24.10.1985
Sameinað þing: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

69. mál, framhaldsnám í sjávarútvegsfræðum á Höfn

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 71 hef ég leyft mér ásamt þeim hv, þm. Jóni Kristjánssyni og Agli Jónssyni að bera fram svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hún beiti sér fyrir athugun á því að hefja kennslu í sjávarútvegsfræðum á framhaldsstigi á Höfn í Hornafirði sem þróast gæti í framtíðinni yfir á háskólastig. Athugunin skal unnin í samráði við Háskóla Íslands, skóla tengda sjávarútvegi og samstarfsnefnd um framhaldsnám á Austurlandi.“ Í grg. segir svo:

„Nám tengt grunnatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum, er ekki ýkja fjölbreytt og fer ekki mikið fyrir því í menntakerfinu. Þó er hér um að ræða þá grein er skapar drýgstan hluta gjaldeyris okkar og býður ótalda möguleika í frekari vinnslu og enn meiri verðmætum. Viðurkennt er að hér þurfi að ráða bót á og verkefnin eru mörg. Fiskvinnslufólk og sjómenn njóta lítt menntakerfis okkar og ærið takmarkaðir eru enn möguleikar hér á landi til náms tengdu sjávarútvegi. Fiskvinnsluskólinn er vissulega gleðileg undantekning, en ekki hefur verið til fyrirmyndar hvernig að honum hefur verið búið. Tækniskólinn er með brautir tengdar sjávarútvegi, en Háskóli Íslands býður ekki upp á það nám sem þyrfti og ætti að vera í þessu þjóðfélagi sem svo mjög byggir á sjávarútvegi og fiskvinnslu og verðmætum þessara greina. Þar hefur annað haft forgang.

Menntun yfirmanna á flotanum er tryggð og eru þar þó ýmsar blikur á lofti þar sem áhugi samfélagsins hefur ekki beinst að þeim þarfa þætti.

Á Höfn í Hornafirði er mikill áhugi á einhvers konar framhaldsnámi í sjávarútvegsfræðum, enda fjölbreytni í sjávarfeng ærin og aðstaða í fiskiðju mjög góð á okkar mælikvarða. Könnun á möguleikum slíks náms á Höfn er sjálfsögð og samráðsaðilar eru þeir sem ættu að kunna glögg skil á því hvað unnt væri að gera.

Framhaldsnám á Höfn í heild er nú í deiglunni og er því að mörgu leyti brýnt að koma þessum mikilvæga þætti inn í þá umfjöllun alla.

Verkmenntunarmál á Austurlandi hafa verið í örri framþróun og þar hefur nú náðst gleðilegur árangur með sameiginlegu átaki Austfirðinga um framhaldsskólann í Neskaupstað. Næsti eðlilegur áfangi í menntunarmálum Austurlands ætti að tengjast sjávarútvegi okkar sérstaklega. Til að hreyfa því þarfa máli er þessi till. flutt.“

Grg. er stutt, en segir þó það sem segja þarf. Við flm. leggjum á það ríka áherslu að hér er um könnun að ræða á möguleikum þessa framhaldsnáms sem ekki er vansalaust að svo lítill sómi skuli sýndur í heild sinni. Forskrift gefum við því eðlilega ekki um hvers konar nám, til hvaða þátta skuli taka eða hversu framþróun geti orðið. Við vitum hins vegar að margar námsbrautir geta og eiga að tengjast sjávarútvegi okkar og gildir það jafnt um sjósókn sem úrvinnslu afla og ýmsa þróun í sjávarútvegi, jafnt um fólkið í fiskvinnslunni sem hásetann á síldarbátnum og yfir til þeirra mörgu greina sem framþróun í þessari atvinnugrein kallar á og það fyrr en síðar og snertir bæði veiðar og vinnslu og frekari þróun alla, vinnsluna og möguleika þar þó máske enn þá helst.

Við flm. sem og aðrir hljótum að hafa áhyggjur af því hvernig nú er ástatt og hverjar horfur eru varðandi þessa frumvinnslugrein, afstöðu vaxandi hóps og skilningsleysi um leið á þýðingu hennar fyrir lífsafkomu þessarar þjóðar. Sá flótti sem illu heilli virðist vera frá þessari grein á sér margar orsakir. Kjarahliðin er ein, vinnuaðstaðan önnur, öryggisleysið sömuleiðis koma sterkast inn í þessa mynd. En við skulum heldur ekki gleyma menntunarmálum í smáu sem stóru sem þarna vega líka talsvert, ekki síst í áliti almennings. Þar vantar mjög upp á að jafnræði sé og raunar segir grg. allt um það.

Grunngrein sem þessi hlýtur blátt áfram að vera metin að hluta til í ljósi þeirra krafna um starfsmenntun eða starfsmenntunarleysi sem gilda. Ekki dreg ég úr þýðingu og gildi góðrar starfsþjálfunar og þeirrar umbunar í kjörum sem hún ætti að veita, en samanburðurinn við margar og þýðingarminni greinar, menntunarkröfur þar, hlýtur að segja til sín.

Við flm. leggjum engan dóm á hvernig að skuli staðið, eins og ég sagði áðan, en við felum það eðlilega í vald þeirra sem gleggst eiga að þekkja til þessara mála að finna þar færa leið til athafna því enginn efi er í okkar huga að hún sé fær hvort sem er að hluta til eða alla leið. Aðeins hefur það í raun gleymst í okkar tillögusmíð að kalla til þá aðila sem njóta ættu náms af þessu tagi, en úr því er unnt að bæta.

Nýr „Hafnarháskóli“ er ekki í augsýn okkar, en ómaksins vert og vel það þykir okkur að láta reyna á vilja og möguleika til þess að einhvern tíma rætist það einnig.

Ég vil svo að lokinni þessari umræðu leggja til, herra forseti, að till. verði vísað til 2. umr. og félmn.