30.01.1986
Sameinað þing: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

104. mál, endurskoðun gjaldþrotalaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Þessi till. hefur verið nokkuð lengi til meðferðar, eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Vestf.

Ég vil aðeins koma inn á það hér þar sem hann sagði að ráðgjafarþjónusta hefði verið sett af stað eftir að þessi till. kom fram. Þetta er náttúrlega misskilningur vegna þeirrar einföldu ástæðu að samkvæmt tillögu félmrh. hófst þessi starfsemi í febrúar 1985 hjá Húsnæðisstofnun með því að setja á laggirnar sérstaka deild, ráðgjafarþjónustu,sem hafði það hlutverk að greiða úr vanda húsbyggjenda. Samkvæmt skýrslu sem var gefin út nú á haustdögum eftir að fyrsta hluta þessarar starfsemi lauk höfðu alls 2300 umsóknir borist um aðstoð gegnum þessa ráðgjafarþjónustu og það höfðu verið veitt samtals 1952 lán að fjárhæð 240,9 millj. kr. í þessu skyni. Þessu til viðbótar hafa síðan verið veittar um 10 millj. vegna eftirstöðva sem voru af þessu máli á s.l. ári, eða samtals lán að fjárhæð 250 millj. kr.

Ég ætla ekki að tefja umræður hér með því að skýra þessa þjónustu. Hún hefur fengið viðurkenningu. Hún kom að ákaflega miklum notum fyrir allt það fólk sem lenti í erfiðleikum í sambandi við húsnæðismálin. Í framhaldi af því og vegna þeirrar reynslu sem þarna fékkst var ákveðið að minni tillögu á s.l. hausti að gera þessa starfsemi að föstum þætti í starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins, ráðgjafarstofnun, sem hefur verið að móta sína starfsemi undanfarnar vikur og hefur þegar hafið starf af fullum krafti. Það sem verður aðalmarkmið þessarar starfsemi er að veita upplýsingar og gefa þeim aðilum sem ætla að byggja eða kaupa húsnæði fullnægjandi upplýsingar um hvernig á að standa að slíkum málum. Þessi stofnun hefur sett upp mjög vandað reiknilíkan þannig að hún getur veitt öllum sem þangað koma inn upplýsingar um væntanlega greiðslubyrði, væntanlega möguleika til lántöku og hvernig skynsamlegast er að standa að slíkum málum.

Ég get getið þess hér, af því að þetta kom hér til umræðu, að á stjórnarfundi í Húsnæðisstofnun í gær voru samþykktar reglur að tillögu félmrh. um að hefja nú þegar viðbótarlánveitingar til þeirra húsbyggjenda sem eru enn í vanda, að fjárhæð 200 millj. kr. Þetta verður gert í samstarfi og samráði við bankakerfið á Íslandi. Jafnframt hefur ríkisstj. gert samkomulag við viðskiptabanka og sparisjóði um að ganga að því að breyta vanskilaskuldum og skammtímaskuldum í lengri lán, allt að tíu árum. Það verður gefin út opinber fréttatilkynning um þetta væntanlega áður en þessi dagur er á enda.

Ég vildi láta þetta koma fram hér, herra forseti, í framhaldi þess sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Vestf.