29.01.1986
Neðri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þar sem 1. umr. um þetta frv. hófst um miðjan desembermánuð þykir mér rétt að draga fram örfá atriði sem fram hafa komið í umræðunum.

Ég vil byrja á því að taka fram eitt atriði sem er svo sannarlega ekki neitt ánægjuefni að þörf skuli vera að ræða, en ekki reyndist tækifæri til þess fyrir jól. Ég vil svara þeim ódulbúnu ásökunum í garð íslenskra heilbrigðisstétta sem fram komu í máli hv. 10. landsk. þm. Þó að nú sé liðinn meira en mánuður síðan þessar ásakanir voru fram bornar vil ég ekki láta umræðu um þetta mál standa í þingtíðindum án þess að fram komi að ummælunum hafi verið mótmælt. Í máli þm. var farið mjög hörðum orðum um það sem hún nefndi lausmælgi íslenskra heilbrigðisstarfsmanna á spítulunum. Farið var um þetta almennum orðum. Ég leyfi mér að vísa þeim á bug sem bæði óverðskulduðum og fyllilega óviðeigandi. Ég held að það sé einmitt þvert á móti faglegur metnaður heilbrigðisstarfsmanna að fara varlega með allar trúnaðarupplýsingar. Það er vitanlega á svo mörgum sviðum í heilbrigðiskerfinu sem nauðsynlegt er að sýna sjúklingum ýtrasta persónulegan trúnað. Er ráð fyrir því gert bæði í læknalögum sem hv. 3. landsk. þm. vitnaði til og einnig er slíkt sérstaklega fram tekið í 7. gr. kynsjúkdómalaganna, þeirra laga sem hér er verið að ræða um að gera breytingu á.

Þá vík ég að tillögum sem læknanefnd sendi þingnefnd á sínum tíma í Ed. um breytingu á lögum um varnir gegn kynsjúkdómum á annan veg en gert var ráð fyrir í upphaflega frv. Svo var að heyra á máli hv. 3. landsk. þm. sem það hefði farið fram hjá henni að tillit var tekið til nokkurra þessara tillagna í Ed. og frv. breytt á þann veg sem á var bent um smitun af HTLV3 veirunni og það var í fleiri en einni grein.

Tillaga læknahópsins um að fella burtu refsiákvæði laganna er skýr vottur um að þar eru þeir ekki að fjalla um læknisfræði heldur um lögfræði. Um lögfræðina í þessu máli er það að segja að brottfelling refsiákvæðisins úr kynsjúkdómalögunum gerði það að verkum að refsing yrði miklu þyngri en þar er greint. Það er nefnilega svo að refsiákvæðið í kynsjúkdómalögunum er einmitt til þess ætlað að hafa mjög milda leið - milt aðhaldsákvæði - miklu mildara en það sem er í hinum almennu hegningarlögum. Þetta vildi ég taka fram því að það gætti greinilega misskilnings um þetta hjá læknunum.

Við erum öll sammála um að aðalatriðið í baráttunni við þennan sjúkdóm er á þessu stigi að verja hina heilbrigðu. Til þess að verja hina heilbrigðu, að hefta útbreiðslu sjúkdómsins telja menn sig hafa ýmis ráð þó að það sé mjög vandasamt og verði auðvitað að byggjast á mikilli samvinnu manna. Þegar ég segi að aðalatriðið í baráttunni við sjúkdóminn nú sé að verja hina heilbrigðu hef ég þó vitanlega í huga hina hlið þess máls sem er að berjast gegn þessum sjúkdómi á öðrum vettvangi og til lengri tíma, ef svo má segja, með hinum mikilvægu vísindarannsóknum víða um heim í því skyni að finna ráð gegn þessum vágesti. Það þarf að efla báða þessa þætti, en frv. sem við erum nú að fjalla um er fyrst og fremst til þess flutt að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.

