29.01.1986
Neðri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

208. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Vissulega er mjög ákjósanlegt að láta gera alls konar hagrænar úttektir, en það er í fyrsta lagi spurning á hverju á að gera slíka úttekt og í öðru lagi hvaða spurningar eru það sem menn leggja fyrir þá vísu hagfræðinga sem eru að gera slíkar úttektir. Við skulum segja sem svo að stjórnarskrárnefnd hefði falið Hagvangi að gera úttekt á því hvort væri hagrænna eða hvort væri líklegra til þess að skila haglegum árangri að þm. væru 63 eða 10. Hvaða niðurstöðu haldið þið að Hagvangur hefði komist að? Ég þori að fullyrða að Hagvangur hefði komist að þeirri niðurstöðu að það væri miklu betra frá fjárhagslegu sjónarmiði fyrir þjóðina að þm. væru 10 fremur en 63. Það er nákvæmlega þessi niðurstaða sem menn geta gefið sér þegar spurningar eru lagðar fyrir fyrirtæki eins og t.d. Hagvang. Þegar Hagvangur er spurður: Hvort halda menn að sé ódýrara að hafa Byggðastofnun í Reykjavík eða á Akureyri? eða jafnvel: Hvort halda menn að það sé ódýrara fyrir þjóðina að hafa ekki Byggðastofnun eða ekki Byggðastofnun? þá held ég að menn geti fyrir fram gefið sér hvert er sjónarmið Hagvangs.

Það er hins vegar ákvörðun sem Alþingi verður að taka, ekki bara út frá hagrænum forsendum heldur ýmsu öðru, m.a. byggðalegum, hvort það sé rétt að stofnanir eins og Byggðastofnun séu staðsettar annars staðar en í Reykjavík. Mín skoðun er að það sé rétt. Það hafa komið fram fjölmargar tillögur um það. Þessi flutningur stofnana hefur sjaldnast strandað á andstöðu þm. Reykjavíkur eða þéttbýlissvæðisins heldur hefur hann strandað á tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri að starfsmenn þessara stofnana, sem eru staðsettar í Reykjavík, hafa frekar viljað hafa þær nálægt sínu heimili en að þurfa að gera það upp við sig hvort þeir ættu að fá sér annað starf eða flytja sig á brott. Og hins vegar þeirri, og það ber að viðurkenna, að það hefur aldrei verið hægt að ná neinni samstöðu meðal landsbyggðarþingmanna um slíkan flutning stofnana vegna þess að menn hafa verið svo bundnir við sitt eigið kjördæmi að þeir hafa ályktað sem svo: Ef ég fæ ekki viðkomandi stofnun heim til mín er það miklu haganlegra fyrir mig og mína umbjóðendur að hafa hana í Reykjavík en einhvers staðar annars staðar. (Gripið fram í: Þetta er alveg rétt.) Meðan þetta er viðhorfið hjá landsbyggðarþingmönnum er tómt mál að tala um að flytja stofnanir og tómt mál að tala um að það sé eitthvert vit í slíkri stefnu og það beri að dreifa stjórnsýsluvaldinu meira út um héruð landsins. Þess vegna tók ég fram í ræðu minni áðan að ég teldi rétt að landsbyggðarþingmenn endurskoðuðu þessa afstöðu sína og tók sérstaklega fram um mína skoðun að ég væri reiðubúinn að fylgja því hvar og hvenær sem er að t.d. Byggðastofnun væri valinn staður á Akureyri. Mér finnst það ekkert óeðlilegt. Miðað við nútíma samgöngutækni og samskiptatækni er ekkert erfiðara fyrir menn utan af landsbyggðinni að komast í samband við Akureyri en Reykjavík.

Herra forseti. Ég býst ekki við því að hv. þm. Stefán Guðmundsson hefði verið ýkja ánægður ef við Alþýðuflokksmenn, í fimm mánaða bráðabirgðastjórn með minni hluta þingheims á bak við okkur, hefðum farið að taka upp á því að flytja stofnanir til og frá í landinu, enda tel ég að við höfum ekki haft umboð til slíks og alveg fráleitt að láta sér detta í hug að bráðabirgðaríkisstjórn sem situr í fimm mánuði geti gert einhverjar slíkar ráðstafanir.

Ég vildi gjarnan minna á að það eru fleiri en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sem hafa flutt till. um samræmda mótun byggðastefnu. Það gerði ég einnig fyrir hönd Alþfl. fyrir fjórum árum. Þar lagði ég m.a. til að Framkvæmdastofnun ríkisins yrði lögð niður og Framkvæmdasjóður yrði vistaður annars staðar, þ.e. ég lagði til að hann yrði vistaður í Seðlabanka Íslands, en upp úr Framkvæmdastofnun ríkisins yrði stofnuð sérstök byggðastofnun sem hefði það nákvæmlega að hlutverki að sinna byggðamálum og engu öðru. Ég sé ekki betur en þessi stefna í þáltill. hafi verið framkvæmd af núverandi hæstv. ríkisstj. því sú byggðastofnun sem hefur risið upp úr rústum Framkvæmdastofnunar ríkisins er nákvæmlega sama fyrirbærið og við Alþýðuflokksmenn lögðum til í okkar till. um mótun byggðastefnu að sett yrði á stofn í stað Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Ég ítreka, herra forseti, að það er ekki ástæða til þess fyrir þm. af landsbyggðinni að fara að munnhöggvast enn á ný um þessi mál heldur reyna að leita samstöðu. Ég endurtek að a.m.k. fyrir mína parta er ég alveg reiðubúinn til að standa að því að stofnun eins og Byggðastofnun verði valinn staður á Akureyri þó að það sé ekki endilega í því kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir hér.