29.01.1986
Neðri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

208. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að taka undir málflutning hv. flm. þessa frv. um nauðsyn þess að meira gerist í þeim efnum að dreifa opinberri stjórnsýslu um landið, en frv., þó að það taki aðeins á einum þætti þess máls, fellur að þeim hugmyndum, sem oft hafa verið ræddar á hv. Alþingi og till. komið fram um til stjórnvalda, að dreifa ákveðnum þáttum stjórnsýslunnar með skipulegum hætti út um landið. Ég held að það sé sannarlega mál til komið fyrir hv. alþm. að taka afstöðu í þessum efnum og fyrir stjórnvöld að láta verða af framkvæmdum í þessum málum með miklu ákveðnari hætti en gerst hefur á undanförnum árum.

Við fjölluðum hér í fyrra um breytingu á stjórnsýslu með myndun Byggðastofnunar upp úr byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þá fór svo að Alþingi, hv. þingdeild hér að meiri hluta, féllst ekki á það ég vil segja sjálfsagða sjónarmið að velja þessari stofnun stað utan höfuðborgarsvæðisins, en till. lágu fyrir um það, studdar af mörgum þm. og aðilum utan þings, að þessi stofnun yrði sett niður á Akureyri. Í stað þess var þetta mál skilið eftir opið og vísað til stjórnar sem er að láta fara fram einhverja faglega úttekt, gott ef ekki hjá Hagvangi, á því hvort það sé fært og skynsamlegt að flytja Byggðastofnun til Akureyrar.

Mér finnst það lýsandi dæmi um undirtektir við mál af þessu tagi að það skuli þurfa einhverja sérúttekt eins og þarna er látin fara fram varðandi Byggðastofnun án þess að ég vilji fullyrða hver verður niðurstaða úr skoðun þessa máls á vegum stjórnar Byggðastofnunar. Hér er auðvitað um pólitískt mál að ræða þar sem þarf pólitíska ákvörðun og það eru slíkar ákvarðanir sem við þurfum að taka hér á Alþingi í ljósi þeirra viðhorfa, að mínu mati, að nota stjórnsýsluna og umsvif ríkisins sem einn þátt í að leiðrétta að einhverju stöðu landsbyggðarinnar sem fer nú versnandi með hverju árinu sem líður eins og öllum hv. alþm. ætti að vera ljóst.

Tilfærsla eða uppbygging ríkiskerfisins í höfuðstað landsins hefur auðvitað átt drjúgan þátt í þeirri þróun, sem við höfum orðið vitni að undanfarna áratugi býsna langt aftur í tímann, að safna fólkinu hér saman í miklu ríkari mæli en skynsamlegt getur talist og eðlilegt. Því er öll viðleitni í þá átt að stinga þar við fæti, allar slíkar tilraunir og tillögur, og þar er auðvitað nærtækast að horfa til ríkisvaldsins og stofnana á þess vegum, góðra gjalda verðar.

Ég hef markað mína afstöðu í þingmáli sem er 3. mál Sþ., þáltill. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga, þar sem lagt er til að á þessum málum verði tekið með stefnumarkandi hætti og víðtækt. Það má segja að sá þáttur sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson víkur hér að sé aðeins einn lítill þáttur af því sem þarf að gerast í þessum efnum.

Ég vil hins vegar láta það koma fram að ég tel í rauninni líklegra til árangurs á heildina litið að þoka þeim þáttum þar sem umsvif eru fyrir úti í landshlutunum á sviðum opinberra mála þangað, yfirstjórn þeirra mála, út í landshlutana, þannig að hver landshluti, hvort sem menn tala um fylki eða miða við núverandi kjördæmaskipun og tala um kjördæmi, verði sem sjálfstæðastur um meðferð þeirra mála sem snerta landshlutann þó svo að yfirstjórnin geti verið í Reykjavík. Þetta hefur stundum verið kölluð útibúastefnan. Það má kalla það ýmsum nöfnum. En þarna er um að ræða stóra málaflokka eins og t.d. mennta- og heilbrigðismálin, almannatryggingarnar svo ég nefni eitthvað, húsnæðismálin og fleira sem vakin er athygli á í þeirri þáltill. sem ég flutti í byrjun þessa þings með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Í þeirri till. er m.a. að finna fylgiskjal sem hv. flm. gat um, þ.e. till. svokallaðrar stofnananefndar sem skilaði áliti 28. október 1975. Útdrátt úr þeirri till. er að finna sem fylgiskjal með þessu þingmáli og vildi ég nefna það hér þar sem þetta þingskjal liggur á borðum hv. alþm. Að öðru leyti ítreka ég stuðning við þau sjónarmið sem koma fram með flutningi þessa máls og vona að á þessum málum verði tekið fyrr en seinna með öðrum og meira ákvarðandi hætti en gerst hefur á liðnum árum.