Þetta frv. er, eins og fram hefur komið, flutt að beiðni landlæknisembættisins. Það er skoðun bæði landlæknis hér á Íslandi og þeirra sem hafa með höndum eftirlit með útbreiðslu sjúkdóma, líka í öðrum löndum, m.a. hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, að það sé mjög erfitt að berjast gegn útbreiðslu sjúkdóms ef maður hefur ekki upplýsingar um útbreiðsluna. Þá á ég ekki við að persónulegar upplýsingar liggi á lausu. Það er þvert á móti verið að vinna að því að unnt sé að fylgjast allnákvæmlega með útbreiðslu sjúkdómsins, hvernig útbreiðsla hans breytist í hópum og fleiri slík atriði, til þess að unnt sé að neyta tiltækra ráða til að hefta útbreiðsluna.

Það vil ég sérstaklega undirstrika að þeir hópar sem nú eru taldir mestir áhættuhópar hér á landi hafa af því mesta hagsmuni að unnt sé að hefta útbreiðsluna og til þess sé ekki kastað höndum á neinn veg.

Það verður líka að taka það fram að hópar þeir sem eru í mestri hættu hverju sinni eru ekki eins samsettir í öllum þjóðfélögum. Nú er það svo að sums staðar annars staðar berst smithættan ekki síður út úr hópi vændiskvenna en að hún berist meðal samkynhneigðra karlmanna, eins og oft er rætt um og virðist vera upphafsþáttur þessarar útbreiðslu. Því miður kemur það líka í ljós með æ áþreifanlegri og sorglegri hætti að ung börn eru í mikilli hættu eða m.ö.o. fóstur í kviði smitaðrar móður. Við erum því ekki einungis að tala um það hvort persóna sem telur sig e.t.v. bera smit sé að ljóstra upp um kynhneigð sína eða ekki. Um það snýst ekki þetta mál.

Ég vil sérstaklega undirstrika þetta: þó að nauðsynlegt sé talið að fylgjast með útbreiðslu sjúkdómsins með einhvers konar skráningu, er setji ekki persónuhagi manna í neina hættu, er ekki um það að ræða að með því eigi sá sem hlíti slíkri skráningu fyrst og fremst á hættu að glata félagslegu öryggi sínu, eins og hv. þm. sagði, eða glata virðingu sinni. Ég er þeirrar skoðunar að það séu einmitt hagsmunir slíks manns að geta látið ganga úr skugga um þetta því að honum hlýtur að vera annt um fleira sem varðar hamingju lífs hans, en það er umhyggjan fyrir þeim sem honum standa næstir. Það eru leiðbeiningar til slíks manns um hvernig hann geti varið þá sem honum standa næstir, eftir atvikum fjölskyldu eða vini, hvernig hann geti varið þá smiti og hvernig hann geti sjálfur varist vanlíðan ef smitið hefur komist á það stig að verða að sjúkdómi. Þó að ekki sé hægt að lækna sjúkdóm er sem betur fer margt gert í hjúkrun og umönnun sem veldur því að líðan manna batnar mjög eða er miklu betri heldur en hún ella kynni að vera. Ég held m.ö.o. að mjög varhugavert sé að fjalla um þetta mál frá því sjónarmiði að hér sé fyrst og fremst verið að tala um félagslega stöðu manna eða virðingu þeirra. Ég held að maður sem leitar læknis af þessum sökum glati síður virðingu sinni með því en ef hann gerir það ekki.

Mér er mætavel kunnugt um að þessi viðhorf eru til og þau hafa verið til og það þarf ekki AIDS-sjúkdóminn til. Slíkt hefur verið til bæði í sambandi við aðra kynsjúkdóma og aðra sjúkdóma. Það er til þó nokkuð af fólki sem vill ekki fyrir nokkurn mun gangast undir læknisrannsókn af ótta við að á daginn komi að viðkomandi sé haldinn hættulegum sjúkdómi. Þetta þekkjum við, en engu síður hljótum við að ráðleggja að slíks sé leitað og þeim sem bera smit eða sjúkdóm sé ráðlagt á allan hátt hvernig við því ber að snúast, þeim sé hjálpað sem og fjölskyldum þeirra til þess að lifa lífinu á sem eðlilegastan hátt án þess að það hafi frekari hættu í för með sér.

