30.01.1986
Sameinað þing: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það skal tekið fram að það er venja af hálfu Alþingis að fylgja eftir fyrirspurnum hvort sem þeim á að svara munnlega eða skriflega. Það er venjulega fylgst með hvað líður svörum við skriflegum fyrirspurnum og samkvæmt venju hefur það verið gert um þá fsp. sem hér hefur verið vakin athygli á. Síðast í morgun var athugað um það mál og þingið fékk þá þær upplýsingar að þess væri að vænta að svar kæmi eftir nokkra daga.

Það skal tekið fram að það geta verið lögmætar ástæður fyrir því í undantekningartilfellum að eitthvað þurfi að dragast að svara skriflegum fyrirspurnum. Það er vegna eðlis þeirra upplýsinga sem beðið er um. Það kann að þurfa mismunandi langan tíma. Með tilliti til þessa er það ekki fortakslaust í þingsköpum að svarið skuli vera komið innan sex daga heldur að jafnaði. Og sú breyting var gerð með þingskapalögum þeim sem nú gilda og samþykkt voru á síðasta þingi. Ég vænti að þetta skýri sig.