29.01.1986
Neðri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Kristín S. Kvaran:

Hæstv. forseti. Ég hefði talið það að mörgu leyti eðlilegt að herra forseti hefði átalið að hér væru gerðar athugasemdir við mál þm. sem ekki eru viðstaddir þessa umræðu og hafa fjarvist. Hæstv. ráðh. þótti áðan nauðsyn bera til að gera athugasemd eða átelja það sem fram kom í máli hv. 10. landsk. þm. fyrr við umræðuna. Hæstv. ráðh. þótti nauðsynlegt að gera það við 1. umr. þó að vitað sé að málið á eftir að koma til 2. umr. og e.t.v. 3. Þá hefði verið nægur tími til að gera þessar athugasemdir að hv. 10. landsk. þm. viðstöddum. Mér finnst að ástæða hefði verið til að stöðva átölur hæstv. ráðh. alveg án tillits til innihalds þess sem sagt var bæði nú og þá.

Varðandi það að aðalatriði þessara laga, að því er hæstv. ráðh. sagði hér áðan, sé það að verja hina heilbrigðu vil ég enn einu sinni koma að því að það verður alls ekki gert með lögum sem sett yrðu samkvæmt þessu frv. sem hér er til umræðu. Vegna þess að númer eitt, tvö og þrjú held ég að það sé alveg ljóst að fyrst og fremst þurfi að reyna að virkja þá sem hugsanlega eru í þessum áhættuhópum til að koma og láta athuga sig. Ég held að við gerum það langbest með fræðslu og ég held að reynsla sú, sem dregin hefur verið fram af þeim lögum sem sett voru í Svíþjóð, gefi okkur ekki tilefni til þess að ætla að við fáum einhver önnur viðbrögð hér, enda held ég að það að dregið hefur úr aðsókn til rannsóknar eða athugunar á sýnum eftir að farið var að ræða um það hvort þessi lög yrðu sett - ég er alfarið sammála síðasta hv. ræðumanni um að það að dregið hefur úr aðsókn - er ekki endilega vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið hér inni vegna þess að hana heyra tiltölulega mjög fáir. Við erum núna stödd hér fjögur, fimm og tveir, þrír á pöllunum. Um þessar umræður hefur ekki verið getið í fjölmiðlum þannig að ég held að það sé einungis sú litla umræða eða umfjöllun sem átti sér stað, um að í ráði væri að setja slík lög sem hér er til umræðu frv. um, sem hefur orðið þess valdandi að fólk heldur að sér höndum. Það þorir ekki, það leggur ekki í það fyrr en það veit hvernig þetta verður í laginu og ég vil ekki sitja undir þeim dylgjum að ég hafi átt þátt í því að fólk hafi hætt við að koma til athugunar.

Þar sem aðalmarkmiðið með þessu frv. er m.a. samkvæmt greinargerð að veita smituðum meðferð og ráðleggingar til að sporna gegn því að þeir sýki aðra, þá vil ég aðeins koma að því aftur, sem ég ræddi um hér við umræðuna fyrir jól og aftur við umræðu um fjárlög, þegar ég sagði frá því að fyrir lægju niðurstöður úr könnun, sem gerð var í Bandaríkjunum, um það hvernig best mætti ná því markmiði að ná til áhættuhópanna. Það sýnir sig að best virðist vera hægt að ná til þessara áhættuhópa með fræðslu til þeirra hvers um sig, ekki almennri en til þeirra hvers um sig. Þá virðast þeir koma best fram og þá er hægt að veita þeim þær ráðleggingar, sem væntanlega verða bæði til þess að þeir hafa það sjálfir betra og að þeir sýki ekki aðra. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt ráðherra minnast neitt á þennan þátt sérstaklega og finnst mér að það vanti inn í umræðuna hvort í rauninni sé ekki stærsta sporið fengið í þessari tilraun, til þess að sporna gegn útbreiðslunni, með því að reyna að koma á fræðslu til sérstakra áhættuhópa. Hæstv. ráðh. sagði áðan að lögin yrðu í sjálfu sér lítið spor í áttina til þess að vinna gegn útbreiðslunni og ég er mjög sammála því. Það er einmitt það sem þessi umræða þarf að snúast um og það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að það verður fyrst og fremst hægt að koma í veg fyrir eða hefta útbreiðslu þessa sjúkdóms með fræðslu.

Ég vil einnig geta um það hér, vegna þess að það kom fram í umræðunni, að það er að sjálfsögðu hægt að gefa leiðbeiningar um hegðunarmynstur og hvernig fólki ber helst að koma fram við sína nánustu með fræðslu. Og þar sem dregnar voru fram þær staðreyndir, sem vitaskuld eru heldur óhuggulegar, að það eru ansi mörg börn sem virðast fæðast smituð, þá held ég að það sé ekki af mannvonsku eða að menn vilji endilega verða til þess að smita þá, sem þeir eru nálægt og þá sem þeim þykir vænt um, að þeir myndu ekki koma í mælingu eftir að slík lög hafa verið sett eða núna þar sem umræðan um þau er í gangi, heldur vegna þess að þeir telja sig alveg geta farið eftir leiðbeiningum um hegðunarmynstur sem kemur í veg fyrir að þeir smiti án þess að vera skráðir einhvers staðar. Þetta held ég að séu ákveðin atriði sem nauðsynlegt sé að komi fram í dagsljósið. Og einnig þetta, að hættuhóparnir hafi af því mesta hagsmuni að unnt sé að hefta útbreiðsluna. Ég verð að segja að það er okkar allra hagur að unnt sé að hefta útbreiðsluna og það er auðvitað þess vegna sem lögð er á það áhersla að ræða málið hér mjög ítarlega til þess að það sé gert á þann hátt að við séum örugg um að það verði unnt að hefta útbreiðsluna. En það verður örugglega ekki hægt með því að ganga svo stíft fram í að setja einhver lög sem fyrir fram virðast ætla að verða þess valdandi - a.m.k. samkvæmt reynslunni núna að dregið hefur úr því að fólk komi til mælingar - að fyrirsjáanlegt virðist að fólk hætti að koma til mælingar.

Umr. (atkvgr.) frestað.