Þetta eru atriði sem ég tel nauðsynlegt að draga fram og þess vegna fannst mér það mjög aðdáunarvert, sem fram kom í merkum fræðsluþætti í sjónvarpinu um þessi mál í vetur, þegar ungur maður sem var alllangt leiddur af AIDS-sjúkdómi - var þó ekki alltaf veikur - sagði: Ég hef ákveðið að verja lífi mínu til þess að hjálpa öðrum að verjast þessum sjúkdómi. Og með þessu viðhorfi fékk þessi maður kjark til að bera þetta böl. Þannig að það eru ákaflega mörg viðhorf sem til skoðunar koma.

Ég hlýt að geta þess í sambandi við önnur atriði, þ.e. upplýsingar um lagaákvæði og reglur í öðrum löndum, að sumt af því er ekki sambærilegt við okkar hugmyndir eða okkar lagafyrirkomulag, einfaldlega vegna þess að uppbygging laga í heild er öðruvísi víða í öðrum löndum. Sums staðar eru engin sérstök kynsjúkdómalög og engin sérstök lög um þetta og hitt heldur stórir heildarbálkar.

Aftur á móti er breska reglan þannig að þar eru mjög ítarleg ákvæði um þagmælsku - sem raunar eru sömu atriðin sem gilda hér sem meginreglur og liggja til grundvallar öllum ákvæðum um slík efni, að sjálfsögðu - en Bretarnir hafa það í raun og veru öfugt við það sem við höfum því þeir taka fram í mörgum orðum í lagaákvæði hve nauðsynlegt sé að hlíta þagnarskyldunni o.s.frv., útlista það, en gefa svo allsherjar heimild í lok laganna til þess að heilbrigðisyfirvöld geti, þegar smithætta sé o.s.frv. eða almannaheill bjóði, sett reglur um skráningu og hvað eina, og þar koma allar undantekningarnar í einu litlu ákvæði. Hér á landi höfum við haft það á hinn bóginn. Við tökum fram í sem skýrustum dráttum hvernig megi haga skráningu sjúkdóma. Við tökum fram í einu litlu ákvæði í hverjum lögum að gæta beri þagmælsku í hvívetna o.s.frv., en þetta er einfaldlega munur á aðferð við lagagerð. Og að því er varðar sænsku lögin þá eru reglurnar sem þar er beitt um skráningu í raun og veru miklu harðari en það sem vera mundi eftir íslensku lögunum þó þetta frv. yrði samþykkt.

Og þá kem ég að einu atriði enn. Mér finnst engin ástæða til að ganga út frá því sem sjálfsögðum hlut að upplýsingar um skráningu þessa sjúkdóms séu á almennri tölvuskrá í spítölunum. Svo var að heyra á máli sumra þingmanna að engið væri út frá því. Lögin segja það bara alls ekki. Ég sé ekki betur en það sé alveg heimilt innan ramma laganna að gera sérstakan lykil að þeirri skrá sem þarna er verið að ræða um, enda stendur í lagagreininni að það skuli vera sérstök skrá og það þýðir einfaldlega að það sé ekki hin almenna skrá. Hvernig sem því er hagað - einhvern veginn hefur tekist að láta það hljóma mjög skuggalega að sjúkdómurinn sé skráður. Þetta er ekki annað en gildir um alla sjúkdóma með einhverjum hætti og þetta er skráð nú þegar í hópi t.d. þeirra lækna sem með þetta hafa að gera núna, en að sjálfsögðu treystum við því að þeir fari með það sem trúnaðarmál og það verðum við áfram að gera.

