29.01.1986
Efri deild: 43. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

203. mál, nafnskráning skuldabréfa

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er flutt samhliða frv. til 1. um verðbréfamiðlun. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að skuldabréf beri ætíð með sér með ótvíræðum hætti hvert nafn skuldareiganda er. Þó eru víxlar og tékkar undanþegnir ákvæðum frv., enda fyrir hendi þær aðstæður varðandi slík bréf að framsal með nafnritun leiðir til ábyrgðar framseljanda á greiðslu skuldar.

Í lögum nr. 13 frá 1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., er nú þegar að finna ákvæði um nafnskráningu verðtryggðra fjárskuldbindinga. Framkvæmd þessa ákvæðis hefur hins vegar ekki tekist sem skyldi og þykir ljóst að allnokkuð vanti á að fylgt sé í viðskiptum reglum um nafnskráningu verðtryggðra skuldabréfa og spariskírteina ríkissjóðs. Virðast þessi bréf í umtalsverðum mæli ganga kaupum og sölum með eyðuframsali upphaflegs kröfueiganda. Jafnframt er ljóst að skuldabréf ganga milli manna sem ekki eru verðtryggð og hljóða á handhafa bréfsins.

Ýmis vandkvæði fylgja því að kröfuréttindi hljóða ekki á nafn eigenda þeirra og gangi kaupum og sölum án þess að slíks sé getið á skilríkjum fyrir þeim. Þessi vandkvæði snúa bæði að þeim sem standa á skil á greiðslu kröfu og að opinberum aðilum þar sem hætt er við að misbrestur sé á að eignarhalds á skuldabréfum og viðtöku vaxta af þeim sé getið við skattaframtalsgerð kröfueigenda.

Með þessu frv. er stefnt að úrbótum í þessu efni og að lögfest verði skýlaus ákvæði um skyldu til að skrásetja öll kröfuréttindi sem frv. tekur til á nafn eigenda þeirra. Er gert ráð fyrir að sú skylda nái jafnt til verðbréfa, sem gildandi reglur kveða á um að hljóða eigi á nafn skuldareiganda, svo og til þeirra sem heimilt er að hljóða á handhafa samkvæmt gildandi lögum. Til að tryggja framkvæmd þessara ákvæða er m.a. gert ráð fyrir því í frv. að óheimilt sé að þinglýsa skuldabréfi eða skrásetja með öðrum opinberum hætti réttindi samkvæmt því nema fullnægt sé skilyrðum um nafnskráningu. Jafnframt verður viðskiptabönkum, sparisjóðum, öðrum lánastofnunum og innheimtuaðilum óheimilt að veita skuldabréfi viðtöku til eignar eða innheimtu fullnægi það ekki þessu skilyrði. Svipuð skylda hvílir á verðbréfamiðlurum. Samkvæmt þessum ákvæðum mun bankaeftirlitið fylgjast með því að viðskiptabankar, sparisjóðir og verðbréfamiðlarar veiti skuldabréfi því aðeins viðtöku að það fullnægi ákvæðum þessa frv. ef að lögum verður.

Að öðru leyti vísa ég til ítarlegra athugasemda með frv. þar sem einstök ákvæði þess eru skýrð nánar en ég hef hér gert.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.