vegar er ljóst að ákvarðanir núv. ríkisstj. um það að draga úr framlögum til framkvæmda í heilbrigðismálum munu hafa í för með sér að þarna mun hægja verulega á á komandi árum frá því sem verið hefur.

Og ég hygg að sama skýring, herra forseti, eigi einnig við að því er varðar félagsmálin. Útgjöld til félagsmála á föstu verðlagi hafa tvöfaldast á nokkrum árum segir hv. þm. Ég hygg að það sé rétt. Ég hef um það upplýsingar að útgjöld til félagsmála fatlaðra á árunum 1980-1986 hafa mikið meira en tvöfaldast. Mér sýnist að þau hafi að raungildi u.þ.b. átjánfaldast á tímanum. Ástæðan fyrir þessu er sú ákvörðun sem var tekin í tíð síðustu ríkisstj. um þjónustu við fatlaða og Framkvæmdasjóð fatlaðra. Og það var svo mikill skriður á þessum framkvæmdum um allt land að það var vonlaust verk fyrir ríkisstj. að gera tilraun til að stöðva það fullkomlega.

Nú hefur hins vegar verið tekin um það ákvörðun að hægja einnig á á þessu sviði þannig að þegar ríkisstj. er að hæla sér af því að eitthvað hafi aukist fjárframlög til heilbrigðismála og félagsmála er það fyrst og fremst vegna þess að um var að ræða víðtækt uppbyggingarstarf í þessum málaflokkum, sérstaklega málum fatlaðra og aldraðra, í síðustu ríkisstj., og það var ekki hægt fyrir ríkisstj., þá sem tók við, að stöðva það þó hún fegin hefði viljað.

Ég hef hér, herra forseti, farið yfir nokkur atriði sem fram hafa komið í málflutningi talsmanna stjórnarflokkanna og ætla ekki að bæta þar miklu við. Ég ætla aðeins að segja þetta að lokum:

Ég held að mjög nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir því að núna á þessum síðustu dögum janúarmánaðar 1986 er að koma verulegur bati inn í þjóðarbúið, bati sem á að geta skilað sér í betri lífskjörum og hærra kaupi fólksins í landinu. Mér hefur fundist að þessi ríkisstj. gerði allt sem hún gæti í rauninni til að ala á svartsýni þjóðarinnar og trúleysi á að Íslendingar geti lifað eðlilegu lífi í þessu landi. Það kemur fram í landflóttatölunum sem ég nefndi áðan og fleiru. Með þeirri auknu þjóðarframleiðslu sem ytri aðstæður hafa skapað, með hækkandi verði á afurðum okkar og lækkandi olíuverði, sem nú er um að ræða, er alveg augljóst að allir möguleikar eiga að vera til þess að koma með mjög myndarlegum og afgerandi hætti til móts við verkalýðshreyfinguna í landinu í þeim kjarasamningum sem nú eru að hefjast.