Meginmálið er að við vitum um útbreiðslu sjúkdómsins til þess að við getum snúist eins skynsamlega við honum og unnt er.

Að því er varðar þá röksemd að lagasetning dragi úr aðsókn manna til þess að leita læknis veit ég ekki hvort sú fullyrðing stenst alveg. Hér hafa t.d. ekki verið sett nein lög um þetta atriði sérstaklega. Samt hefur dregið úr aðsókninni. Og ég get ekki varist þeirri hugsun að það kunni að vera umræðan, sem fram hefur farið, sem e.t.v. hefur kveikt eða alið á fordómum. Og þegar ég segi þetta vil ég undirstrika það að reynslan af kynsjúkdómalögunum eins og þau eru er mjög góð. Hún hefur orðið til þess að það hefur orðið auðveldara - eða þau hafa m.a. átt þátt í því - að hefta útbreiðslu kynsjúkdóma.

En vitanlega er lagasetning ekkert aðalatriði í öllum þessum málum. Aðalatriðið er vitanlega sjálf meðferð málanna eins og hún verður af hálfu lækna og heilbrigðisstarfsmanna og að hún byggist á hinum bestu vísindalegu upplýsingum hverjum sinni - það er auðvitað aðalatriðið. Lögin sem við erum hér að tala um væru lítið spor í þá réttu átt að vinna gegn útbreiðslunni, en með þeim er hins vegar vitanlega ekki allt fengið. Ég vil taka það fram að ég held að það sé nauðsynlegt að hafa þau nokkuð almenns eðlis eins og lögin eru núna. Það er auðvitað alveg út í hött að láta sér detta í hug að það verði einhver lagasetning um sérstaka hópa í þjóðfélaginu, annaðhvort eiturlyfjasjúklinga eða aðra. Slíkt getur auðvitað ekki gengið, enda er kannske ekki í þeim hópi allra löghlýðnasta fólkið í þjóðfélaginu því við vitum að meðferð eiturlyfja er ólögleg og það eitt segir sína sögu um afstöðu hópsins til laganna.

Hins vegar eiga eiturlyfjasjúklingar - eins og aðrir og hver sem er, líka þeir sem hafa lögbrot á samviskunni - sinn grundvallarrétt sem á að vera lögvarinn og þess vegna er það að ef þarf að grípa til frelsissviptingar eða slíks af öryggisástæðum verður það að byggjast á lagaákvæði. Það er mín skoðun og ég hygg að það sé skoðun allra þingmanna þegar við hugsum út í það atriði. Og þess vegna eru slík ákvæði til bæði í sóttvarnalögum og kynsjúkdómalögum og yfirleitt í þeim lögum þar sem fjallað er um hættu sem bægja þarf frá öðru fólki og stafar af einstaklingi er breiða mundi út þessa hættu.

Ég held, herra forseti, að það sé orðið tímabært að þetta frv. fari að komast til nefndar hér í hv. deild, og ég hvet til þess að menn hugleiði mál þetta vel í ljósi þeirrar nauðsynjar að hefta útbreiðslu þessa sjúkdóms. Ég hef óneitanlega borið nokkurn ugg í brjósti vegna þeirrar tafar sem orðið hefur á samþykkt frv. og vek athygli á því að á þeim tíma sem leið frá því að fyrsta AIDS-tilfellið uppgötvaðist í Svíaríki, sem hér hefur verið mjög vitnað til, þar til lagafrumvarp var samþykkt stórfjölgaði tilfellum sjúkdómsins og þar á meðal hjá fólki sem lögin hefðu getað gilt um. Ég held því að við ættum að athuga málið vel, en við eigum ekki að tefja það.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þessu máli verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn., eins og ég raunar lagði til fyrir jól, en það er svo langt síðan að mér finnst tímabært að endurtaka það á nýju ári.